Finnur Þ. Gunnþórsson (Finnurgunn)

Ég Finnur Þ. Gunnþórsson hef nú boðið mig fram.
www.finnurpirati.net

Helstu kostir mínir felast í því að sjá hæfileika í öðrum og draga þá fram fyrir heildina. Ég tel mig hafa jákvæð áhrif á starfsmenningu og auka á almenna gleði og vellíðan í hópastarfi. Þetta tel ég leiða til skilvirkari árangurs. Ég er fær greinandi og fljótur að finna upplýsingar, er með öflugt tengslanet og hef þroskaða félagsfærni.

Ég býð mig fram í prófkjöri til Alþingiskosninga í von um þingmannssæti af því ég brenn fyrir málefnum Pírata og hef verið einn af burðarásum flokksins undanfarið. Tel ég að það sé eðlilegt að ég skorist ekki undan heldur taki á mig þá ábyrgð sem felst í því að vera áfram sem eitt af andlitum flokksins; þjóna heildinni til gagns og vinna út frá grunnstefnu Pírata og Píratakóðanum. Ég er tilbúinn að taka fyrsta sæti og leiða listann og tek það sæti sem Píratar treysta mér fyrir. Ég legg áherslu á samvinnu og velgengni allra Pírata í komandi kosningum.

Var ég síðast í framboði fyrir Pírata í sveitarstjórnarkosningum 2014, þá í þriðja sæti í Hafnarfirði. Á aðalfundinum eftir þær kosningar hlaut ég framúrskarandi kosningu og var kjörinn formaður framkvæmdaráðs Pírata frá 2014 – 2015. Síðan var ég beðinn um að fara í trúnaðarráð flokksins þar sem ég sinnti hlutverki um tíma. Er nú varamaður í stjórn Pírata í Hafnarfirði.

Ég er menntaður í Danmörku þaðan sem ég lauk MSc. gráðu í stjórnun og markaðsfræðum 2005. Hafði ég áður lokið BSc. gráðu þar í alþjóðaviðskiptum og diplómanámi í því sama frá ESC Grenoble í Frakklandi 2004.

Ég hef sinnt stjórnunarstöðu fyrir Hafnarfjarðarbæ frá því 2006, verið ráðgjafi í hópi fyrir stórfyrirtæki og sinnt uppbyggingu einstaklinga út frá áhuga þeirra og hæfileikum meðal annars í Pírataflokknum.

Ég er fæddur 1980 í Reykjavík og uppalinn í Hafnarfirði. Á kærustu og er barnlaus.

Ég hef markvisst nýtt mér reynslu mína og nám í Pírötum til þess að efla samskipti, frjálst og uppbyggilegt skipulag, vellíðan og liðsheild. Ég hef lagt mig fram um að draga hæfileika annarra fram og veita þeim svigrúm til athafna og komið að stofnun ýmissa starfshópa. Ég komst að því að ég væri Pírati þegar Halla Kolbeinsdóttir hafnfirskur Pírati heyrði mig tala í nýsköpunarsamkeppni og benti mér á að áherslur mínar smellpössuðu við Píratana.

Ég vil beita mér í samræmi við samþykktir og stefnur Pírata sem eru sammála um þörfina á stjórnarskrárbreytingu og um að leggja þar stjórnarskrá Stjórnlagaráðs til grundvallar.

Ég vil beita mér fyrir að stöðugleika, festu og sjálfbærni sé sinnt í ríkisfjármálum og fyrir aukinni vellíðan á landinu. Á ég við að sinna og efla heilbrigðisþjónustu og menntakerfið út frá áherslum Pírata og að borgaralaun séu áfram skoðuð alvarlega sem lausn. Ég vil ekki að þjóðfélagsþegnar séu jaðarsettir eða það skorti á mannvirðingu og almenna velferð.

Ég vil beita mér fyrir breyttri fiskveiðistjórnun.
Ég vil að við aukum stöðugt á gagnsæi ríkisfjármála, þannig að hægt sé að lesa kostnaðargögn auðveldlegar og endurreikna stærðir til þess að gera sér grein fyrir fjármagnsflæði t.d. hvað varðar innkaup á lyfjum og fleiru.

Ég vil að Píratar beiti sér fyrir góðum samskiptum og starfsháttum.
Ég sé tækifæri í að samræma stefnur ríkisins við stefnur Pírata með verk- og langtímaáætlun ríkisfjármála, vegna þess að ég vil að Píratar verði leiðandi hvað varðar mælikvarða og skilgreiningar á árangri þannig að við mótum störf þingheims til framtíðar.

Ég vil beita mér fyrir aukinni vellíðan ríkisstarfsmanna meðal annars með því að skoða styttri vinnuviku og bæta við ytra eftirliti svo sem fyrir lögreglu og heilbrigðisstarfsmenn.
Síðan vil ég halda áfram starfi mínu við að efla Pírata og tengsl milli þingflokks, stjórnar flokksins, sem er framkvæmdaráðið, og grasrótarinnar.

Ég vil beita mér fyrir því hvar sem ég er að ofbeldi þrífist ekki og að þeir sem geti ef til vill verið minni máttar á einhvern hátt njóti styrks þeirra sem hann hafa.

Hagsmunaskráning (Stjórnarseta, fjárhagsleg tengsl, annað sem skiptir máli)
Veit ekki af neinum hagsmunatengslum sem gætu varðað framboðið eða skipt máli. Hef starfað fyrir Hafnarfjarðarbæ undanfarin ár og lagt mikinn kraft í innra starf Pírata frá því ég bauð mig fram í sveitarstjórnarkosningum í Hafnarfirði þegar þær voru síðast árið 2014. Heimasíðu mína er að finna á: www.finnurpirati.net