Maren Finnsdóttir (marenfinnsdottir@gmail.com)

Ég heiti Maren Finnsdóttir og ég býð mig fram í prófkjöri Pírata á höfuðborgarsvæðinu 2016.
AF HVERJU PÍRATI:
Ég gerðist Pírati í febrúar 2016 og er í stjórn Pírata á Seltjarnarnesi og varastjórn í Suð-vestur kjördæmi. Ástæða þess að ég gekk í hreyfinguna er brennandi áhugi á samfélags- og stjórnmálum. Mig langaði til að finna vettvang til að taka virkan þátt og urðu Píratar fyrir valinu því ég deili grunngildum þeirra um aukið lýðræði og upplýsta ákvarðanatöku. Mér finnst þingmenn Pírata vera málefnalegir, gagnrýnir og vinna af alvöru fyrir almannahagsmunum. Flokkurinn hefur líka yfirbagð og framkomu sem einkennist af einlægni, heiðarleika og virðingu fyrir öllum.
ÁHERSLUMÁL:
Frelsi, samúð, jöfn tækifæri, framtíðarsýn. Frelsi þarf að ná til allra hópa samfélagsins en á ekki að einskorðast við viðskiptafrelsi. Það þarf að huga að jöfnum tækifærum allra þegna burtséð frá efnahag, kyni, trú, kynhneigð eða fötlun. Ekki eru allir í sömu aðstöðu til að láta drauma sína rætast vegna fjárhags, heilsu, tengslanets eða annarra þátta. Ég vil að samfélagið komi til móts við alla einstaklinga og geri þeim kleyft að stunda nám gjaldlaust. Námslán eiga að vera aðgengileg og ódýr. Grunngildi í menntun á að vera gagnrýnin hugsun svo einstaklingarnir séu færir um að vera dómbærir á allt það magn upplýsinga sem er aðgengilegt og geti þannig tekið upplýstar ákvarðanir. Heilbrigðiskerfi okkar á að taka á móti öllum þeim sem á þurfa að halda á öruggan og skilvirkan hátt. Það á ekki að græða á heilbrigðiskerfinu. Veikir eiga ekki að hafa áhyggjur af fjárhag meðan á veikindum stendur. Mikilvægt er að móta framtíðarsýn til lengri tíma. Hvers konar framtíðarsamfélag viljum við sjá? Fólkið í landinu á að ráða því!
FERILSKRÁ:
Ég er fædd á Akranesi 22. júní 1969, ólst upp í vesturbæ Reykjvíkur, fór í Melaskóla, Hagaskóla og MR. Ég bjó 2 ½ ár í Noregi á unglingsárum. Ég flutti til Ítalíu strax eftir stúdentspróf og nam óperusöng við Conservatorio G. Nicolini í Piacenza. Ég bjó þar og átti fjölskyldu í 19 ár og starfaði við söng, kennslu og fleira. Ég flutti heim sumarið 2008 og hef síðan starfað við kennslu, skrifstofustörf, verslun sem og þýðandi og leiðsögumaður. Ég hef stundað nám í uppeldis- og menntunarfræði við HÍ meðfram vinnu. Ég er fráskilin með tvö börn á unglingsaldri.
P.S. Ég þoli ekki kúgun og mismunum í hvaða mynd sem hún birtist. Ég mun berjast á móti sérhagsmunagæslu, pilsfaldakapitalisma og einkavinavæðingu. Ég vil búa í samfélagi þar sem verðleikar einstaklinga njóta sannmælis og allir skipta máli!