Ólafur Sigurðsson (olisigur@gmail.com)

Hafnarfirði 12. Júlí 2016.

Býð mig fram til starfa fyrir Pírata í komandi alþingiskosningum.
Tek því sæti sem ég yrði kosinn í.

Ólafur Sigurðsson
Lækjarbergi 23
Er giftur og á tvær uppkomnar dætur.

Hagsmunaskráning:
Á fyrirtæki sem sinna meindýraeyðingu og ráðgjafaþjónustu fyrir matvælaiðnaðinn. Er engum bundinn að ég viti og erum við hjónin skuldlaus.

Starfsferill.
Ég ólst upp í vesturbænum í Hafnarfirði. Því fylgdi bryggjulífið og fiskvinnsla frá 12 ára aldri. Síðan sjómennska á bátum og togurum og vertíðalíf víða um land.
Tókst samt einhvern veginn að feta menntaveginn og lauk BSc. prófi í matvælafræði 1986.
Oft þurfti maður að vinna tvö störf og með náminu.

Hef starfað sem aðstoðarmaður hjá Hollustuvernd, 1983. Vann við að setja upp búnað og vakta umhverfismengun, rykagnir og efnamengun víða um land.

Rannsóknarmaður hjá Raunvísindastofnun HÍ, omega-3 fitusýrugreiningar á lýsisafurðuðum. Stórt samstarfsverkefni í vöruþróun og svo framleiðsla á omega-3 þykkni fyrir Lýsi hf. 1984.

Vöruþróun hjá Lýsi hf. 1985. Áframhald þróunar á aðferð til vinnslu á omega-3 þykkni, framleiðsla og gæðaeftirlit.

Verkefnastjóri Fiskafurðir 1985-1986. Vöruþróun og gerlavarnir fyrir mjölvinnslu og þróun á vinnslu Lýsis.

Lýk BSc. Matvælafræði frá HÍ 1986.

Verkefnastjóri Iðntæknistofnun 1986-1989. Ýmiss þjónustuverkefni fyrir matvælaiðnaðinn. Vöruþróun matvæla, gæðaeftirlit, notkun aukefna í matvæli, kennsla, þjálfun ofl. Bindiefni, aukefni og fleira skemmtilegt.

Gæðastjóri, yfirfiskmatsmaður á Hjaltlandseyjum fyrir Shetland Seafood Quality Control (SSQC) 1989-1991.
Setja upp staðla fyrir gæði ferskfisks, laxvinnslu ofl. Þjálfun fiskmatsmanna. Setti upp rannsóknarstofu til örverumælinga. Námskeið, þjálfun og greinaskrif um gæðamál. Unnið fyrir fiskiðnaðinn, sjómenn, laxaræktendur, frystihúsin og fiskmarkaðina.

Sultugerðin Búbót. Vöruþróun, framleiðsla, gæðaeftirlit 1991-1992.

Gæðastjóri hjá Hagkaup 1992-1999. Gæðaeftirlit, rýrnun, heilbrigðiseftirlit.

Styrkár ehf., fiskvinnsla í gömlu Norðurstjörnunni í Hfj. 1999. Verkstjóri. Frysting, söltun, ferskfiskur. Tímabundið verkefni.

Gæðastjóri hjá BÚR 1999-2000. Tímabundið verkefni. (Nóatún, 11-11 og fl. verslanir). Innleiðing innra eftirlits.

Síðan 1999 er ég stofnaði fyrirtæki Húsaþjónustan ehf. hef ég unnið sjálfstætt við meindýraeyðingu, matvælaeftirlit og ýmsa ráðgjöf. Er gæðastjóri fyrir nokkra veitingastaði og verslanir.

Sem hluti af þessari vinnu hafa fylgt fjölmörg námskeið og ráðstefnur yfir árin.
Ég hef verið svo heppinn að hafa fengið að vinna með góðu fólki nær allsstaðar sem ég hef verið og hef ætíð fengið virkilega góð meðmæli sem ég er þakklátur fyrir.

Kennsla:
Kennari í grunnskólanum á Hvammstanga 1978-79. Raungreinar og leikfimi.

Örverufræði í Hótel og Veitingaskólanum 1983.

Efnafræði í Flensborg (öldungadeild) 1986.

Efnafræði í Tækniskólanum 1986-1987.

Meðhöndlun matvæla fyrir ófaglært starfsfólk í matvælaiðnaði. Samið námskeið, kennsla og þjálfun kennara 1987-1988. Verkefni fyrir ASÍ sem hluti af kjarasamning og unnið á Iðntæknistofnun Íslands.

Efnafræði, lífefnafræði ofl. á ýmsum stigum Menntaskólanum Ármúla 2001.

Stjórnmál.
Formaður Jafnaðarmannafélags Hafnarfjarðar 1997-1998.

Formaður Félags Vinstrimanna í Háskóla Íslands 1984-1986.

Var í stjórn Borgarahreyfingarinnar og síðan í stjórn Dögunar.

Stofnaði svo Lýðræðisvaktina með Lýði Árnasyni og fleiru góðu fólki og undirbjuggum framboðið.

Sat í stjórn Neytendasamtakanna um langt árabil en sagði mig úr samtökunum 2009 þegar framkvæmdastjórn samtakanna vildu ekki taka sérstaklega á aðgerðum bankanna gegn almenningi. Vildi ég að Neytendasamtökin mynduðu hagsmunahóp með öðrum samtökum og yrði í forsvari fyrir þeim hópi en því var afdráttarlaust hafnað. Þetta urðu mér ómæld vonbrigði eftir meir en 10 ár í stjórn Neytendasamtakanna.

Það er mér sérstök ánægja að nefna starfið í Skiltagerðinni með vini mínum Skiltakarlinum Leifi A. Benediktssyni. Við höfum verið að síðan í Búsó með allskyns aðgerðir og uppákomur með hléum í mörg ár. Við höfum einnig styrkt fjölmörg mótmæli annarra með skiltum, fánum, auglýsingum ofl.fl. Urðum fyrst þekktir þegar við urðum að setja nafn okkar við auglýsingu í RÚV um mótmæli í Landsbankanum. Stóðum einnig fyrir mótmælunum 4. apríl. Sjá Skiltakarlarnir á facebook.

Stofnaði einnig Hróshópinn til að þakka sjálfboðaliðunum, og öllu fólkinu sem var að vinna eftir Búsó. Sjá Hróshópinn á facebook.

Greinaskrif ofl.
Skrifaði í mörg ár í Vísi, DV, Lesbók Mbl. og fleiri miðla gegn fæðubótarefnum og ýmsar nýjungar í matvælavinnslu og næringarfræði.

Skrifaði einnig um tíð í tímarít Fróða, Vikan, Hús og Hýbýli, Samúel um áhugamálið, hljóm og hljómtæki þegar heimabíókerfin voru að verða vinsæl.
Þessu fylgdi ferðir á sýningar og ráðstefnur um græjur.
Flutti um tíma inn hátalara og bassabox ofl. tengt og seldi verslunum í heildsölu.

Er enn með græjudellu og safna vinylplötum og á eitt af stærstu hljómplötusöfnum landsins. Stofnaði Hljómplötuklúbbinn og annann í Keflavík.

Störf hjá Pírötum.
Hef verið í stjórn Pírata í Hafnarfirði í rúm tvö ár. Hef einnig verið í nokkrum málefnahópum og setið marga fundi í Tortuga. Hélt með Albert Svan ofl. ráðstefnu í Hafnarfirði um skipulagsmál hálendisins og auðlindarentu í janúar 2016.
Einnig greinaskrif fyrir málefni Pírata í Bændablaðið, Fjarðarpóstinn og Fréttablaðið.


Stefnumál.
Ljúka stjórnarskrármálinu með því að samþykkja tillögur stjórnlagaráðs.
Stórauknar bætur til aldraðra og öryrkja.
Það verður að færa auðlindurentuna í ríkiskassann. Frá kvótasölu, endurupptöku skatta á stóriðjuna, hækka skatta á hátekjur, minnka spillinguna og auka gegnsæi í allri stjórnsýslu.

Ég tel nauðsynlegt að fá erlenda aðstoð til að meta hvort ráðningar í stjórnsýslu og fyrirtækjum ríkisins hafi verið á pólitískum forsendum og hvort þurfi faglegar endurráðningar til að leiðrétta stjórnmálalega misnotkun á embættismannakerfi ríkisins. Þetta er mjög brýnt mál til að stjórnsýslan geti starfað eins og hún þarf að gera meðan langþráðar breytingar á íslenska ríkisbákninu fara fram.

Ný bankamál, stórt og flókið mál en það var lofað eftir hrun að setja nýjar reglur um banka- og fjármálastarfsemi á Íslandi, þetta er enn eftir.

Stefnumál Pírata eru svo alltaf leiðarvísirinn hverju sinni.