Árni Steingrímur Sigurðsson (Beltiras)

Ég er 46 ára Reykvíkingur með fjölbreytta starfsreynslu. Ég vinn við forritun hjá Mentis Cura en við erum að vinna að greiningarforriti sem les heilalínurit og spáir fyrir um þróun á Alzheimer. Ég er giftur Pálínu Ásgeirsdóttur sálfræðingi og saman eigum við einn son. Á heimilinu eru líka tvö börn hennar af fyrra hjónabandi og maki annars þeirra.

Framan af aldri vann ég ýmis konar störf. Ég hef flokkað málma á ruslahaug, grafið upp götur til að skipta um skólplagnir, unnið rannsóknarstörf, við sandblástur, bílamálun og réttingar, lagerstörf, tölvuinnslátt, sendils og vaktmannsstörf á Landspítala ásamt eflaust einhverjum sem ég er að gleyma.

Ég hef upplifað á eigin skinni hvað það getur verið erfitt að neita sínum nánustu um einföld lífsgæði vegna þess að endar ná einfaldlega ekki saman og finnst það mikilvægasta verkefni stjórnmálamanna að finna leið til að auð landsins sé ekki eins misskipt og nú er. Það er ekki nóg að ég hafi náð að “meika það”, ég vil að fleiri fái tækifæri til að hafa það aðeins betra.

Við erum með frábæra stefnu í mörgum málaflokkum sem ég get kvittað undir nánast athugasemdalaust. Það er eitt mál sem skiptir mestu máli fyrir lýðræðissinnaða Íslendinga í dag og það er að Stjórnarskrármálið. Mikilvægt er að frumvarp Stjórnlagaráðs komist eins óbreytt í gegn um þingið og hægt er. Við sáum það á yfirstandandi kjörtímabili hversu auðvelt það er að missa þann árangur sem þó náðist í gegnsæi og stjórnarháttum sem náð var kjörtímabilinu á undan. Það vantar aðgengi þegnanna að stjórnvaldsákvörðunum þannig að þjóðin geti kallað eftir þeim breytingum sem þarf að gera á kerfinu þannig að lifandi sé í landinu. Lýðræðið á nefnilega að snúast um allt sem gerist á milli kosninga og kosningar eiga bara að vera froðan á öldunni. Með nýju stjórnarskránni hefur þjóðin færi á að gefa stjórnvöldum aðhald milli kosninga.

Ég var spurður á fundi frambjóðanda í fyrra af hverju ég ætti að ráða. Ég svaraði því til að ég vilji ekki ráða, ég vilji þjóna. Píratar eru nefnilega þannig uppbyggðir að grasrótin er sterkari en þeir sem veljast til trúnaðarstarfa. Ég vil þjóna þeirri hreyfingu.

Eftirfarandi eru umbeðnar upplýsingar um mig frá Kjördæmaráði:

Nafn: Árni Steingrímur Sigurðsson
Kennitala: 0208714909
Staða eða starfsheiti: Forritari/Lead Software Engineer
Heimili: Skeiðarvogur 73

Kjördæmaráð vildi að frambjóðendur svöruðu nokkrum spurningum:

Ef þú nærð kjöri til alþingis og seinna kæmi til ágreinings og aðstæðna þar sem þú segðir þig úr flokknum. Myndir þú segja af þér og víkja þingsætinu til varamanns eða starfa áfram sem óháður eða með öðrum flokkum?

Ég sæki umboð mitt til þeirra Pírata sem kjósa mig í prófkjöri. Ef vilji okkar greinir sundur þá er það ég sem þyrfti að víkja.

Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá?

Já, með einhverjum mögulegum áferðarbreytingum.

Hvaða stefnumál, úr samþykktum stefnum Pírata, þykja þér mikilvægust fyrir komandi kjörtímabil?

Þangað til frumkvæðis og andmælaréttur þjóðarinnar er bundinn í stjórnarskrá þá eru allar aðrar umbætur léttvægar því þær væri varnarlaust hægt að afnema af næstu valdhöfum. Mest aðkallandi vandi sem þarf að leysa er misskipting auðsins, húsnæðisvandi (bæði leigu og fasteignamarkaður) og heilbrigðiskerfi í molum.

Hvað telur þú að þú hafir til brunns að bera sem geri þig að góðum kosti til að gegna þingmennsku fyrir Pírata?

Ég virðist hugsa öðruvísi en fólk í kring um mig en er fljótur að taka rökum (sem ég samþykki) um að ég sé á rangri braut. Það leyfir mér að ítra hugmyndir hratt og komast að samkomulagi við þá sem ef til vill myndu vilja sjá óbreytt ástand. Ég trúi á Píratakóðann og Grunngildin. Þau eru ljósið í hellismunanum sem við erum að reyna að leiða aðra í skilning um að muni breyta heiminum fyrir þau líka.

Með hvaða hætti telur þú líklegast að Píratar geti fengið sínum málum framgengt á þingi?

Við þurfum að halda okkar striki. Við gætum gert það í Ríkisstjórn, en það er ekki nauðsynlegt að komast þangað. Við höfum sýnt að það eru fleiri tæki í tólakassanum sem leyfir okkur að fá aðra til að breyta fyrir okkur því sem við hefðum breytt sjálf. Við þurfum að "hakka kerfið" alls staðar þar sem það er mögulegt. Það er mesti styrkur okkar.