Lárus Vilhjálmsson (Larus)

Ég er Leikhússtjóri Gaflaraleikhússins í Hafnarfirði, hæsnabóndi í Álfagarði í Kjós/Hvalfirði, einn af stofnendum Pírata í Hafnarfirði og í stjórn Kjördæmafélags Suðvesturkjördæmis. Ég var í 16 sæti á lista Pírata í Suðvesturkjördæmi í síðustu kosningum, tók þátt í frábærri kosningabaráttu með yndislegu fólki og hlakka til næstu vikna. Ég býð mig fram sem frambjóðandi til Alþingis vegna þess að ég tel að allir Píratar eigi að vera fólki fyrirmynd í raunverulegu þáttökulýðræði sem felur í sér virka þáttöku í stjórnmálum bæði sem frambjóðandi og kjósandi. .

Ég á að baki nám í ensku og stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands og diplómanám í fjármálastjórn, mannauðstjórn og almannatengslum frá skóla bandaríska utanríkisráðuneytisins. Starfaði sem upplýsingafulltrúi og framkvæmdastjóri hjá Upplýsingaþjónustu/Menningarstofnun Bandaríkjanna og sem sérfræðingur í almanna/menningartengslum við Ameríska Sendiráðið. Ég var um 5 ára skeið forstöðumaður Nýlistasafnsins og í kringum hrunið framkvæmdastjóri fjárfestingafyrirtækis. Frá árinu 2010 hef ég rekið Gaflaraleikhúsið og er í stjórn Sjálfstæðu leikhúsanna. Ég á einnig ferðaþjónustufyrirtækið Álfagarðinn og er formaður Ferðamálasamtaka Hafnarfjarðar. Ég er í stjórn Framtíðarlandsins og hef um langt skeið verið virkur í náttúruverndarbaráttu á Íslandi og var t.a.m. handtekinn í mótmælum í Gálgahrauni árið 2013. Meðfram þessum störfum hef ég skrifað nokkuð leikrit og leikstýrt og leikið í fjölda leiksýninga. Ég á gott með að vinna með texta á bæði íslensku og ensku og er vanur að koma fram bæði sem fyrirlesari og í viðtölum í útvarpi og sjónvarpi.

Varðandi samræmdu spurningarnar segi ég að ef ég næði kjöri á alþingi og myndi síðar segja mig úr flokknum vegna ágreinings eða aðstæðna þá myndi ég segja af mér sem þingmaður og láta þingsætið til varamanns.
Ég vil einnig að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá.

Stjórnarskráin, velferðar/heilbrigðismál og umhverfismál þykja mér mikilvægust á næsta kjörtímabili. Ég tel að þekking mín og reynsla í alþjóðamálum, umhverfismálum og málefnum menninga og lista geri mig að góðum þjóni almennings á Alþingi. Ég er einnig heiðarlegur, réttsýnn og ber virðingu fyrir skoðunum fólks. Ég hef verið virkur í grasrót pírata og þekki vel til þeirra stefnumála sem hafa verið samþykkt í kosningakerfinu og var kosin til starfa í Úrskurðarnefnd á síðasta aðalfundi. Sumum finnst ég líta út eins og jólasveinn og þótt að þeir séu sumir hverjir hrekkjóttir og hysknir þá eru þeir yfir höfuð gæðablóð og góðir við menn og skepnur. Það vil ég vera.

Varðandi hagsmunatengsl þá á ég 50% hlut í ferðaþjónustufyrirtækinu Álfagarðinum sem tekur til starfa næsta sumar og er í stjórn Sjálfstæðu leikhúsanna, Assitej -samtaka leikhúsa á Íslandi fyrir unga áhorfendur og Ferðamálasamtökum Hafnarfjarðar.

Ég trúi því að hugmyndafræði Pírata um valdeflingu almennnings, heiðarleika í stjórnmálum, aukið gegnsæi og lýðræði og samfélag sem trúir á virðingu og frelsi einstaklingsins, og öflugt öryggisnet fyrir borgarana sé það sem Ísland þarfnast. Þess vegna er mikilvægt að Píratar nái góðum árangri í komandi kosningum og myndi meirihlutastjórn með öðrum flokkum eða styðji minnihlutastjórn. Þannig er hægt að þoka okkar stefnumálum áfram. Píratar eru framtíðin.