Benjamín Sigurgeirsson (Uncle_Ben)

Ég er 37 ára og á einn 13 ára strák og á von á öðrum núna í september. Í stuttu máli er skólagangan mín: stúdentspróf (MH 1998), BSc próf í eðlisfræði (HÍ 2003), kennslufræði til kennsluréttinda (HÍ 2006), MSc próf í lífupplýsingafræði (HR 2011), doktorspróf í líftækni (KTH Svíþjóð 2016). Hef aðallega unnið við kennslu og vísindarannsóknir. Hef kennt í MH, Verslunarskólanum, HÍ og HR og stundað rannsóknir við HR, KTH og nú í HÍ. Kennslan hefur verið á sviði stærðfræði og eðlisfræði en rannsóknirnar aðallega snúist um greiningu á DNA og RNA raðgreiningargögnum. Ég bý með kærustunni minni til tíu ára í miðbæ Reykjavíkur.

Ég flutti heim frá Svíþjóð nú um áramótin eftir að hafa búið þar frá 2011. Ég er búinn að vera skráður í Pírata í tæpt ár en er nýbyrjaður að taka virkan þátt í starfi Pírata og vona sannarlega að þátttaka mín þar aukist til muna á næstunni. Ég hef heillast af Pírötum nánast frá upphafi þegar þeir kynntu stefnu sína er varðaði breytingar í vímuefnamálum. Síðan þá hef ég fylgst með störfum Pírata og hrifning mín á þeim hefur stöðugt aukist. Sérstaklega er ég hrifinn af áherslum Pírata um aukið gegnsæi í stjórnmálum og ríkisrekstri sem er meðal annars til þess fallið að koma í veg fyrir óheiðarleg vinnubrögð og óþarfa ósætti. Ég kann vel að meta hvernig Píratar bregðast einlægt við gagnrýni í sinn garð, bera fyrir sig málefnalegum og skiljanlegum svörum og eru tilbúnir að viðurkenna mistök og taka á þeim á lausnamiðaðan hátt. Það er kærkomið að á Íslandi sé komið fram virkt lýðræðislegt stjórnmálaafl sem hugsar út fyrir þann sandkassa sem alþingi Íslendinga virðist oft vera.

Í dag er ég spenntur fyrir framtíð íslenskra stjórnmála og sér í lagi fyrir þáttöku Pírata á þeim velli. Innan Pírata er að finna breiða samstöðu um gagngerar breytingar á stjórnarskrá Íslands í samræmi við niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu þess efnis sem fór fram 20. október 2012. Einnig vill þorri Pírata koma á fót sjávarútvegsstefnu í samræmi við auðlindaákvæði tilvonandi stjórnarskrár með það að markmiði að dreifa auði sjávarins á fleiri hendur og tryggja að atvinnugreinin borgi meira til baka til samfélagsins í heild. Þessi mál stangast bersýnilega á við verulega sérhagsmuni sterkra aðila og má teljast líklegt að slík öfl komi til með að berjast heiftarlega gegn slíkum breytingum með áróðri og misbeitingu valds. Slíkum sérhagsmunum ættum við ekki að gæta því þessir hagsmunir eru á kostnað fjöldans og það getur þjóðin sýnt á virkan lýðræðislegan hátt í næstu alþingiskosningum. Blessunarlega er þennan vilja til breytinga ekki eingöngu að finna innan raða Pírata og því hægt að binda vonir við að næg pólitísk samstaða náist inni á þingi um þessi mikilægu mál.

Öðrum málum á borðum Pírata verður spennandi að fylgjast með eins og til dæmis ferðamannamálum, sem eru mjög brýn og bjóða upp á mikið svigrúm til umbóta, og menntamálum þar sem meðal annars er finnsk menntaleið höfð að leiðarljósi og lögð er áhersla á forritun, frjálsan hugbúnað í kennslu og kynfræðslu í grunnskólum. Fleiri Píratamál sem ég þekki ekki til hlýtar hlakka ég til að heyra og fræðast frekar um. Af nógu er að taka og Píratar láta sér ótal mál varða og því fer fjarri að Píratar séu stefnulaus flokkur og marklausum röddum þess efnis fer fækkandi.

Þegar ég tilkynnti framboð mitt í prófkjör Pírata hafði ég á orði að mitt helsta baráttumál væri að sporna gegn ofbeldi og öðru formi af misbeitingu valds. Í því samhengi lagði ég áherslur á tvö mál; vímuefnamál og meðferð dýra til manneldis. Í báðum þessum málum er risavaxið svigrúm til umbóta með tilheyrandi ávinningi fyrir nær alla en hér læt ég duga að vitna í greinar sem ég hef skrifað um efni þessu tengt. Að sjálfsögðu er ég reiðubúinn að kynna mér og berjast gegn annars konar ofbeldi sem því miður viðgengst í þjóðfélaginu til að mynda einelti, heimilisofbeldi og kynferðisofbeldi. Fokk ofbeldi.

Menntun mín og störf hingað til snúast að miklu leyti um lög náttúrunnar en ekki beint að þeim lögum og reglum sem við byggjum okkar samfélag á. Engu að síður tel ég að reynsla mín, menntun og fyrri störf sé sterk stoð fyrir vaxandi flóru Pírata. Í vísindageiranum, sér í lagi í hinum ört vaxandi heimi líftækni, þarf maður að vera vökull fyrir nýjustu breytingum og lesa sér til í gegnum oft þunga texta vísindarannsókna. Ég hef einnig í starfi mínu mikla reynslu af því að vinna úr stórum gagnasöfnum og setja þau fram á myndrænan hátt. Ég tel að slík reynsla sé Pírötum, og stjórnmálastarfi almennt, dýrmæt til þess að kynna sér hin ýmsu málefni til hlýtar við lestur skýrslna, rannsókna sem og við að rýna í og vinna úr gögnum þeim tengdum. Ég hef hlotið hól fyrir bæði gagnlegar útskýringar í kennslu sem og skýr og skiljanleg greinaskrif. Ég lít því svo á að ég hafi hæfileika til að miðla upplýsingum. Ég er hjálpfús og vanda vel til verka.

Valdar greinar eftir mig:
http://stundin.is/pistill/breytum-vimuefnaloggjofinni-fyrir-bornin/
http://www.visir.is/medferd-dyra-til-manneldis-overjandi/article/2014141118731