Helgi Jóhann Hauksson (helgi.johann@internet.is)

Ég er giftur, 60 ára og á fjögur uppkomin og öflug börn, hvert á sínu sviði.

Ég hef starfað á hliðarlínunni með Pírötum frá því í kosningunum 2013, m.a. sem fulltrúi Pírata í nefndum Innanríkisráðherra um stefnumótun í löggæslumálum.

Ég er grunnskólakennari, framhaldsskólakennari, stjórnmála- og stjórnsýslufræðingur og með hluta af framhaldsnámi í fötlunarfræði, með áralanga reynslu af kennslu og af skólastjórnun. Lengst af ævi minnar hef ég jafnframt kennslu stundað ljósmyndun og útgáfustörf, hönnun prentgripa, blaðamennsku og önnur fræðslutengd störf af þörf til að miðla því sem er til gagns og fróðleiks.

Í búsáhaldabyltingunni annaðist ég m.a. ljósmyndun fyrir vefritið „Nei. — Dagblað í ríki sjoppunnar“ og miðlaði myndum á bloggi mínu á slóðinni: http://hehau.blog.is/blog/hehau/. Ég hef lítið bloggað þar síðan nýir eigendur tóku við Morgunblaðinu 2009/2010, en eitthvað skrifað á Eyjuna http://blog.pressan.is/hehau/ .

Ég er formaður ALMA — áhugafélags um almenn mannréttindi, sit í nefndum fyrir Neytendasamtökin og hef lengi barist fyrir betri stjórnsýsluháttum og markvissari og skýrari lagasetningu í þágu almennra borgara og þeirra sem standa höllum fæti. Starfaði 6 ár fyrir FAAS félag aðstanenda fólks með Alzheimers og heilabilun, og síðan verkefnastjóri hjá Lýðheilsustöð fram að sameiningu hennar við embætti Landlæknis þar sem stærsta verkefni mitt var gerð prentaðs námsefnis fyrir „Heilsueflandi grunnskóla“ með sviðsstjóra Heilsueflandi grunnskóla og fagstjórum Lýðheilsustöðvar, en einnig að gerð efnis fyrir sveitarfélögin um „Öruggt samfélag“ sem byggir á alþjóðlegu samstarfi.

Ég hef umtalsverða reynslu af aðstoð við fólk sem er af veikum mætti að „slást við kerfið“, ríki og sveitarfélög og fjármálastofnanir. Af þeirri ástæðu tel ég afar brýnt að við laga- og reglusetningu eigi að vera haft að leiðarljósi að öll réttindi séu auðskilin og auðsótt og kerfin hafi notendavænt og auðskilið viðmót. Markmið okkar skuli alltaf vera „notendavænt samfélag“ með auðskyldum reglum þar sem allur almenningur geti auðveldlega skilið og sótt rétt sinn, sem skuli hámarka möguleika allra til mannsæmandi lífsgæða, öryggis og frelsis.

Öll opinber þjónusta og kerfi ættu að vera „notendavæn“ — og vera grunnur að „notendavænu samfélagi“.

Aðeins Píratar leggja upp stefnu sem getur leitt þangað og skapað „notendavænt samfélag“ þar sem öllum er með raunhæfum hætti tryggt að geta sjálfir skilið og varið grundvallar réttindi sín og sinna nánustu, og að öllum sé tryggð lágmarks afkoma, bestu heilsu og hamingjuríkasta lífs sem kostur er á.

Sömu sorgarsöguna er að segja úr öllum „kerfum okkar“. Kerfin sem eiga að tryggja að allir hafi húsnæði, lánakerfin og félagslegu leigukerfin tala ekki sama tungumál og eru uppteknari af að verja sig og stjórendur en að veita þá þjónustu sem þeim ber. LÍN—Lánasjóður íslenskra námsmanna virðist t.d. uppteknari af því að leggja steina í götu námsmanna og svipta þá aðstoð á grundvelli merkingalausra formsatriða, en að leysa vandamál fyrir skjólstæðinga sínu til að uppfylla fyrstu grein laganna um LÍN sem segir að markmið laganna og sjóðsins sé að veita námsmönnum fjárhagsaðstoð.

– En skýrasti vitnisburðurinn um hve langt er í land svo kerfin séu „notendavæn“ er líklega frumskógur bótakerfanna, svo ekki sé talað um hvernig kerfin tvinnast saman — eða öllu heldur gera það alls ekki — og allt bitnar það svo á notendum í stað þess að skortur á skýru vinnulagi og reglum sé látinn bitna á því opinbera sem er eini aðilinn sem getur lagað það og væru knúinn til þess ef vafaatriði væru við dóma og úrskurði öll túlkuð þeim veikari í hag en því opinbera í óhag.

----

Fyrsta áratug þessarar aldar starfaði ég og sótti mér nám og reynslu á sviði fólks með fötlun og fólks með langvinna sjúkdóma bæði innanlands og erlendis. Af þeirri ástæðu hef ég lagt áherslu á að við gerð fræðsluefnis sé það gert aðgengilegt fólki með fötlun og langvinna sjúkdóma, m.a. hjá Lýðheilsustöð á sínum tíma. Á þessu tímabili sat ég m.a. sem fulltrúi ÖBÍ í nefnd forsætisráðherra um nýtt örorkumatskerfi og var formaður samráðshóps ÖBÍ, Þroskahjálpar og Samtaka eldri borgara um nýtt heilbrigðiskerfi og sótti mér viðbótarnám í fötlunarfræðum. Það starf allt krafðist einnig þess að hafa góða yfirsýn yfir hlutverk stjórnsýslunnar og réttindi borgaranna gagnvart henni.

Sjálfur hef ég glímt við nokkra fötlun vegna gigtar.

Síðustu vetur hef ég aftur verið við kennslu grunnskólabarna.