Ásta Helgadóttir (asta)

Ég heiti Ásta Guðrún Helgadóttir, 27 ára gömul og er sitjandi þingmaður Pírata frá 2015. Ég býð mig fram í 1.-2. Sæti í Suðvesturkjördæmi en ég er uppalin á Seltjarnarnesi þar sem fjölskyldan mín var með rekstur til fjölda ára.

Ég er sagnfræðingur að mennt frá Háskóla Íslands en ég tel þá menntun hafa gefið mér sérstaka innsýn í þau fjöldamörgu málefni sem Píratar standa fyrir, ekki síst mikilvægi þess að innleiða nýja stjórnarskrá.

Frá árinu 2012 hef ég helgað líf mitt lýðræðisbaráttu, tjáningarfrelsi og upplýsingaöryggi. Ég hef komið víða við undanfarin ár - búið í m.a. Þýskalandi, Póllandi, Bretlandi, Belgíu og Íran þar sem ég öðlaðist einstaka víðsýni og skilning á mikilvægi áðurgreindra málefna.

Á Alþingi hef ég beitt mér fyrir ýmsum málum á fjölmörgum sviðum, m.a. utanríkis- og varnarmálum, útlendingamálum og menntamálum; einkum haldið á lofti málstað námsmanna gagnvart LÍN.

Markmið baráttu minnar gagnvart LÍN er að skapa hér á landi gott umhverfi fyrir námsmenn svo þeir geti lifað sómasamlegu lífi á meðan námi stendur án þess að þurfa að vera í stöðugum átökum við LÍN og aðrar lánastofnanir. Slík er ekki reyndin á Íslandi í dag.
Þessu verður að breyta.

Einnig mun ég beita mér af öllu afli fyrir nýrri stjórnarskrá og berjast fyrir mannréttindum bæði hér heima og erlendis.
Þingstarfið er fjölbreytt og mikilvægt og ég tel krafta mína nýtast vel þar. Því vil ég halda áfram að vinna að góðum málefnum á næsta þingi m.a. Með því að:

1. Krefjast stjórnsýsluendurskoðun á Útlendingastofnun.

2. Nánari eftirfylgni með starfsháttum Lánasjóðs íslenskra námsmanna og umbótum á kjörum íslenskra námsmanna.

3. Heildarendurskoðun almennra hegningarlaga - þingmál sem ég hef verið með í vinnslu. Grunnsáttmálar um hvað er rétt og rangt í íslensku samfélagi þurfa að vera auðskiljanlegir, aðgengilegir og uppfærðir reglulega - líkt og stjórnarskráin okkar.

Kæri Pírati, því óska ég eftir stuðningi þínum í prófkjöri flokksins sem fram fer þann 23.-30. september til að geta haldið áfram starfi mínu í þágu þín og þjóðarinnar.

---

Svör við stöðluðum spurningum kjördæmaráðs:

* Ef þú nærð kjöri til alþingis og seinna kæmi til ágreinings og aðstæðna þar sem þú segðir þig úr flokknum. Myndir þú segja af þér og víkja þingsætinu til varamanns eða starfa áfram sem óháður eða með öðrum flokkum?

Ég er Pírati af hjarta og sál og það þyrfti eitthvað mikið til þess að ég íhugaði að segja mig úr flokknum. Alveg sama hvað á hefur gengið undanfarin ár hef ég alltaf staðið með Pírötum og mun alltaf gera, en í því ólíklega tilfelli þá myndi ég frekar segja af mér þingmennsku heldur en að skipta um flokk á miðju kjörtímabili.

* Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá?

Já.

* Hvaða stefnumál, úr samþykktum stefnum Pírata, þykja þér mikilvægust fyrir komandi kjörtímabil?

Ný stjórnarskrá, menntamálastefnurnar okkar, stefna um Lánasjóð íslenskra námsmanna og að halda áfram að fylgja eftir því að Ísland gangi inn í Evrópsku geimvísindastofnunina þar sem ég tel að það sé gullið tækifæri til þess að örva nýsköpun hér á landi.

* Hvað gerir þig að frambærilegum kosti til að gegna þingmennsku fyrir Pírata?

Ég hef starfað sem þingmaður í tvö ár og bý því yfir reynslu sem mig langar til þess að geta nýtt áfram í þágu Pírata og þjóðarinnar. Það eru fjölmörg mál sem ég hef á minni könnu sem mig langar til að halda áfram að vinna með ásamt Pírötum sem ekki hafa náð að koma fram. Ég hef víðtæka reynslu á sviði stjórnmála sem nær út fyrir landsteina, en ég hef bæði unnið á Evrópuþinginu sjálfu og fyrir hagsmunasamtök í Evrópusambandinu að málefnum sem tengjast beint stefnu Pírata þ.e. lýðræði og höfundaréttur. Ég er í virku sambandi við aðrar Píratahreyfingarnar og þá ekki síst varðandi breytingar á höfundaréttarstefnu innan Evrópusambandsins þar sem ég hef unnið náið með Juliu Redu, þingmanni Pírata á Evrópuþinginu. Ég brenn fyrir því að vernda mannréttindi í hinum stafræna heimi, þar sem ég hef látið hvað helst til mín taka, en get auðveldlega sett mig inn í hvaða mál sem er, leitað upplýsinga og ráða.

* Með hvaða hætti telur þú líklegast að Píratar geti fengið málum sínum framgengt á þingi?

Með því að vera trú og samkvæm sjálfum okkur. Sanngjörn í umræðunni en til í að taka slaginn þegar við á. Það að vanda til verka við undirbúning mála og að veita framkvæmdavaldinu aðhald með þeim tólum og tækjum sem eru í boði. Þingið á að sinna eftirlitshlutverki með framkvæmdavaldinu og þar getum við verið öflug að draga fram upplýsingar um hvernig stjórnsýslan virkar, virkar ekki og hverjri eru að fá hvað. Umfram allt, að fylgja grunnstefnu Pírata í erfiðum málum og taka upplýstar ákvarðanir. Það hefur borið árangur hingað!