Andri Þór Sturluson (AndriThor)

Ég trúi því að okkur vegni best þegar regluverkið er skýrt og gegnsætt. Einföld kerfi sem fylgt er eftir af hörku svo allir sitji við sama borð.

Ég átti og var ritstjóri ádeilusíðunnar Fréttastofa Sannleikans, Sannleikurinn.com, og skipaði þriðja sæti lista Pírata í Suðvesturkjördæmi fyrir seinustu þingkosningar.
Ég tók sæti tvisvar á þessu ári sem fyrsti varaþingmaður okkar þar og ræður mínar á þinginu er hægt að nálgast hérna:

https://www.althingi.is/altext/cv/is/raedur/?nfaerslunr=1290

Ég er 33 ára, búsettur í Garðabænum og á börnin Bríeti Kötlu, Jörfa og Björt. Lengst af hef ég unnið sem aðstoðarvarðstjóri hjá Fangelsismálastofnun en starfa núna hjá Hjallastefnunni í Garðabæ. Konan mín rekur síðan tvö kaffihús og kaffiframleiðslu í Reykjavík þannig að nóg er að gera.

Ég hef skýr markmið, ætla að gefa mig allan í þau og hleypa síðan öðrum að. Ég mun berjast áfram af hörku fyrir nýju stjórnarskránni. Vera sanngjarn en fastur fyrir.

Ég mun beita mér fyrir því að beint lýðræði sé aukið og auðveldað. Réttindi fólks og málleysingja séu virt, að mannúð og kærleikur séu í fyrirrúmi og að “computer says no” villum verði fækkað. Að tryggt sé að um leið og fólki sé gert mögulegt að hafa meiri áhrif sé þess gætt að það skilji hvernig.

Helstu áherslur eru að allir geti tekið þátt og haft áhrif á málefni sem varðar þá sjálfa. Að kerfin sem ríkið notar séu réttlát, skiljanleg og í stöðugri þróun. Ég vil tryggja að komandi kynslóðir séu klárari og hæfari einstaklingar en við.

Og ég ætla að hafa gaman af lífinu.

--Spurningar frá kjördæmaráði--

1. Ef þú nærð kjöri til alþingis og seinna kæmi til ágreinings og aðstæðna þar sem þú segðir þig úr flokknum. Myndir þú segja af þér og víkja þingsætinu til varamanns eða starfa áfram sem óháður eða með öðrum flokkum?

Það fer ekki á milli mála í mínum huga að flokkurinn á þingsætið en ekki þingmaðurinn. Mér finnst bæði óheiðarlegt og siðferðislega rangt að ræna flokk þingsæti sem fjöldi fólks aflaði honum. Að vera óháður eða færa sig um flokk kemur ekki til greina af minni hálfu.

2. Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá?

Heldur betur.

3. Hvaða stefnumál, úr samþykktum stefnum Pírata, þykja þér mikilvægust fyrir komandi kjörtímabil?

Langtíma heilbrigðisáætlun og gjaldfrjáls heilbrigðisþjónusta, ný stjórnarskrá byggð á þeirri gífurlega miklu vinnu sem þegar hefur verið farið í og aðgerðarstefna Pírata í loftlagsmálum nánast eins og hún leggur sig. Málefni fanga eru mér einnig mjög hugleikinn.

4. Hvað gerir þig að frambærilegum kosti til að gegna þingmennsku fyrir Pírata?

Ég er fljótur að hugsa, á auðvelt með samskipti við annað fólk og yfirleitt með góða stjórn á þeim aðstæðum sem ég er í þó það ríki ringulreið. Ég er alltaf með það bak við eyrað að þau sem veita mér brautargengi geti verið af því stolt. Ég hef verið að gera grín að pólitík síðan fyrir hrun og hef lagt mikla vinnu í það að skilja hvernig stjórnmálamenn hugsa og sjá hvað er raunverulega að gerast þegar þeir slá ryki í augu okkar.

5. Með hvaða hætti telur þú líklegast að Píratar geti fengið málum sínum framgengt á þingi?

Með því að hegða sér ekki eins og aðrir flokkar en vera engu að síður alltaf sanngjarnir og rödd skynseminnar. Vera áberandi en vinalegir, hafa hátt og vera allstaðar. Með því að vera þjónar, vera auðmjúkir gagnvart fólki, málefnum og lífinu öllu. Gleyma aldrei hvaðan við komum og hvert við stefnum. Vera með hlutina á hreinu, gefast aldrei upp og fá fólk til að muna að lífið er áhugavert, fólk er mestu verðmætin og hlátur er mikilvægur.