Helena Stefánsdóttir (helenagudrun)

Vinnuaðferðir og stefnumál Pírata samræmast minni sýn á það hvað gerir samfélag frjálst, lýðræðislegt, réttlátt og öruggt fyrir alla borgara.

Ég býð mig fram í prófkjöri Pírata vegna þess að mig langar að leggja allt mitt af mörkum til að samfélagið okkar geti orðið þannig.

Ég vil nýja stjórnarskrá og nýtt fiskveiðikerfi.
Ástæða: Mig langar til að við öll sem búum í þessu samfélagi njótum arðseminnar af sameiginlegum náttúruauðlindum Íslands og höfum jafnan aðgang að þeim.

Ég er ekki hlynnt því að ráðherrar sitji á þingi.
Ástæða: Ég vil ekki að vettvangur löggjafarvaldsins sé jarðvegur fyrir spillingu.


Ég er hlynnt nánu samráði þingnefnda við samfélagið – bæði fagfólk og áhugafólk.
Ástæða: Ég vil að við höfum öll jöfn tækifæri til að hafa raunveruleg áhrif á nærumhverfi okkar. Í mínu draumasamfélagi er hlutverk þings að setja lög sem fólkið óskar eftir og að hafa eftirlit með því að framkvæmdavaldið framfylgi þeim lögum – fyrir fólkið.

Ég styð hugmyndina um borgaralaun.
Ástæða: Ég vil að við öll, með okkar fjölmörgu mismunandi þarfir, getum lifað með reisn og í þeirri fullvissu að við séum frjáls og fær um að velja sjálf okkar lífsferðalag.

Ég vil gjaldfría heilbrigðisþjónustu fyrir okkur öll.
Ástæða: Ég vil ekki að veikindi, sjúkdómar eða fötlun hamli einstaklingum óþarflega með því að vera fjárhagsleg byrði. Mér þykir rétt að samfélagið sjái til þess.

Ég er hlynnt afglæpavæðingu vímuefna og vímuefnanotkunar.
Ástæða: Ég lít á fíknir og afleiðingar þeirra sem heilbrigðismál.

Ég vil að Ísland bjóði hælisleitendur og pólitískt flóttafólk velkomið.
Ástæða: Ég lít svo á að það sé ekki einkaréttur okkar sem fæðumst í löndum þar sem ríkir friður, að hafa tækifæri til þess að lifa óttalausu og öruggu lífi. Allt mannkyn á rétt á því. Þegar við höfum tök á, ber okkur að styðja og hjálpa þeim sem sækjast eftir hjálp.

Ég styð hugmyndir um samfélagsbanka, grasrótarlífeyrissjóði og samvinnurekin fyrirtæki (cooperative) með sem allra fjölbreyttasta móti.
Ástæða: Ég er sönn grasrótarmanneskja. Ég trúi því að flatt stjórnkerfi með dreyfðri ábyrgð sé besta leiðin til að við höfum öll tækifæri til að vera frjáls, hamingjusöm og blómstra. Ég vil að fólkið, þ.e. við, séum með í ráðum þegar kemur að því að sýsla með okkar nærsvið, hvort sem um ræðir atvinnuumhverfi, velferðarmál, búsetu, menntun eða hvað annað.

Meira um mig:
http://helenastefansdottir.squarespace.com/