Bergþór H. Þórðarson (Bergthor)

Ég gef kost á mér í 2-4. sæti á öðrum hvorum listanum í Reykjavík. Ég mun engu að síður taka því sæti sem niðurstaða prófkjörsins leiðir af sér.

Vefsíðan mín: www.bergthor.is
Læksíðan á Facebook: https://www.facebook.com/BergthorHTh/

Ég er Pírati, öryrki og dyravörður. Ég held það sé Pírötum mikið í hag að hafa mig sem efst á lista, m.a. af því ég er í góðri stöðu til að ná til öryrkja, ellilífeyrisþega og annarra sem þurfa að treysta á velferðarkerfið til framfærslu. Verandi öryrki sjálfur þá hef ég lagt mig fram við að kynna mér hvernig velferðarkerfið virkar og þá sérstaklega almannatryggingar. Ég hef mjög mikla og yfirgripsmikla þekkingu á þeim málaflokk. Vegna þessa hef ég rætt þessi mál við flesta okkar þingmenn, uppfrætt og aðstoðað þá. Björn Leví lagði fram fyrirspurn fyrir mína hönd er varðar kostnað við að afnema tekjutryggingar. Fyrirspurn sem er í samræmi við samþykkta stefnu okkar (https://x.piratar.is/polity/1/document/196/?v=2). Svar ráðherra er hér: http://www.althingi.is/altext/146/s/0361.html

Lífeyrisþegar hafa talað um við mig að þeim finnist sá hópur vera afskiptur af Pírötum. Við erum með mjög góð stefnumál í þeim málaflokki sem hefur ekki komist nógu vel á framfæri. Með því að hafa öryrkja og/eða ellilífeyrisþega ofarlega á lista hjá okkur er auðveldara að laga þá upplifum.

Ég sat í stjórn Pírata í Reykjavík 2015-16 sem ritari stjórnar og á sama tíma í framkvæmdaráði sem varamaður. Ég sit sem stendur í framkvæmdaráði (aftur) sem meðstjórnandi. Ég hef mikið komið að stefnumótun hjá flokknum, með áherslu á velferðar- og heilbrigðismál. Ég hef líka tekið virkan þátt í öllum umræðum og stefnumótun varðandi nýja stjórnarskrá. Þá hef ég einnig verið virkur í endurskoðun félagslaga okkar, bæði hjá landsfélaginu og aðildarfélögum. Þar að auki hef ég gert allt mögulegt sem þurft hefur að gera fyrir flokkinn. Þar má líklega helst nefna að sjá um streymi og önnur tæknimál.

1. Ef þú nærð kjöri til alþingis og seinna kæmi til ágreinings og aðstæðna þar sem þú segðir þig úr flokknum. Myndir þú segja af þér og víkja þingsætinu til varamanns eða starfa áfram sem óháður eða með öðrum flokkum?

Já. Ef svo færi að ég teldi mér ekki fært að vinna með flokknum lengur þá myndi ég segja af mér þingmennsku. Ég hef alla tíð verið þeirrar skoðunar að það er flokkurinn/framboðið sem kemur einstaklingnum inn á þing. Ef það væri ekki fyrir flokkinn þá myndi viðkomandi einstaklingur nokkuð örugglega ekki vera á þingi.
Þar til persónukjör verður leyft, í samræmi við tillögur Stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá, þá lít ég svo á að listinn sem einstaklingurinn var kosinn á þing fyrir eigi tilkall til sætisins en ekki einstaklingurinn sjálfur.

2. Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá?

Já. Ný stjórnarskrá er ein mesta réttarbót nútímans sem möguleg er. Þar eru mikilvægar umbætur í stjórnskipun landsins. Helst er þar að nefna valdefling almennings til að koma að lagasetningu með beinum hætti, aðgerðir í þágu jafns atkvæðavægis, auðlindir í eigu þjóðarinnar og bætt breytingarákvæði. Þetta er ekki tæmandi upptalning enda væri hægt að halda lengi áfram.

3. Hvaða stefnumál, úr samþykktum stefnum Pírata, þykja þér mikilvægust fyrir komandi kjörtímabil?

Ný stjórnarskrá, umbætur í almannatryggingakerfinu, sjávarútvegsstefnan, og að tannlækningar og þjónusta sálfræðinga verði felld inn í greiðsluþátttöku sjúkratrygginga. Ekki endilega í þessarri röð. Annars eru úr svo mörgum góðum málum að velja að það er erfitt að setja þau í forgangsröð.

4. Hvað telur þú að þú hafir til brunns að bera sem geri þig að góðum kosti til að gegna þingmennsku fyrir Pírata?

Ég er öryrki með mjög yfirgripsmikla þekkingu á velferðarkerfinu almennt og almannatryggingakerfinu sérstaklega. Ég er nákvæmur í vinnubrögðum og góður í að greina smáatriði. Ég get verið öflugur talsmaður fyrir lífeyrisþega, bæði hjá þingflokki Pírata og á Alþingi sjálfu.

5. Með hvaða hætti telur þú líklegast að Píratar geti fengið sínum málum framgengt á þingi?

Best væri fyrir Pírata að komast í stjórn. Sem hluti af meirihluta á Alþingi ættu Píratar mun auðveldara með að koma sínum stefnumálum á framfæri. Sú stjórn þarf þó að vera styrk og stöðug til að svo megi verða.
Með áframhaldandi áherslu á gagnsæi, upplýstar ákvarðanir, og bætt vinnubrögð á Alþingi með grunnstefnu Pírata að leiðarljósi getum við komið miklu í verk. Hvort sem það er innan eða utan stjórnar.

Hagsmunaskráning:
Meðstjórnandi í framkvæmdaráði Pírata 2017-19
Aðalmaður í Hverfisráði Breiðholts f. Pírata
Varamaður í stjórn TR fyrir Pírata
Sit í velferðarvaktinni fyrir hönd PEPP

Launuð störf fyrir 101 BarCo. ehf.
Engar eignir sem máli skipta.