Þór Saari (saari@centrum.is)

Þór Saari, hagfræðingur, M.A.
Fæddur í Miami Bandaríkjun 1960 og flutti til Íslands sex ára, Saari eftirnafnið er finnskt. Fór til sjós sextán ára og var háseti og bátsmaður á skipum Eimskips í tíu ár.
Fór þaðan í háskólanám (B.Sc. Cum Laude) í markaðsfræði (Marketing) í Suður Karólínu í Bandaríkjunum. Fór þaðan til Barcelona og kenndi ensku við hótel- og ferðamálaskóla og hjá spænska símanum (Telefónica) í tæpt ár. Fór þaðan til New York í framhaldsnám í hagfræði (M.A.) og var á Manhattan við nám og störf, meðal annars hjá Sameinuðu þjóðunum, í tæp sex ár.
Flutti aftur til Íslands 1997 og vann á tölfræðisviði Seðlabankans í um fimm ár við söfnun tölfræðiupplýsinga og uppsetningu á gagnagrunnskerfi fyrir Seðlabankan, Fjármálaráðuneytið og Þjóðhagsstofnun. Fór þaðan til Lánasýslu ríkisins sem sá meðal annars um skuldastýringu fyrir ríkissjóð og ríkisábyrgðir og var þar í um fimm ár. Samhliða þessu náði ég mér í kennsluréttindi fyrir framhaldsskólastig við Háskólann á Akureyri og starfaði við kennslu í hlutastarfi hjá Tækniskólanum.
Fór þaðan í ráðgjafastarf fyrir OECD í París og starfaði við verkefni um skuldastýringu ríkissjóða OECD ríkja og síðar við verkefni um skuldastýringu ríkissjóða Afríkuríkja. Kjörinn á Alþingi árið 2009 fyrir Borgarahreyfinguna (síðar Hreyfinguna) í kjölfar Búsáhaldabyltingarinnar.
Á Alþingi frá 2009-2013 sem var að mörgu leiti ágætt en samt ekki, og skrifaði bók um fyrirbærið sem kom út í mars og heitir „Hvað er eiginlega að þessu Alþingi?“ og er greining á vanda Alþingis og lýðræðisins í landinu.
Er fráskilinn og á eina dóttur sem er að verða sautján og einn kött. Hef áhuga á náttúru, stangveiði (silung), lýðræði, mannréttindum og heimsspeki.