Árni Steingrímur Sigurðsson (Beltiras)

Á næstu dögum verður opnað kerfi sem ég skrifaði til að bera saman frambjóðendur og kjósendur í prófkjörinu líkt því sem ég skrifaði 2013 og 2014 fyrir DV.

Ég lít á þau kerfi sem það besta sem ég hef nokkru sinni smíðað og get sagt það með smá stolti og örlítið hryggur að ég hafi komið við 70.000 atkvæði í seinustu Alþingiskosningum. Með stolti vegna þess hversu margir notuðu kerfið og hversu vel það almennt heppnaðist, en örlítið hryggur yfir niðurstöðunni. Þessi ríkisstjórn hefði ekki náð meirihluta ef kjósendur hefðu farið að ráðleggingum kerfisins.

Ég er 45 ára Reykvíkingur með fjölbreytta starfsreynslu. Undanfarin 5 ár hef ég nýtt Tölvunarfræðimenntun frá Háskólanum í Reykjavík við tvo stærstu miðlana, mbl.is og dv.is og unnið sjálfstætt við lík kerfi. Ég er giftur Pálínu Ásgeirsdóttur sálfræðingi og saman eigum við son sem stundar nám við Tækniskólann. Nýverið var ég kjörinn formaður stjórnar Félags Tölvunarfræðinga.

Framan af aldri vann ég ýmis konar störf. Ég hef flokkað málma á ruslahaug, grafið upp götur til að skipta um skólplagnir, unnið rannsóknarstörf, við sandblástur, bílamálun og réttingar, lagerstörf, tölvuinnslátt, sendils og vaktmannsstörf á Landspítala ásamt eflaust einhverjum sem ég er að gleyma.

Ég hef upplifað á eigin skinni hvað það getur verið erfitt að neita sínum nánustu um einföld lífsgæði vegna þess að endar ná einfaldlega ekki saman og finnst það mikilvægasta verkefni stjórnmálamanna að finna leið til að auð landsins sé ekki eins misskipt og nú er. Það er ekki nóg að ég hafi náð að “meika það”, ég vil að fleiri fái tækifæri til að hafa það aðeins betra.

Við erum með frábæra stefnu í mörgum málaflokkum sem ég get kvittað undir nánast athugasemdalaust. Það er eitt mál sem skiptir mestu máli fyrir lýðræðissinnaða Íslendinga í dag og það er að Stjórnarskrármálið. Mikilvægt er að frumvarp Stjórnlagaráðs komist eins óbreytt í gegn um þingið og hægt er. Við sáum það á yfirstandandi kjörtímabili hversu auðvelt það er að missa þann árangur sem þó náðist í gegnsæi og stjórnarháttum sem náð var kjörtímabilinu á undan. Það vantar aðgengi þegnanna að stjórnvaldsákvörðunum þannig að þjóðin geti kallað eftir þeim breytingum sem þarf að gera á kerfinu þannig að lifandi sé í landinu. Lýðræðið á nefnilega að snúast um allt sem gerist á milli kosninga og kosningar eiga bara að vera froðan á öldunni. Með nýju stjórnarskránni hefur þjóðin færi á að gefa stjórnvöldum aðhald milli kosninga.

Ég var spurður á fundi frambjóðanda á dögunum af hverju ég ætti að ráða. Ég svaraði því til að ég vilji ekki ráða, ég vilji þjóna. Píratar eru nefnilega þannig uppbyggðir að grasrótin er sterkari en þeir sem veljast til trúnaðarstarfa. Ég vil þjóna þeirri hreyfingu.