hmo (hmo)

Ég berst fyrir lýðræðislegu, sanngjörnu og réttlátu þjóðfélagi, fyrir alla. Það er tími til kominn að almenningur fái viðráðanlegt húsnæði, frítt aðgengi að heilsugæslu og jafna möguleika til menntunar. Þessi grundvallar lífsskilyrði borgaranna eru forsenda siðmenntaðs þjóðfélags þar sem mannlíf og menningin blómstrar og atvinnulífið dafnar. Með Píratakóðanum og grunnstefnu Pírata að vopni verður þessum markmiðum náð.

Starfa sem kennari í framhaldsskóla. Er vesturbæingur að upplagi sem fluttist í úthverfi og uni mér vel við sundin blá undir Úlfarsfellinu. Á þrjú börn, tvö uppkomin, eitt barnabarn og hund. Hef verið borgaralega óhlýðinn og mótmælandi frá unglingssárum og gekk úr þjóðkirkjunni fyrir fermingu. Tók stúdentinn á Ísafirði, nam kvikmyndagerð við listaháskóla í San Francisco og fluttist síðan til Ítalíu. Vann við þáttagerð í sjónvarpi hjá TMC í Rómarborg, og síðar hjá Stöð2 og RÚV. Aflaði kennsluréttinda við Listaháskólann og er að ljúka meistaranámi við Háskóla íslands á sviði upplýsingatækni og miðlunar.

Er virkur í baráttu meðal annars í umhverfismálum og hef tekið þátt í mótmælum og stjórnvaldskærum til að stöðva lögleysur framkvæmdavaldsins. Flutti ólöglærður réttlætismál, bæði fyrir gerðardómi og héraðsdómi. Er virkur í félagsstörfum og hef setið í stjórnum og verið formaður í stéttarfélagi og fagfélagi. Hef verið virkur í mannúðarsamtökum sem byggja á sjálfboðastarfi. Búinn að vera virkur þátttakandi í grasrót Pírata síðustu misserin bæði í almennu starfi og einnig í ýmsum málefnahópum.

Hef reynslu af því að vinna undir miklu álagi og hef tekið þátt í stærstu útsendingum sjónvarpsins, framkvæmdastýrt flóknum verkefnum og unnið með og stýrt fjölmennum hópum af fólki undir miklu álagi þar sem þarf að finna lausnir og drífa verkefnin áfram og klára þau. Sem nemandi og kennari lærir maður að beita gagnrýninni hugsun, nýta sér vísindalega rannsóknarvinnu, þjálfast í samvinnu og hópastarfi og að miðla fróðleik og niðurstöðum til annarra. Hef margra ára reynslu af erlendu samstarfi og verkefnastjórnun m.a. á vegum menntaáætlunar Evrópusambandsins þar sem reynir á samstarf og samvinnu við nemendur, kennara og sérfræðinga af mismunandi þjóðernum.

Legg mikla áherslu á mannréttindi, friðhelgi einkalífsins, lýðheilsu og almenna velmegun borgaranna. Vil vera virkur þátttakandi í að byggja upp samfélag með nýrri stjórnarskrá fólksins, byggja upp nýtt Ísland úr rústum hruns einkahagsmuna, sjálftöku og úreltrar stjórnskipunar síðustu aldar. Vil búa í þjóðfélagi þar sem borgararnir eru frjálsir. Vil búa í þjóðfélagi þar sem allir fái notið sín, vil búa í samfélagi þar sem börn og innflytjendur eru velkomin, börnin eru framtíðin.

Hef ekki áður verið meðlimur í stjórnmálaflokki, er með hreina sakaskrá, er utan trúflokka.

helstu störf:
• Framhaldsskólakennari og kennslustjóri listnáms - Borgarholtsskóla
• Dagskrárgerð, upptöku- og framkvæmdastjórn - RÚV sjónvarp, Stöð2, Stöð3 og NFS (fréttastofa) og fl.
• Upptökustjórn og klippingar - TMC sjónvarpstöð Rómarborg, Ítalíu
• Vann ýmis aðstoðarstörf við íslenskar bíómyndir
• Hef rekið eigið framleiðslufyrirtæki frá 1997