Arnaldur Sigurðarson (Arnaldur)

Ég byrja þessa kynningu á að svara nokkrum grunnspurningum í samræmi við tilmæli til frambjóðenda á vefsíðu Pírata en svo er hægt að lesa ítarlegri lýsingu hér fyrir neðan.

1. 1. Ef þú nærð kjöri til alþingis og seinna kæmi til ágreinings og aðstæðna þar sem þú segðir þig úr flokknum. Myndir þú segja af þér og víkja þingsætinu til varamanns eða starfa áfram sem óháður eða með öðrum flokkum?

Ég tel það ósköp eðlilegt að halda því til haga að kosningabarátta Pírata ætti að snúast um að koma hugmyndum Pírata inn á þing og hreyfingin mun mikilvægari en persónulegir hagsmunir einstakra þingmanna. Ég hef alltaf og mun alltaf hafa grunnstefnu Pírata til hliðsjónar í starfi mínu fyrir flokkinn. Ágreiningur er eðlilegur partur af þessu starfi en mikilvægt er að takast á við ágreining strax áður en hann fer að skapa vandamál fyrir flokkinn. Ég get varla ímyndað mér kringumstæður þar sem ég myndi segja mig úr flokknum en þá sé ég ekki annað fyrir mér en að ég myndi víkja fyrir varamanni.

2. Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá?

Já.

3. Hvaða stefnumál, úr samþykktum stefnum Pírata, þykja þér mikilvægust fyrir komandi kjörtímabil?

Stjórnarskrármálið er kannski augljóst. Ég tel það jafnframt mjög mikilvægt að taka sérstaklega á nokkrum málefnum sem ættu að vera í fyrsta forgangi akkúrat núna hjá hvaða stjórnmálamanni sem er, þ.e. að tryggja fyrsta flokks heilbrigðiskerfi, að koma með raunverulegar lausnir fyrir húsnæðiskerfið og eflingu menntakerfisins. Ef ég ætti að velja eina stefnu akkúrat núna þá er það sennilega stefna Pírata um að þjónusta sálfræðinga verði hluti af sjúkratryggingum (sjá https://x.piratar.is/polity/1/document/270/) í ljósi þess að það er eina stefnan sem gæti á svo bókstaflegan hátt bjargað mannslífum.

4. Hvað telur þú að þú hafir til brunns að bera sem geri þig að góðum kosti til að gegna þingmennsku fyrir Pírata?

Ég hef tekið að mér hin ýmsu hlutverk á tíma mínum innan Pírata. Ég sat tvö ár í framkvæmdaráði, var stofnmeðlimur Ungra Pírata og Pírata í Reykjavík og tók einnig að mér formennsku í Young Pirates of Europe. Ég hef einnig boðið mig fram fyrir hönd flokksins tvisvar. Í alþingiskosningunum árið 2013 var ég í 5. sæti í Reykjavíkurkjördæmi suður og svo aftur í kosningunum 2017 og í borgarstjórnarkosningunum 2014 var ég í 4. sæti. Eftir borgarstjórnarkosningarnar tók ég að mér að vera áheyrnarfulltrúi Pírata í skóla- og frístundaráði og var það í um 2,5 ár. Ég tók svo stöðu áheyrnarfulltrúa í mannréttindaráði í ársbyrjun 2017 en svo gerðist það nýlega að ég varð aðalmaður í ráðinu. Ég hef þar af leiðandi kynnst því nokkuð vel hvernig það er að vinna sem Pírati í meirihlutasamstarfi sem ég held að það gæti nýst Pírötum vel ef til þess kæmi að við fengjum umboð til að mynda ríkisstjórn á þingi.


5. Með hvaða hætti telur þú líklegast að Píratar geti fengið sínum málum framgengt á þingi?

Með stöðugri rannsóknarvinnu og með því að taka vel upplýstar ákvarðanir. Svo er að sjálfsögðu nauðsynlegur partur af árangri flokksins stöðug sjálfskoðun út frá grunnstefnu Pírata.Ég heiti Arnaldur Sigurðarson og er að bjóða mig fram til prófkjörs Pírata í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæminu. Ég útskrifaðist nýlega með BA gráðu í félagsfræði og fjölmiðlafræði ásamt því að ljúka einni önn í skiptinámi í Concordia Háskóla í Montreal, en þar var ég í námskeiðum í stjórnmálafræði og blaðamennsku. Ég starfa sem fulltrúi Pírata í mannréttindaráði Reykjavíkurborgar. Ég stefni á 1. sæti en mun að sjálfsögðu sætta mig við niðurstöðu prófkjörs og taka það sæti sem mér býðst. Ég hlakka til að taka þátt í komandi kosningabaráttu og miðað við þá reynslu sem ég hef af kosningabaráttum okkar síðan 2013, þá tel ég að kraftar mínir myndu gagnast vel í þessu krefjandi en spennandi verkefni sem er framundan. Ég vona innilega að þið hafið mig í huga þegar þið kjósið.

Ég gekk til liðs við Pírata fljótlega eftir stofnun flokksins. Það er hálf súrrealískt að hugsa til þess að á fyrsta fundinum sem ég sótti hjá Pírötum voru fundargestir álíka margir og þingmenn okkar eru núna. Ég heillaðist strax af fólkinu og eftir þennan örlagaríka fund var ekki aftur snúið. Síðan þá hef ég fylgst með Pírötum vaxa og dafna hraðar en ég gat nokkurn tíman búist við. Þetta er nánast eins og að fylgjast með barninu sínu vaxa og þroskast og mér þykir afskaplega vænt um það. Mér fannst eins og við höfðum náð sigri um leið og fjölmiðlar sýndu stefnumálum okkar vott af áhuga en við höfum náð svo miklu, miklu lengra en það og ég er virkilega stoltur af því að hafa lagt mitt af mörkum í að koma Pírötum á framfæri.

Mér er mjög annt um grunnstefnu Pírata og að henni sé fylgt vel eftir. Ég hef líka brennandi áhuga á menntamálum, utanríkismálum og sérstaklega mannréttindum. Starf mitt í skóla- og frístundaráði er búið að gefa mér mikla innsýn í menntakerfið og hvaða umbætur þarf að gera á því. Vandamál menntakerfisins eru hins vegar það djúpstæð að það er takmarkað sem hægt er að gera á sveitarstjórnarstiginu. Ég tel nauðsynlegt að taka menntakerfið til heildrænnar endurskoðunar þar sem við hverfum frá gömlum og úreltum aðferðum og horfum þess í stað til framtíðar þar sem litið er á menntun sem fjárfestingu í framtíðinni en ekki kostnað sem er í sífellt meira mæli settur á herðar nemenda og foreldra.

Hjá Young Pirates of Europe hef ég unnið að því að efla tengsl ungliðahreyfinga Pírata víða um Evrópu. Þar af leiðandi hef ég ferðast víða erlendis og hitt Pírata. Ég fékk þann heiður að fá að taka við formannstitlinum eftir að Julia Reda, Evrópuþingmaður Pírata í Þýskalandi þurfti að víkja vegna starfs síns. Það er hægt að læra mikið af því sem erlendir Píratar hafa gert vel en einnig af mistökum þeirra. Núna horfa Píratar um allan heim til okkar hér heima. Við eigum möguleika á margfalt meiri árangri en nokkrum öðrum Pírataflokki hefur tekist að ná. Því fylgir bæði mikill heiður fyrir okkur en einnig mikil ábyrgð. Nú þurfum við nefnilega ekki bara að sýna Íslandi að Píratar geti svo sannarlega komið á nauðsynlegum breytingum heldur einnig að Píratar hvar sem er í heiminum gætu gert slíkt hið sama.

Stjórnmál víða um heiminn standa frammi fyrir djúpstæðri krísu. Ég tel að Píratar og hugmyndir okkar um beint lýðræði, upplýstar ákvarðanir, opna umræðu og tjáningarfrelsi sé hluti af lausninni við þeirri krísu. Hefðbundin stjórnmál hafa brugðist fólki víða um heim og núna er kominn tími til að ný stjórnmál taki við. Það er mín einlæga von að Píratar nái að beita sér þannig á alþjóðavettvangi að Ísland verði raunverulega að þeirri mannréttindamiðstöð sem við gortum okkur svo mikið af, en er að mörgu leyti innantómt hjal. Eftir nokkur ár vil ég geta sagt stoltur við vini mína í Pírötum erlendis: „Svona komum við almennilega fram við innflytjendur og flóttamenn, svona komum við fram við fíkla og svona komum við fram við þá verst settu í samfélaginu“.