Kristín Vala Ragnarsdóttir (kristinvala)

Ég ólst upp í Laugardalnum í Reykjavík og gekk í Laugarlækjarskóla og síðan Menntaskólann í Reykjavík. Ég lærði fyrst jarðfræði við Háskóla Íslands og fór síðan í framhaldsnám í jarðefnafræði við Norðwestern University í Evanston, Illinois (úthverfi Chicago) þar sem ég lauk doktorsprófi 1984. Eftir að vinna í nokkur ár í Bandaríkjunum og vera eitt ár við Háskólann í París við Jussieu flutti ég til Bristol í Englandi, þar sem ég starfaði við jarðvísindadeild Bristolháskóla í 20 ár. Þar vann ég mig upp í gegn um kerfið og varð fyrsti kvenprófessorinn í jarðvísindum og um leið fyrsta konan sem varð prófessor í raunvísindum við háskólann. Eftir 30 ára dvöl erlendis kom ég til baka til Íslands 2008 og var ráðin sem Sviðsforseti Verkfræði- og náttúrufræðisviðs Háskóla Íslands. Ég hef verið prófessor við Jarðvísindadeild Háskóla Íslands síðan 2012 og vinn við að þróa nýja vísindagrein sem nefnist sjálfbærnivísindi.

Ég hef alþjóðlega reynslu af kennslu og rannsóknum sem tengjast unhverfismálum, tengingu umhverfis og heilsu, jarðvegsfræði og sjálfbærnimálum auk jarðefnafræði. Auk þess hef ég mikla reynslu í að reka alþjóðleg rannsóknaverkefni og starfa við rannsóknir með kollegum út um allan heim. Ég hef búið, starfað og verið við nám í Danmörku, Noregi, Austurríki, Sviss, Þýskalandi, Frakklandi, Bretlandi og Bandaríkjunum í yfir 35 ár.

Ég sit í stjórnum ýmissa félagasamtaka innan lands sem utan sem vinna að náttúruvernd, uppbyggingu sjálfbærra samfélaga, fjárhagslegum jöfnuði og velferð borgara.

Ég hef mjög sterka réttlætiskennd og náttúruvernd er mér mjög hjartnæm. Ég vil leggja mitt af mörkum til að byggja upp sanngjarnt samfélag þar sem náttúran er vernduð, jöfnuður ríkir, lifandi lýðræði er í fararbroddi og borgurum líður vel.