Gunnar Hrafn Jónsson (GunnarHrafn)

Ég gef aftur kost á mér eftir þetta stutta kjörtímabil þar sem mörg mál eru ókláruð og ég hreinlega lofaði mörgu fólki, sem á um sárt að binda, að ég myndi leggja allt undir til að ná fram umbótum á geðheilbrigðiskerfinu sem er í molum. Aðgerðaráætlun síðustu stjórnar í geðheilbrigðismálum er nú í uppnámi og óþolandi óvissa ríkir á meðan.

Ég er fæddur 1981 og hef starfað sem blaðamaður stóran hluta ævinnar, áður en ég tók sæti á Alþingi fyrir Pírata eftir síðustu kosningar. Ég er með BSc í Félagsvísindum og hef búið í Bretlandi, Hollandi, Kína og Þýskalandi, auk Íslands.

Ég á eina dóttur sem er á fjórða ári og er algjör snúður.

Stefnumál mín, eins og annarra frambjóðenda Pírata, eiga sér náttúrulega grunn í því lýðræðislega ferli sem er til staðar innan flokksins og er stjórnað af grasrótinni. Það er þó nauðsynlegt fyrir hvern og einn að forgangsraða til að heildin komist yfir sem mest.

Sjálfur mun ég, í stuttu máli, leggja mesta áherslu á:

-Að koma heilbrigðiskerfinu til bjargar (ekki síst geðheilbrigðiskerfinu) eftir áratuga niðurskurð og bæta þær óboðlegu aðstæður sem starfsfólk og sjúklingar búa við
-Að koma á beinna lýðræði og raunverulegu þingræði með því að aðskilja framkvæmdar- og löggjafarvald. Ráðherrar eiga ekki að sitja á þingi.
-Að afgreiða nýja stjórnarskrá byggða á tillögum sem voru samþykktar í þjóðaratkvæðagreiðslunni um árið
-Að tryggja að menntakerfið, LÍN þar með talinn, geri fólki kleift að öðlast þá menntun sem það sækist eftir – það borgar sig alltaf fyrir samfélagið til lengri tíma litið
-Að fara gagngert yfir þáttöku Íslands í alþjóðasamstarfi og setja skýr markmið um hvernig við ætlum að beita okkar rödd á alþjóðavettvangi í samræmi við þau gildi sem við aðhyllumst sem friðsöm og herlaus þjóð í lýðræðislegu samfélagi.

Það er margt annað sem mætti nefna: Skuldamál heimilanna, sjávarútvegsmál, landbúnaðarmál, velferðarmál, jafnréttismál, afglæpavæðing fíkniefnaneyslu og svo mætti lengi telja.

Ef þú hefur einhverjar spurningar er þér meira en velkomið að hafa samband við mig á Facebook eða í tölvupósti: gunnarh@gmail.com