Andri Þór Sturluson (AndriThor)

Ég trúi því að okkur vegna best þegar regluverkið er skýrt og gegnsætt. Einföld kerfi sem fylgt er eftir af hörku svo allir sitji við sama borð.

Ég er 32 ára, búsettur í Garðabænum og á börnin Bríeti Kötlu, Jörfa og Björt. Lengst af hef ég unnið sem aðstoðarvarðstjóri hjá Fangelsismálastofnun en ég er menntaður fangavörður.

Ég á og er ritstjóri ádeilusíðunnar Fréttastofa Sannleikans, Sannleikurinn.com, en vinn nú aðallega sem textahöfundur og við verslun. Konan mín rekur síðan tvö kaffihús og kaffiframleiðslu í Reykjavík þannig að nóg er að gera.

Ég hef skýr markmið, ætla að gefa mig allan í þau og hleypa síðan öðrum að. Ég mun berjast af hörku fyrir nýju stjórnarskránni. Vera sanngjarn en fastur fyrir.

Ég mun beita mér fyrir því að beint lýðræði sé aukið og auðveldað. Réttindi fólks og málleysingja séu virt, að mannúð og kærleikur séu í fyrirrúmi og að “computer says no” villum verði fækkað. Að tryggt sé að um leið og fólki sé gert mögulegt að hafa meiri áhrif sé þess gætt að það skilji hvernig.

Helstu áherslur er það sem ég kalla pírataleg framtíðarsýn: Að allir geti tekið þátt og haft áhrif á málefni sem varðar þá sjálfa. Að kerfin sem ríkið notar séu réttlát, skiljanleg og í stöðugri þróun. Ég vil tryggja að komandi kynslóðir séu klárari og hæfari einstaklingar en við.

Og ég ætla að hafa gaman af lífinu.