Grímur Friðgeirsson (grimurrunar)

Grímur R. Friðgeirsson heiti ég og er fæddur 8. mars 1948.

Ég er tvígiftur og á þrjú uppkomin börn. Tvö frá fyrra hjónabandi og eitt með núverandi eiginkonu. Við fögnuðum 30 ára brúðkaupsafmæli í fyrra vetur. Synir mínir tveir ólust upp hjá okkur en dóttir mín hjá móður sinni og öll hafa þau verið stolt mitt og yndi alla tíð. Þau hafa verið með eindæmum dugleg að mennta sig og ég er mjög hreykinn af þeim öllum. Afabörnin eru orðin 4.

Hvað varðar mig persónulega og aðkomu mína að Pírötum, þá gekk ég til liðs við Pírata í byrjun árs 2016, ég hef ekki verið virkur hjá stjórnmálaflokki áður, þrátt fyrir það að hafa verið frekar pólitískur frá unga aldri, en ég hef tekið þátt í ýmsum samfélagsverkefnum ma. í íþróttaheiminum, í kjarabaráttu Háskólamanna o.fl.

Síðan ég kom til starfa hjá Pírötum hef ég staðið fyrir og með öðrum að stofnun Pírata á Seltjarnarnesi, þar sem ég er varaformaður, stofnun SV-Pírata þar sem ég er einnig vara formaður og síðan stóð ég fyrir stofnun Pírata 60+ á landsvísu, þar sem ég er formaður. Sá hópur er að berjast við að hefja vonandi öfluga starfsemi.

Ég er maður aðgerða, þess vegna hentar mér hinn flati strúktur Pírata mjög vel, hef starfað þannig lengstum.

Ég hef margt til málanna að leggja og hef mjög góða yfirsýn yfir landsmálin.

Það sem mér er efst í huga þessi misserin og tel að sé mikilvægt að vinna vel að sem allra fyrst er:

*Þjóðin á að fá að ráða því sjálf hvort haldið verður áfram viðræðum um aðild að Evrópusambandinu og ég tel að þjóðaratkvæðagreiðsla sé rétta leiðin.

*Ég tel að ráðherrar eigi ekki að vera jafnframt almennir þingmenn.

Það er ýmislegt fleira sem vert væri að telja upp, en það bíður betri tíma, en fyrst og fremst styð ég og vinn eftir Grunnstefnu Pírata og þeim gildum og dyggðum sem þar liggja að baki. Grunnstefnan, þráin eftir heiðarleika, sannleika, jafnrétti og gagnsæi hjá Pírötum eru ma. ástæða þess að ég tók þá ákvörðun að leggja þeim lið með þeim hætti sem ég hef vit til.

Umræðan um borgaralaun er afar áhugaverð, en þarfnast mikillar ígrundunar og ég tel að ef rétt er að þeirri framkvæmd staðið geti slík framkvæmd orðið þjóðinni til heilla.

Ég er einnig með ýmsar róttækar hugmyndir um ma. hvernig elli og eftirlaunaþegar geti öðlast öruggan sess í samfélaginu.
Píratar 60 + sem ég stóð fyrir að stofna, munu vinna að því að leggja grunn að stefnu Pírata í málefnum eftirlaunaþega og eldriborgara sem og að láta sig öll mál Pírata sig varða.

Mér er full alvara með framboði mínu og stefni hátt, og það er í 1 til 3 sæti í SuðVestur kjördæmi.
Tek auðmjúkur því sæti á listanum sem prófkjörið mun leiða í ljós.

Það var góð tilfinning sem streymdi um æðar mér þegar ég áttaði mig á eftir stutta veru í félagi Pírata, að ég hafi líklega verið Pírati alla tíð.

Sundrung og leiðindi hafa einkennt umræðuna í samfélaginu undanfarin misseri og ár.
Það er mikil eftirspurn og rík þörf eftir einhverju sem sameinar okkur sem þjóð.
Ég vona svo innilega og trúi því að Píratar með sín gildi, dyggðir, heiðarleika og þrá eftir sannleika og auknu lýðræði séu það afl sem öðrum fremur getur látið þann draum rætast.

Að saman getum við unnið að jafnræði meðal fólksins í landinu þar sem allir geta búið við örugga lífsafkomu, gott heilbrigðis og skólakerfi og allt það sem auðugt nútíma lýðræðisríki getur boðið þegnum sínum.

Að við getum unnið að málefnum þjóðar vorrar og lands af samkennd og samheldni –

Hið nýja Ísland bíður handan við hornið.

Frambjóðendur eru hvattir til að svara eftirfarandi spurningum og birta svörin á framboðs síðunni sinni á x.piratar.is:

Hér koma svör mín við spurningum þessum sem frambjóðendur eru hvattir til þess að svara.

1. Ef þú nærð kjöri til alþingis og seinna kæmi til ágreinings og aðstæðna þar sem þú segðir þig úr flokknum. Myndir þú segja af þér og víkja þingsætinu til varamanns eða starfa áfram sem óháður eða með öðrum flokkum?

Svar 1. Ég mundi segja af mér og víkja þingsætinu til varamanns.

2. Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá?

Svar 2. Já, það hefur verið mín skoðun frá upphafi þessa merka máls.

3. Hvaða stefnumál, úr samþykktum stefnum Pírata, þykja þér mikilvægust fyrir komandi kjörtímabil?

Svar 3. Píratar leggja áherslu á nýja stjórnarskrá, auðlindir í almannaþágu, gjaldfrjálsa heilbrigðisþjónustu, þátttöku í ákvarðanatöku og átak gegn spillingu. Ég var á þeim fundum þegar þetta var mótað og er því algjörlega sammála, að þetta eru jafn mikilvægustu málin enn.

4. Hvað gerir þig að frambærilegum kosti til að gegna þingmennsku fyrir Pírata?

Svar 4. Ég er duglegur, heiðarlegur og bara frekar góður maður, með talsverða lífsreynslu. Heiti því, að vinna eftir Grunnstefnu Pírata, virða það sem stendur í Píratakóðanum og fara eftir því af fremsta megni í lífi mínu og störfum fyrir Pírata, land og þjóð.

5. Með hvaða hætti telur þú líklegast að Píratar geti fengið málum sínum framgengt á þingi?

Svar 5. Þingmenn Pírata hafa sýnt heiðarleika, festu og trú á sannleika á þingi hingað til og tel ég að til lengdar verði þessi framkoma til þess að ná fram okkar málum. Reyndar hefur vera Pírata og málfluttningur þeirra, þegar haft mikil áhrif á bæði þingstörf og almenningsálit, en betur má ef duga skal.

Nafn: Grímur Friðgeirsson
KT: 0803483989
Starfsheiti: Rafeindatæknifræðingur
Heimili: Eiðismýri 28, 170 Seltjarnarnes.

Pírati, Seltjarnarnesi.

Starfsferill:
Rafeindavirki frá Iðnskólanum í Reykjavík 1969.
Rafeindatæknifræðingur frá Tækniháskólanum í Osló 1976.
Starfaði sem framhaldsskólakennari á sviði rafeindatækni, tölvutækni o.fl. í u.þ.b. 20 ár
Samhliða því og öðru sem ég hef tekið mér fyrir hendur hef ég alltaf sem tæknifræðingur,
tengst rafeinda og tölvuheiminum hérlendis og erlendis og geri enn.
Endurmenntun rafeindavirkja landsins á sínum tíma var að stórum hluta í mínum höndum og kynnti þeim heim IC rása og tölvuheims.
Ég kenndi almenningi á PC tölvur í árdaga þeirra og ferðaðist um landið í þeim tilgangi.
Í einu kennaraverkfalli af nokkrum sagði ég upp kennslunni og var ráðinn sem „Micro manager“ til bandaríska hersins á Keflavíkurflugvelli, hernámsandstæðingurinn sjálfur.
Ég PC tölvuvæddi herstöðina, ákvað hvaða verkefni færu á það stig og kenndi starfsmönnum þar grunn atriði PC tölvunotkunar.
Starfaði sem ráðgjafi í einkatölvunotkun ríkisfyrirtækja og stofnunum tengdum Kaupmannahafnarháskóla, við UNI-C sjálfstætt rekna tölvudeild háskólans.
Frá 1995 hef ég komið að bókaútgáfu, grafískri hönnun og margþættum verkefnum tengdum kennsluháttum sem og nútíma auglýsingahönnun. Tekið þátt í hönnun og framleiðslu á handverki og vörum tengdum ferðamannaiðnaðinum.
Fyrir tíu árum tók ég einkaþjálfarapróf, hugmyndin var að þjálfa sjálfan mig og koma mér aftur í fyrra líkamlegt form eftir erfið veikindi.
Síðan þá hef ég þjálfað fólk á öllum aldri og geri enn – ætli ég sé ekki elsti einkaþjáfari landsins!
Ég tel mig hafa verið heppinn að hafa fengið tækifæri til að starfa á mörgum mismunandi sviðum og að fjölbreyttum verkefnum alla mína starfsævi.

Býður sig fram í: Suðvesturkjördæmi