Birgitta Jónsdóttir (birgitta)

Ég heiti Birgitta Jónsdóttir og er einn af stofnendum Pírata og hugmyndasmiðum flokksins í árdaga hans. Ég hef tekið þátt í að stofna tvo “start up” flokka síðan hrunið mikla varð árið 2008. Ég var þeirri gæfu aðnjótandi að fá tækifæri og traust til að verða þingmaður fyrir bæði Borgarahreyfinguna og Pírata og að eiga hlutdeild að því að koma jaðarflokkum á þing, sem voru nauðsynlegt þrýstiafl á örlagatímum.

Ég hef unnið við fjölbreytt störf á lífsleið minni, þ.m.t. við uppvask, fiskvinnslu, skrifstofustjórn, verslunarstörf, skipulagningu á listrænum og andófsviðburðum af ýmsu tagi, umbrot á bókum, grafík, þýðingar, blaðamennska, rithöfundur; árið 1995 fór ég að vefa ljóð á internetið og stóð fyrir fyrstu beinu myndútsendingunni á internetinu frá Íslandi árið 1996. Þá stofnaði ég líka lítið netfyrirtækið IO á þessum tíma með nokkrum frumkvöðlum sem breyttu sýn minni á hlutverki og möguleikum netsins. Ég sá strax á þeim tíma hve stórkostlegt verkfæri internetið getur verið til að gera raunheima betri.

Það traust sem okkur hefur verið sýnt í skoðanakönnunum er mikilsvert og kallar á auðmýkt og mikla vinnu til að viðhalda og sýna í verki um að það sé hægt að breyta til langtíma samfélagsgerð okkar. Það er hægt með raunsæum kerfisbreytinum sem nú þegar hafa verið í umræðunni. Ef okkur tækist t.d. að tryggja að FYRIR kosningar lægu fyrir drög að stjórnarsáttmála þeirra sem vilja vinna saman eftir kosningar, myndi það breyta stjórnmálunum til langtíma og verða vonandi til þess að fólk fái á ný aukið traust á Alþingi.

Ég hef mikinn áhuga á að breyta starfsháttum á Alþingi og auka ábyrgð þess. Það gengur ekki lengur að þingið sé svona máttlaust gagnvart framkvæmdavaldinu. Ég hef áhuga á að setja á fót fastanefnd á þinginu: Framtíðarnefnd þar sem mótuð væri í þverpólitískri sátt, langtímamarkmið, eins og t.d. endurreisn heilbrigðiskerfisins, breytingar á menntastefnu í anda þeirrar finnsku, lífeyrir, sjálfbærni og raf/metanbílavæðing.