Gunnar Hrafn Jónsson (GunnarHrafn)

Ég er 35 ára og hef starfað sem blaðamaður stóran hluta ævinnar. Ég er með BSc í Félagsvísindum og hef búið í Bretlandi, Hollandi, Kína og Þýskalandi, auk Íslands.

Eftir að ég flutti heim árið 2006 var ég blaðamaður hjá Reykjavík Grapevine og síðan fréttamaður á RÚV. Það var gríðarlega fjölbreytt og skemmtilegt starf sem veitti mér mikla reynslu á mörgum sviðum en ég sagði upp á RÚV núna í sumar eftir rúmlega átta ára starf, sem var ákaflega erfið ákvörðun og eitthvað sem ég bjóst aldrei við að gera. Það gerði ég til að geta helgað mig starfi Pírata og þáttaka í stjórnmálum útilokar auðvitað frekari störf á fréttastofunni.

Ég á eina dóttur sem er á þriðja ári og er algjör snúður. Áhugamál mín eru almennur nördaskapur og alþjóðastjórnmál. Ég sigraði uppistandskeppnina fyndnasti maður Íslands árið 2012 og hún hefur ekki verið haldin síðan, sem hljóta að teljast ágæt meðmæli. Ég hef líka skrifað eitt atriði í Áramótaskaupið, sem eru kannski síðri meðmæli.

Ég hef aldrei tekið þátt í stjórnmálastarfi fyrir utan að kjósa einn ættingja í prófkjöri fyrir mörgum árum. Hinir hefðbundnu flokkar eru einfaldlega ekki að virka og tilkoma Pírata, sem raunverulegur valkostur, er einmitt heila ástæðan fyrir því að ákvað að skella mér út í þessa rússíbanaferð.
Hvernig sem prófkjörið fer verður nóg að gera í starfi Pírata á næstu misserum og ég hlakka til að taka þátt í því.

Eins og komið hefur fram býð ég mig fram í prófkjöri Pírata í Reykjavík. Ég væri meira en sáttur við annað sætið í öðru hvoru kjördæminu en það er auðvitað Pírata að ákveða hvernig listarnir raðast. Ég mun því taka glaður við hvaða sæti sem mér býðst.

Stefnumál mín, eins og annarra frambjóðenda Pírata, eiga sér náttúrulega grunn í því lýðræðislega ferli sem er til staðar innan flokksins. Grasrótin ákveður stefnuna í meginatriðum, ekki einhver reykfyllt herbergi eða útvaldir fulltrúar.

Það er þó nauðsynlegt fyrir hvern og einn að forgangsraða til að heildin komist yfir sem mest.

Sjálfur mun ég, í stuttu máli, leggja mesta áherslu á:

-Að koma heilbrigðiskerfinu til bjargar (ekki síst geðheilbrigðiskerfinu) eftir áratuga niðurskurð og bæta þær óboðlegu aðstæður sem starfsfólk og sjúklingar búa við
-Að koma á beinna lýðræði og raunverulegu þingræði með því að aðskilja framkvæmdar- og löggjafarvald. Ráðherrar eiga ekki að sitja á þingi.
-Að afgreiða nýja stjórnarskrá byggða á tillögum sem voru samþykktar í þjóðaratkvæðagreiðslunni um árið
-Að tryggja að menntakerfið, LÍN þar með talinn, geri fólki kleift að öðlast þá menntun sem það sækist eftir – það borgar sig alltaf fyrir samfélagið til lengri tíma litið
-Að fara gagngert yfir þáttöku Íslands í alþjóðasamstarfi og setja skýr markmið um hvernig við ætlum að beita okkar rödd á alþjóðavettvangi í samræmi við þau gildi sem við aðhyllumst sem friðsöm og herlaus þjóð í lýðræðislegu samfélagi.

Það er margt annað sem mætti nefna: Skuldamál heimilanna, sjávarútvegsmál, landbúnaðarmál, velferðarmál, jafnréttismál, afglæpavæðing fíkniefnaneyslu og svo mætti lengi telja.

Ef þú hefur einhverjar spurningar er þér meira en velkomið að hafa samband við mig á Facebook eða í tölvupósti: gunnarh@gmail.com