Sigurður Erlendsson (SiggiE)

Kæru Píratar.

Ég heiti Sigurður Erlendsson og er fæddur árið 1960 í Reykjavík, bjó í smáíbúðahverfinu til 14 ára aldurs en fluttist þá í Efra-Breiðholtið. Er í sambúð. Eigum þrjú börn; hún eina dóttur af fyrra sambandi og ég son og dóttur.

Ég hef búið á nokkrum stöðum á landinu; Höfuðborgarsvæðinu, Bíldudal, Héraði, Húsavík og Grindavík.

Ég er kerfisstjóri hjá Rekstrarfélagi stjórnarráðsbygginga. Ég er menntaður tölvufræðingur ásamt því að hafa sótt mörg námskeið sem viðkoma tölvubúnaði ofl. Ég sótti m.a. tvö námskeið hjá EMC2 í Millford Massachusetts.

Ég hef unnið í sveit, verkamanna-, bygginga- og rannsóknavinnu, við opinbera þjónustu, tölvuþjónustu, fræðslumiðstöð, grunn- og framhaldsskóla ofl. Rak fyrirtæki ásamt konu minni í Grindvík 2003 – 5.

Ekkert er af hagsmunatengslum sem gætu varðað framboðið eða skipt máli.

Ég var skoðunarmaður reikninga Pírata á síðasta tímabili og í kjörstjórn. Ég er í stjórn Pírata í Kópavogi og Pírötum í Suðvesturkjördæmi.
Er gjaldkeri í stjórn Íbúasamtaka Engihjalla og húsfélags Engihjalla 25, en í Engihjalla búa um 903 einstaklingar sem jafnast á við lítið bæjarfélag.
Var formaður 1.deildar StRv. og hef setið þing BSRB og verið trúnaðarmaður á vinnustað og í trúnaðarráði Rafis.

Ég er talinn vera góður í mannlegum samskiptum og röskur til verka.

Skráði mig í Pírata í upphafi árs 2015.
Ég hef ásamt Finni Þ. Gunnþórssyni haldið utan um hópinn „Finnum fé“ hjá Pírötum sem hefur m.a. einbeitt sér að því að kynna sér fjármál ríkisins, fjárlagagerð og „Forensic accounting“

Ég álít að þingið eigi að sinna þjónustuhlutverki fyrir fólkið í landinu og það verður aðeins gert með öðrum hugsanahætti og áherslum líkt og Píratar boða.

Grunnstefna Pírata og Píratakóðinn eru mér mjög hugleikin og mun hafa í heiðri við mín störf fyrir Pírata.

Stefnumálum Pírata stend ég með af heilum hug.

Styð það að Píratar vilja aðskilja ráðherra og þingmenn svo það sé ekki sama fólkið með löggjafarvald og framkvæmdarvald.

Styð það að Píratar vilji takmarka fjölda kjörtímabila sem fólk getur setið í embætti.

Styð og kaus með nýrri stjórnarskrá Stjórnlagaráðs.

Tel að það sé ekki tími fyrir smákónga með stórt egó heldur þarf samheldni og liðsheild líkt og Píratar boða.

Mér blöskrar framkoma núverandi stjórnvalda við almenning í landinu og eiginhagsmunastefna þeirra. Sú framkoma sem er í pólítík í dag er ólíðandi og tími til komið að fólkið í landinu fái raddir á þing frá fólki sem hefur vilja og áhuga á að vinna fyrir landsmenn og þá sérstaklega fyrir þá sem minna mega sín í þjóðfélaginu.

Ég vil beit mér m.a. fyrir umverfismálum. T.d. lausnum varðandi gróðurhúsaáhrif, en þar eigum við Íslendingar að vera í fararbroddi með því að nota endurnýjanlega orku á farartæki, rækta sem mest af okkar grænmeti innanlands, endurheimta votlendi, takmarka metanlosun en hún er næstmesta orsök loftslagsbreytinga á jörðinni á eftir koltvísýringslosun.

Ég vil sjá aðgæslu varðandi erfðabreytingu matvæla.
Sjá „Því hefur verið spáð að notkunartölur á glýfósati frá 2011 muni tvöfaldast til 2017. Um 85% af erfðabreyttu korni var árið 2012 með innbyggt þol fyrir gróðureyðingarefnum. Í Bandaríkjunum var þá um helmingur kornuppskerunnar erfðabreyttur eða „Monsanto’s Roundup Ready“, en það var ræktað á um 65 milljónum hektara. Evrópusambandið hefur fengið inn á sitt borð vaxandi fjölda umsókna um ræktun á erfðabreyttu korni. Það er m.a. eitt af lykilatriðunum í TTIP-tollaviðræðunum við Bandaríkin“

Ég styð opna og gagnrýna umræðu um ólík gildi, viðhorf og hegðun menningarheima, réttlæti, góðmennsku, umburðalyndi, samkennd og fordómaleysi. Beitum rökum og skynsemi í baráttu við einhliða umræðu eða skort á umræðu.

Ég er tilbúinn að taka sæti ofarlega á lista Pírata í Kraganum og tek það sæti sem Píratar treysta mér fyrir og langar að vera partur af góðri liðsheild.

Með vinsemd og virðingu,
Sigurður Erlendsson - Pírati.

X-P