Katla Hólm Vilbergs- og Þórhildardóttir (Katla)

Ég heiti Katla Hólm og ég er 29 ára gömul. Ég er kynjalegur heimspekingur en ég kláraði B.A. próf í Háskóla Íslands vorið 2016. Sem stendur er ég að nema siðfræði og gagnrýna hugsun á framhaldsstigi í HÍ ásamt því að sitja sem áheyrnarfulltrúi Pírata í skóla- og frístundasviði borgarinnar en ég er spennt fyrir hverju því sem framtíðin ber í skauti sér.

Samfélagið okkar er líf mitt og yndi. Ég brenn fyrir réttlæti og sanngirni og kemur það að miklu leyti vegna minnar eigin reynslu. Ég þekki fátækt á eigin skinni, ég þekki ömurleika heilbrigðiskerfisins, viðbragðsleysi velferðarkerfisins þegar fólk í neyð á sér enga von og úrræðaleysi þeirra sem sjá ekki ljósið í enda ferðarinnar. Ég veit að sama hversu mikið fólk í forréttindastöðu talar um að í samfélaginu sé hagvöxtur og aukinn kaupmáttur verður það samt ekki sannleikur. Ég veit að fátækt fólk er ekki fátækt vegna leti, fátæktin er gildra sem er nánast ómögulegt að koma sér frá og ég veit að það þarf aðgerðir yfirvalda til að hjálpa fólki úr þeirri gildru.

Ég mun ávallt setja þá hópa samfélagsins sem eru jaðarsettir í forgang í minni vinnu, hagsmunir þeirra hópa eru almannahagsmunir og þar með hagsmunir mínir. Þess vegna vil ég vinna fyrir þjóðina.