Steinn Eldjárn Sigurðarson (steinnes)

Ég heiti Steinn Eldjárn Sigurðarson og er 33 ára forritari frá Reykjavík. Ég var einn af stofnendum félags um stafrænt frelsi á Íslandi, og hef talið mig til Pírata frá stofnun félagsins.

Ég heillaðist af hugsjónum um stafrænt frelsi vegna starfa minna í kringum hugbúnað, en það er í því samhengi vegna ritgerða Richard Stallman sem ég átta mig á þeirri ógn sem steðjar að réttindum manneskjunnar í stafrænu samhengi.

Á öðrum sviðum stefnunnar aðhyllist ég blöndu markaðs- og félagslegra lausna, og tel eðlilegt að ríkið veiti grunnþjónustu sem gagnast öllum í samfélaginu, ber þar helst að nefna menntakerfið, heilbrigðiskerfið og félagslega kerfið.

Á ferli mínum sem forritari hef ég unnið við rannsóknir og þróun kennsluhugbúnaðar í Austurríki og Hollandi. Á Íslandi hef ég bæði rekið eigin fyrirtæki, starfað fyrir ýmis fyrirtæki eins og Morgunblaðið, Símann, Friðrik Skúlason, og tekið þátt í sprotafyrirtækjum sem einn af fyrstu starfsmönnum.

Ég býð mig fram í prófkjöri Pírata á höfuðborgarsvæðinu vegna fjölda áskorana, og til að sýna í orði stuðning minn við hugsjónir Pírata um aukið beint lýðræði, og betri stjórnmál þar sem hagsmunir einstaklingsins og manneskjunnar eru í hávegum hafðir.