Bergþór H. Þórðarson (Bergthor)

Ég heiti Bergþór og ég er pírati. Ég er lika dyravörður, öryrki og nemi í hugbúnaðarverkfræði í Háskóla Íslands. Ég er 36 ára gamall.
Ég stefni á að vera sem efst á lista, helst í 1-3 sæti. Píratar setja mig að sjálfsögðu í það sæti sem þeim hugnast að ég sé í og mun ég taka hverju því sæti sem flokkurinn setur mig í. Ég mun taka sæti á þeim lista þar sem ég fæ sæti sem efst en hafi ég val um sama sæti í Suðvesturkjördæmi eða öðru hvoru Reykjavíkurkjördæminu mun ég taka sæti í Reykjavík. Ég stefni hátt á lista þar sem ég tel að ég muni gagnast Pírötum og íslensku þjóðinni mun meira inni á þingi en utan.

Ég er ritari stjórnar Pírata í Reykjavík og var varamaður í síðasta framkvæmdaráði. Ég sit einnig í Hverfisráði Breiðholts fyrir Pírata.
Ég hef verið skráður í Pírata í nærri tvö ár og hef verið virkur þátttakandi í grasrótinni síðasta eina og hálfa árið. Ég hef komið að flest allri stefnumótun flokksins með einum eða öðrum hætti á þessum tíma. Ég hef þó mestan áhuga á málefnum sem tengjast velferðar- og heilbrigðiskerfunum.
Ég hef líka séð um ýmis önnur verk fyrir Pírata á þessum tíma. Ég sá að miklu leyti um að viðhalda og uppfæra gömlu vefsíðuna en sagði mig frá því verki, allavega tímabundið, eftir að nýja vefsíðan kom í loftið. Ég átti mikinn þátt í flestum þeirra lagabreytingatillagna sem voru lagðar fyrir síðasta aðalfund Pírata. Stoltastur er ég líklega af nýliða- og grasrótarfundunum sem ég hef haldið síðan í október í fyrra. Í byrjun þessa árs þá bjó ég, með góðri aðstoð annarra pírata, til fyrirlestur sem ég hef flutt á nýliðafundunum síðan þá. Ég hef því tekið á móti stórum og góðum hópi nýliða undanfarið ár.

Meira um mig má lesa á vefsíðunni minni bergthor.is. Það má einnig senda mér fyrirspurnir á "frambod@bergthor.is". Ég mun reyna að svara öllum fyrirspurnum ásamt því að birta spurninguna og svarið á vefsíðunni minni.

Af hverju bauð ég mig fram fyrir Pírata?

Ég ákvað að starfa með Pírötum af ýmsum ástæðum. Helsta ástæðan er að fyrir mér er líklegast að Píratar komi alvöru breytingum á stjórnkerfi landsins í gegn. Breytingum sem er orðið alveg ljóst að er nauðsynlegt að koma í gagnið sem fyrst. Uppljóstrunin um Panamaskjölin er bara nýjasta dæmið um að eitthvað er í ólagi í þessu landi.
Pírötum er einnig umhugað um að rödd fólksins fái að heyrast. Hvergi hef ég séð jafn greiðan aðgang að stefnumótun eins og hjá Pírötum. Það er nauðsynlegt að hver sem er geti komið að stefnumótuninni því með því er hægt að styrkja lýðræðið. Þetta er hugmyndafræði sem þarf svo að útvíkka til að styrkja beint lýðræði óháð flokksaðild eða -stuðning. Allir þegnar eiga geta komið að stefnumótun sem þá varðar. Beint lýðræði er þó bara verkfæri sem er gagnlegt til að styrkja sjálfsákvörðunarréttinn. "Ekkert um okkur án okkar".
Fólk er boðið velkomið til starfa með Pírötum. Það er gert óháð uppruna, fyrri sögu eða sértækum persónulegum skoðunum. Það er í raun einungis farið fram á að fólk sé tilbúið að starfa innan þess lýðræðislega kerfis sem Píratar hafa búið til. Þar með talið að styðja grunnstefnuna og þá hugmyndafræði sem Píratar vinna eftir.

Það er mín sannfæring að grasrótin á að ráða markmiðum flokksins í gegnum stefnumótunarkerfi okkar. Þingflokkur Pírata á að leggja sig fram um að koma þeim markmiðum í framkvæmd og ber hann ábyrgð á að finna þá útfærslu sem líklegust er til að ná þeim markmiðum. Þingmenn Pírata þurfa að koma sem mest fram sem ein heild þegar fjallað er um málefni sem grasrót flokksins hefur samið og samþykkt stefnu um. Ég mun fylgja þingflokknum að máli í þeim tilvikum. Ef upp koma mál sem ég get engan veginn stutt vegna minnar sannfæringar þá mun ég, eftir atvikum, hleypa varamanni að eða sitja hjá.

Hver eru mín áherslumál?

Ég legg mikla áherslu á þau tvö mál sem Píratar ályktuðu að skyldu sett á oddinn á aðalfundi flokksins 2015. Þ.e. að samþykkja skuli nýja stjórnarskrá þar sem tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar og að haldin verði bindandi þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort halda skuli ESB samningaviðræðum áfram.
Ný stjórnarskrá er hluti af þeim nauðsynlegu breytingum og umbótum á okkar kerfum sem þarf að ráðast í. Þjóðin samþykkti í þjóðaratkvæðagreiðslu að tillögur Stjórnlagaráðs skyldu lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá. Það þarf því að verða við þeim vilja sem kom fram í atkvæðagreiðslunni. Frumvarpið var lagt fram en ferlið var ekki klárað. Ég mun taka virkan þátt í að sjá til þess að ferlið verði loksins klárað. Ég hef mínar hugmyndir um hvernig eigi að gera það (sem má lesa ítarlega um á vefsíðunni minni). Mér þykir þó mikilvægast að þingflokkurinn sé samstíga um hvernig á að gera þetta og mun ég fylgja niðurstöðu hans þegar hún er orðin ljós.
Þjóðinni var einnig lofað þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort halda ætti áfram aðildarviðræðum við ESB. Það loforð var svikið eins og frægt er orðið. Við viljum efna það loforð og skiptir afstaða mín í hvort skuli halda viðræðunum áfram ekki máli. Þjóðin á að fá að ráða því.
Til viðbótar við stjórnarskrána er ljóst að það þarf að breyta og bæta ótrúlega margt til að þjóðfélagið okkar verði að því sem ég, og fleiri, vil að það sé. Þjóðfélag þar sem fólk fær tækifæri til að vera besta útgáfan af því sem það getur verið. Til að svo megi verða þarf fólk að hafa aðgang að menntun og öðrum tækifærum sér til handa óháð efnahag eða aðstæðum að öðru leyti.

Mín aðaláherslumál eru þó bætt velferðar- og heilbrigðiskerfi. Ég hef tekið virkan þátt í stefnumótun í þessum málefnaflokkum. Ég hyggst halda því áfram, helst inni á þingi en annars í grasrótinni.

Áfram Píratar! Yarr...