Halldóra Mogensen (Halldora)

Ég hef, síðan ég man eftir mér verið að pæla í hvernig hægt sé að breyta heiminum til hins betra. Ég hef aldrei sætt mig almennilega við það að hlutirnir þurfi að vera eins og þeir eru. Þegar ég kynntist Pírötum sumarið 2012 þá kynntist ég hópi fólks sem hafði skilning á framtíðinni og einstaklega fallega sýn. Fólk sem, eins og ég sá þörfina fyrir breytingar. Ég tók þátt í að stofna Pírata, sat í framkvæmdaráði og hellti mér í þá vinnu við að koma flokknum á þing. Ég sat 4 sinnum á þingi sem varaþingmaður Helga Hrafns á seinasta kjörtímabili og lagði þá fram þingmál um borgaralaun. Ég kom svo inn á þing sem 11. þingmaður Reykjavíkurkjördæmis norðurs eftir kosningarnar í fyrra.

Við erum að horfa fram á stórkoslegar breytingar í framtíðinni þar sem tækniframfarir á borð við gervigreind og sjálfvirknivæðing starfa, aukinn ójöfnuður og loftlagsbreytingar munu neyða okkur til að endurhugsa grunn hugmyndafræði samfélags okkar. Eins og flestum er kunnugt er mitt helsta baráttumál að koma á framfæri innan þingsins hugmyndinni um skilyrðislausa grunnframfærslu eða það sem við köllum borgaralaun. En þetta er bara eitt af mörgum málum sem ég brenn fyrir.

Það eru stór verkefni framundan. Við þurfum að samþykkja nýjan samfélagssáttmála og vinna að auknu gegnsæi, aðkomu almennings að ákvarðanatöku og losa okkur við þá sérhagsmunagæslu sem virðist rótgróin í núverandi kerfum. Fyrstu skrefin í átt að því að uppræta þá spillingu sem við sjáum í samfélaginu okkar er að grafa hana upp, upplýsa um hana og skapa þannig umræðu. Þannig eru Píratar dropinn sem holar steininn.

Eitt það mikilvægasta sem þingmenn Pírata hafa haft yfir þingmenn annara flokka er getan til að horfa fram á veginn og hugsa í lausnum sem ná lengra en yfir eitt kjörtímabil. Að horfa á heildarmyndina og forðast það að festast í því að meðhöndla einkenni vandans en ráðast frekar í rótina.

Ég hef lagt mestu áherslu á starf mitt innan velferðarnefndar en þar hef ég talið að hægt sé að ná mestum árangri. Ég hef beitt mér fyrir því að upplýsa um mál eins og afturvirkra skerðingu lífeyrisréttinda sem átti að afgreiða í miklum flýti og leynd. Einnig átti að afgreiða í flýti mál heilbrigðisráðherra sem fól í sér að varsla og meðferð stera yrði refsiverð með allt að 2 ára fangelsisvist. Ég barðist fyrir því að fara afglæpavæðingarleiðina og náðum við að koma í veg fyrir að málið yrði afgreitt óbreytt.

Ýmis illa unninn og illa rökstudd mál komu til umræðu hjá nefndinni og hef ég upplifað það sterkt hversu mikilvægt það er í nefndarvinnunni að búa yfir heilbrigðu vantrausti á nálgun ráðuneytisins í lagagerð, beita gagnrýnni hugsun og hugsa aðeins út fyrir kassann. Einnig verður að lagfæra að mikilvæg mál séu unnin í mikilli tímapressu, án nægilegs samráðs og oftast án tillits til þeirra athugasemda sem koma fram í umsögnum.

Ég hef talið mitt helsta verkefni sem þingmaður í stjórnarandstöðu að rýna í þingmál ríkisstjórnar og passa upp á að engin stórslys sleppi í gegn. Ef það virðist ekki ætla að takast er stefnan að hafa hátt um það og vekja athygli á því.

Það er samt mikilvægt að missa sig ekki í baráttunni “gegn” heldur einnig að setja púður í baráttuna “fyrir”. Ég er með 3 tilbúin þingmál sem átti að leggja fram núna við byrjun nýs þings.

Eitt málið er þingsályktun þess efnis að rannsaka möguleikann á að innleiða skilyrðislausa grunnframfærslu eða það sem kallast borgaralaun, á Íslandi. Annað málið er þingsályktun sem felur heilbrigðisráðherra að undirbúa og leggja fram lagafrumvarp sem heimilar notkun og framleiðslu lyfjahamps (kannabis til lækninga). Þriðja málið er þingsályktun sem felur ríkisstjórninni að undirrita og fullgilda valfrjálsa bókun við alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi. Með fullgildingu bókuninnar opnast möguleiki á að Íslendingar geti kært brot gegn ákvæðum samningsins til kærunefndar innan Sameinuðu Þjóðanna.

Ég er með fleiri þingmál í vinnslu og hef ég verið að skoða hugmyndir eins og að afnema skerðingar eldri borgara og öryrkja, að hækka persónuafsláttinn í skrefum og að greiða bændum borgaralaun í stað núverandi niðurgreiðlna, tollvernda og annara styrkja.

Þetta eru mér hjartans mál. Baráttan fyrir því raunverulega frelsi sem felst í jöfnum tækifærum fólks til að lifa með virðingu og reisn. Þetta er ástæðan fyrir því að ég bauð mig fram upprunalega og mun gera það aftur. Ég sæki eftir því að fá umboð ykkar, kæru Píratar til að halda þessari vinnu áfram.

http://www.althingi.is/altext/cv/is/?nfaerslunr=1218