Bergþór H. Þórðarson (Bergthor)

Bergþór heiti ég og er Pírati. Ég er líka öryrki.
(Kynningarmyndband á YouTube: https://youtu.be/0PW-MsquFkI)

Ég gef kost á mér í 2. sæti á lista flokksins í Reykjavík en mun taka því sæti sem niðurstaða prófkjörsins leiðir af sér.
Það er ekki náttúrulögmál að það sé alltaf til karl sem er aðeins hæfari en kona til að leiða lista. Við erum með mjög hæfar konur í framboði og við ættum að nýta það okkur í hag.

Ástæða þess að ég tek fram að ég sé öryrki er að fólk hlustar á jafningja. Því tel ég líklegt að ég nái betur til þessa hópa heldur en margur annar. Ég tel okkur hafa skort ákveðna breidd í efstu sæti okkar framboðslista. Sé örorkulífeyrisþegi í einu af efstu sætunum, þá náum við að auka þá breidd og höfum rödd örorkulífeyrisþega og náum til þeirra og margra annarra sem þurfa á þjónustu velferðarkerfisins að halda. Að kjósa mig í annað sætið tel ég líklegt til að styrkja lista okkar í borginni af þessari ástæðu.

Mig langar til að halda áfram því góða starfi sem Halldór Auðar Svansson, borgarfulltrúi okkar á síðasta kjörtímabili, og samstarfsfólk hans hafa unnið í borgarstjórn á kjörtímabilinu sem er að líða. Þökk sé þeirra vinnu búum við nú við meira gagnsæi, betra lýðræði og bætta stjórnsýslu í borginni. Grunnstefna okkar Pírata er lykillinn að þeirri vinnu.

Mín aðaláhersla er á bætt velferðarkerfi og félagsþjónustu í borginni. Það er mín skoðun að til þess að fólk geti nýtt sín borgaralegu og lýðræðislegu réttindi að fullu, þá þurfi það að hafa fullan aðgang og aðgengi að almennu samfélagi.
Verði eitthvað til þess að jaðarsetja eða einangra fólk, þá takmarkar það aðgengi þess að samfélaginu. Við þær aðstæður þurfa stjórnvöld að veita þá aðstoð og þjónustu sem fólk þarf til að það hafi aðgengi til jafns við aðra.

Án öflugs velferðarkerfis, kerfis sem virkar vel og örugglega fyrir þá sem á því þurfa að halda, munu Píratar ekki ná sínum höfuðmarkmiðum að fullu. Því er mikilvægt að velferðarkerfið sé ein af megináherslum Pírata. Hlutverk stjórnvalda er að grunnþörfum fólks sé fullnægt; matur, húsnæði og öryggi, áður en önnur verkefni koma til.

###Enginn á að þurfa að vera heimilislaus í Reykjavík. Enginn á að þurfa svelta í Reykjavík.###

###Hvernig vil ég ná þessum markmiðum?###

Mikil uppbygging húsnæðis er hafin í Reykjavík. Þar af eru um 700 íbúðir ætlaðar Félagsbústöðum. Það mun taka tíma að byggja húsnæðið og afhenda. Til að brúa bilið vil ég að Félagsbústöðum verði gert að kaupa íbúðir enn hraðar en nú er gert til að vinna niður biðlista eftir húsnæði. Þessar íbúðir verður svo hægt að selja aftur þegar búið er að byggja nóg ef ekki er þörf á þeim. Fólki í neyslu á að tryggja búsetuúrræði skilyrðislaust. Það er erfitt eða ómögulegt að aðstoða fólk úr vítahring neyslunnar ef það er heimilislaust. Auk þessa þarf borgin einnig að tryggja fjölbreytt úrval húsnæðis til að koma til móts við mismunandi þarfir fólks.

Hlutverk fjárhagsaðstoðar á aðeins að vera bráðabirgðaúrræði til að brúa bilið þar til fólk er komið í önnur úrræði. Fjárhagsaðstoðin þarf þó að duga til að tryggja fólki lífsviðurværi.
Það þarf að hækka fjárhagsaðstoð til framfærslu í átt til jöfnunar við önnur framfærslukerfi stjórnvalda; almannatryggingar og atvinnuleysisbætur. Hér ætti áherslan að vera á valdeflingu byggða á hverjum einstakling fyrir sig. Það gæti verið aðstoð við að útvega hjálpartæki. Styrkir til að sækja námskeið. Eða aðstoð við að sækja um í almannatryggingakerfinu. Eða önnur þjónusta ekki talin hér.
Það að fjárhagsaðstoð einstaklings sé skert vegna tekna maka verður að hætta. Slík tenging var afnumin úr lögum um almannatryggingar fyrir áratug síðan og er ekki til staðar í atvinnuleysisbótakerfinu. Þessi tenging brýtur gegn Mannréttindasáttmála Evrópu og Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu Þjóðanna. Þetta er einnig í algjörri andstöðu við Grunnstefnu Pírata.
Skerðingarkerfi sem felur í sér að allar tekjur skerða aðstoðina krónu á móti krónu virkar letjandi. Því þarf að breyta. Krónu á móti krónu skerðing skapar fátækragildru. Það er ólíðandi.

Það þarf að afnema hámarksaldur til að geta fengið skólastyrk í nám sem er ekki lánshæft. Það er hagur allra að fólk sem á því þarf að halda fái aðstoð við að ná sér í menntun. Það valdeflir einstaklinginn og skilar sér til lengra tíma litið í heilbrigðara þjóðfélagi.

Aðra styrki og þjónustu á ekki að skilyrða við að viðkomandi sé að fá fjárhagsaðstoð vegna framfærslu. Einstaklingur undir tekjumörkum þarf á aðstoð að halda t.d. til að komast til tannlæknis, sálfræðings, félagsráðgjafa o.s.frv. Að aðstoða einstakling við að ná sér í aukna hæfni til starfa valdeflir. Því ætti aðstoða fólk til að sækja sér ýmis námskeið sem getur aukið möguleika á ráðningu og þar með komist aftur á vinnumarkað þegar það á við. Aðstoð ætti einnig að byggja á þörfum hvers einstaklings fyrir sig og því þarf kerfið að verða sveigjanlegra til að koma betur til móts við þá sem á aðstoðinni þurfa að halda.

Það er margt fleira sem ég vil vinna að til að bæta lífsgæði jaðarhópa og annarra hópa sem þurfa á velferðarþjónustu borgarinnar að halda. Til að stikla á stóru; örugg neyslurými, félagsstarf eldri borgara, félagsleg heimaþjónusta, tryggja skilvirka og örugga upplýsingagjöf til skjólstæðinga borgarinnar, stytta málsmeðferðartíma umsókna og lengi mætti telja áfram.

Kristín Elfa, núverandi fulltrúi Pírata í velferðarráði borgarinnar, hefur barist ötullega í þessum málaflokki. Ég vona að ég fái tækifæri til að halda hennar baráttu áfram, helst í samvinnu með henni, og til þess þarf ég ykkar stuðning í þessu prófkjöri.

Spurningar til frambjóðenda:
Hvers vegna vilt þú bjóða þig fram fyrir Pírata umfram annað?
Hugmynda- og aðferðafræði Pírata felur í sér það bætta stjórnkerfi, stjórnsýslu og vinnubrögð í stjórnmálum sem ég er mest hallur undir. Grunnstefna okkar ein besta nýjungin sem ég hef séð í íslenskum stjórnmálum síðan ég fór að fylgjast með þeim. Að hægt sé að finna í einu tiltölulega stuttu skjali grunnáherslur flokksins og einfaldar lágmarksreglur um hvernig hann skuli starfa er hreinlega frábært. Ég styð hana heilshugar og geri mitt besta til að fylgja henni í öllum störfum mínum fyrir flokkinn.

Píratar hafa sýnt það í verki á undanförnum árum að þeir, umfram aðra stjórnmálaflokka, gefa fólkinu færi á að hafa áhrif. Það getur t.d. hver sem er skrifað upp þingmál og beðið þingflokkinn um að leggja það fram. Eina skilyrðið er að það brjóti ekki gegn grunnstefnu Pírata eða öðrum samþykktum. Það sama á við í borginni þó það sé minna í sniðum. Þetta er mjög valdeflandi. Ég mun gera mitt besta til að koma málum sem ég verð beðinn fyrir á framfæri hjá borginni nái ég kjöri.

Ég hef sjálfur samið drög að fjórum málum, einni fyrirspurn og þremur frumvörpum.
Björn Leví lagði fram fyrirspurnina mína í fyrra en hún sneri að kostnaði við ýmsa möguleika á að draga úr skerðingum í almannatryggingakerfinu (http://www.althingi.is/altext/146/s/0361.html).
Halldóra Mogensen flutti svo tvö af þremur frumvörpum sem ég samdi en það þriðja þarf að vinna betur. Frumvörpin fjalla öll um umbætur á almannatryggingum. Þar ber helst að nefna afnám krónu á móti krónu skerðinga sem er mikið réttlætismál fyrir öryrkja. Hér má lesa smá grein um frumvörpin og af hverju ég skrifaði þau https://piratar.is/frettir/bergthorsfrumvorpin-logd-fram-althingi/
Þessi möguleiki gefur almennu félagsfólki, og reyndar öllum öðrum líka, öflugt tæki til að koma sínum hugðarefnum á framfæri. Það er tækifæri sem er takmarkað hjá öðrum flokkum.

Hvað telur þú að þú hafir til brunns að bera sem geri þig að góðum kosti til að vera sveitarstjórnarfulltrúi fyrir Pírata?
Verk mín standa fyrir sínu. Síðan ég gekk til liðs við Pírata fyrir þremur árum hef ég komið að flestum þáttum í starfi Pírata með einum eða öðrum hætti. Ég hef tvisvar setið í framkvæmdaráði og verið ritari Pírata í Reykjavík. Þeim hlutverkum hafa fylgt margvísleg verkefni eins og umsjón með vef, skipulagning viðburða, skjölun, leiðbeiningar til félaga um reglur og ferla, hönnun á reglum og ferlum, o.s.frv. Ég hef haft mikla aðkomu að málefnavinnu en lagt mesta áherslu á velferðarmálin. Umbætur á félagslögum Pírata hafa mikið verið að mínu frumkvæði undanfarin ár. Sem stendur sit ég í hverfisráði Breiðholts fyrir Pírata.

Allt ofan talið gerir það að verkum að ég þekki Pírata út og inn. Setan í hverfisráði hefur líka gefið mér reynslu af störfum í stjórnkerfi borgarinnar.

Síðastliðið ár hef ég líka starfað með félagasamtökunum EAPN (European Anti-Poverty Network) og grasrótarhluta þeirra PeP (People experiencing Poverty) eða PePP, fólks í fátækt eins og þau eru kölluð hérna. Þau störf hafa gefið mér tengingu við enn fleiri sem hafa reynsluna af því að þurfa á aðstoð að halda.

Það að ég sé öryrki sem hefur vegna lágra tekna í gegnum tíðina margsinnis þurft að leita aðstoðar félagsþjónustunnar veitir mér sterka rödd á meðal þeirra sem þurfa að reiða sig á velferðarkerfið sér til framfærslu og annarra nauðþurfta. Ég hef verið fátækur mest alla mína fullorðins tíð. Vegna þessarar reynslu minnar er ég persónulega kunnugur göllum á þjónustu borgarinnar við þessa skjólstæðinga hennar.

Ég geri mér far um að læra það sem ég þarf að kunna eða vita alveg í þaula. Það er vegna þessa sem ég þekki velferðarkerfið eins vel og raunin er. Ég þurfti að kunna og vita hvernig kerfið er uppsett til að ég gæti gætt að réttindum mínum innan þess. Það sama mun ég gera nái ég kjöri. Læra eins mikið um alla króka og kima borgarinnar, greina vandamál og hvar mætti betrumbæta og vinna svo að því, innan marka grunnstefnunnar og annarra samþykkta flokksins.

Með þessa þekkingu að vopni tel ég mig geta verið góðan fulltrúa Pírata og hugmyndafræði okkar í borgarstjórn.

Úr grunnstefnu Pírata, hvaða grein eða greinar telur þú að lýsi vel áherslum þínum sem tilvonandi sveitarstjórnarfulltrúi og/eða fulltrúi í ráð/stjórn á vegum borgarstjórnar?
Fyrsti kafli hennar um gagnrýna hugsun og upplýsta stefnu er minn uppáhalds kafli. Sá kafli setur tóninn fyrir hvernig við vinnum að markmiðunum í hinum köflum stefnunnar. Þar þykir mér einna mest vænt um gr. 1.3 um að við eigum alltaf að vera opin fyrir endurskoðun okkar ákvarðanna.

Hvað varðar efnisleg áhrif stefnunnar á mínar áherslur um velferðarkerfið þá eru nokkrar greinar sem koma til. Velferð nær yfir svo vítt svið að það snertir á flestum flötum grunnstefnunnar. En ef ég á að velja þá eru það greinar sem snúa beint að afkomu einstaklingsins. 2.4 um að réttur hvers og eins sé jafn sterkur, 4.5 um að forsenda ábyrgðar er getan til að taka ákvörðun, 4.6 rétturinn til að koma að ákvörðunum um eigin málefni og vera upplýstur um það hvernig þær eru teknar og 6.1 sem segir svipað og 4.6.

Um mig:
Ég er fæddur í Reykjavík 1979. Ég man fyrst eftir mér þegar ég bjó í Vesturbænum. Þaðan fluttum við móðir mín á Hellissand 1989 (hún var einstæð móðir sem tókst að vinna sig upp úr fátækt í millistjórnendastöðu hjá Pósti og Síma. Eftir að hún veiktist af brjóstakrabbameini átti hún ekki afturkvæmt á vinnumarkað og féll aftur langt niður í tekjum). Ég flutti svo í bæinn aftur 1998, fyrst í miðbæinn en svo í Breiðholtið í kringum aldamótin. Þar hef ég búið að mestu síðan. Ég á eina dóttur sem býr erlendis en er hjá mér reglulega.
Stúdentsprófið fékk ég í Fjölbrautaskólanum við Ármúla. Eftir ýmsar tilraunir við háskólanám er ég búinn að komast að því að ég veit ekki hvað ég vil verða þegar ég verð stór. Ég veit bara að ég vil reyna að laga heiminn aðeins áður en ég verð það. ;)

Það má senda mér fyrirspurnir eða hvað sem er annað varðandi framboðið á frambod@bergthor.is
Það eru meiri upplýsingar um mig og einhverjir pistlar á vefsíðunni minni: bergthor.is
Svo er slatti af pistlum og öðru efni á læk síðunni minni á Facebook: https://www.facebook.com/BergthorHTh/

Hagsmunaskráning:
Aðalmaður í Hverfisráði Breiðholts f. Pírata
Varamaður í stjórn TR fyrir Pírata
Sit í velferðarvaktinni fyrir hönd PEPP

Launuð störf fyrir 101 BarCo. ehf.
Engar eignir sem máli skipta.