Kristín Vala Ragnarsdóttir (kristinvala)

Ég gerðist Pírati um leið og flokkurinn var stofnaður vegna áherslu hans á gagnsæi og bætta sjórnsýslu á Íslandi. Ég var númer 7 á lista Reykjavík suðvestur eftir prófkjör 2016. Síðan hef ég starfað í trúnaðarráði Pírata og tekið þátt í stefnumótun flokksins sem hefur bæði verið skemmtileg og gefandi vinna. Ég hef mætt á ótalda mótmælafundi á Austurvelli, þegar réttlætiskennd minni er misboðið varðandi mál sem tengjast spillingu og valdníðslu.

Ég ólst upp í Laugardalnum í Reykjavík og gekk í Laugarlækjarskóla og Menntaskólann í Reykjavík. Ég lærði jarðfræði við Háskóla Íslands og jarðefnafræði við Norðwestern University í Evanston, Illinois í Bandaríkjunum þar sem ég lauk doktorsprófi 1984. Eftir að vinna í nokkur ár í Bandaríkjunum flutti ég til Bristol í Englandi, þar sem ég starfaði við jarðvísindadeild Bristolháskóla í 20 ár og varð fyrsti kvenprófessorinn í jarðvísindum. Eftir 30 ára dvöl erlendis flutti ég til Íslands 2008 þegar ég var ráðin sem Sviðsforseti Verkfræði- og náttúrufræðisviðs Háskóla Íslands. Ég hef verið prófessor við Jarðvísindadeild Háskóla Íslands síðan 2012 og vinn við að þróa nýja vísindagrein sem nefnist sjálfbærnivísindi.

Ég hef alþjóðlega reynslu af kennslu og rannsóknum sem tengjast jarðefnafræði, unhverfisfræði, tengingu umhverfis og heilsu, jarðvegsfræði, auðlindafræði og sjálfbærnimálum. Ég hef átt því láni að fagna að kenna og vinna með ungu og efnilegu fólki alla mína starfsævi, sem hefur haldið mér ungri í anda. Auk þess hef ég mikla reynslu í að reka alþjóðleg rannsóknaverkefni og starfa við rannsóknir með samstarfsmönnum út um allan heim. Ég hef búið, starfað og verið við nám í Bretlandi, Bandaríkjunum, Danmörku, Noregi, Austurríki, Sviss, Þýskalandi og Frakklandi í yfir 35 ár og tala því ensku, dönsku, norsku, þýsku og frönsku. Ég sit í stjórnum ýmissa félagasamtaka innan lands sem utan sem vinna að náttúruvernd, uppbyggingu sjálfbærra samfélaga, fjárhagslegum jöfnuði og velferð borgara.

Sjá hér svör við nokkrum stöðluðum spurningum:
1. Ef þú nærð kjöri til alþingis og seinna kæmi til ágreinings og aðstæðna þar sem þú segðir þig úr flokknum. Myndir þú segja af þér og víkja þingsætinu til varamanns eða starfa áfram sem óháður eða með öðrum flokkum?
Ég myndi víkja þingsætinu til varamanns.

2. Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá?
Já, ný stjórnarskrá frá stjórnlagaráði er mjög mikilvæg fyrir framtíð Íslands. Hún tryggir virkara lýðræði, skýrir aðsliknað löggjafavalds og framkvæmdavalds auk þess að þjóðin fái sanngjarnan arð af sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar.

3. Hvaða stefnumál, úr samþykktum stefnum Pírata, þykja þér mikilvægust fyrir komandi kjörtímabil?
Stefnumál sem tengjast umhverfismálum og náttúruvernd: Aðgerðastefna Pírata í loftslagsmálum (sem er metnaðarfyllsta loftslagsstefna allra flokka á Íslandi), Verndun miðhálendis Íslands, Verndun hafsins, Sjálfbærnimarkmið Sameinuðuþjóðanna.
Stefnumál sem tengjast hagsæld og jöfnuði: Stóriðja borgi tekjuskatt, Aðskilnaður fjárfestinga- og viðskiptabanka, Borgaralaun (sem eru mikilvæg fyrir alla - þar með talda aldraða, fatlaða, öryrkja, atvinnulausa).
Stefnumál sem tengjast réttlæti og jafnrétti: Lögbinding samnings SÞ um réttindi fattlaðs fólks, Stefna Pírata um NPA.
Stefnumál sem tengjast menntun: Menntun verði uppfærð fyrir 21. öldina með viðeigandi fjárframlögum.
Stefnumál sem tengast heiðbrigðiskerfinu: Aðgengi að heilbrigðisþjónustu verði gjaldfrjáls, sálfræðingar og tannlæknar starfi innan heilbrigðisþjónustunnar.
Stefnumál sem tengjast aðskilnaði löggjafavalds og framkvæmdavalds: Ráðherrar starfi ekki sem Alþingismenn.

4. Hvað gerir þig að frambærilegum kosti til að gegna þingmennsku fyrir Pírata?
Ég er reynslumikill borgari og hef verið í ábyrgðarstöðum innanlands sem utan. Ég kann að greina gögn og sé að fyrir unga fólkið í landinu eru húsnæðismál mjög mikilvæg. Ég mun beita mér fyrir samvinnu á milli ríkisstjórnarinnar og sveitafélaga til að finna lausnir í húsnæðismálum sem og samgöngumálum, sem einnig brenna á ungu fólki.

5. Með hvaða hætti telur þú líklegast að Píratar geti fengið málum sínum framgengt á þingi?
Með virkri, gagnsærri og heiðarlegri samræðu við þingmenn úr öllum flokkum.

Maðurinn minn er norskur og heitir Harald Sverdrup. Við búum í heilsubænum Mosfellsbæ þar sem síbreytileg Esjan gleður augað og trjágróðurinn við Varmá mildar norðangarrann. Ég á tvö uppkomin börn, og tel það hafa verið mitt mikilvægasta afrek í lífinu að koma þeim vel til manns. Ég er mjög stolt af Tómasi Ragnari sem er læknir og Katrínu Margréti sem er sjálfræðingur. Bæði vinna þau frá hjartanu við að bæta líf og líðan fólks, hann með ráðleggingum um mataræði og hreyfingu, hún með hugrænni atferlismeðferð. Þau leggja bæði áherslu á útiveru og tengingu við náttúruna sem vermir vitanlega móðurhjartað. Ég á hvorki meira né minna en átta stjúpbörn. Börnin mín búa um víða veröld, Bandaríkjunum (Tommi og Tess), Bretlandi (Kata og Hannah), Noregi (Olav), Svíþjóð (Ellen og Carl Axel), Danmörku (Rasmus og Ulrik) og Rússlandi (Anthony). Barnabörnin eru þrjú - Alex, Zev og Clas Erik.

Ég hef mjög sterka réttlætiskennd og ástand jarðarinnar okkar er mér mjög hjartnæm. Ég vil leggja mitt af mörkum til að byggja upp sanngjarnt samfélag þar sem náttúran er vernduð, jöfnuður ríkir, lifandi lýðræði er í fararbroddi og borgurum líður vel.