Katla Hólm Vilbergs- og Þórhildardóttir (Katla)

Ég heiti Katla Hólm og ég er 30 ára gömul. Ég er kynjalegur heimspekingur en ég kláraði B.A. próf í Háskóla Íslands vorið 2016 og viðbótardiplómu í Gagnrýnni hugsun og siðfræði í framhaldi af því. Sem stendur er ég í mastersnámi við Pólitíska og alþjóðlega siðfræði við Háskólann í Limerick á Írlandi. Ég er þó enn með lögheimili og annan fótinn í Reykjavík auk þess að vera varaþingkona Pírata í Reykjavík norður og tók ég sæti á þingi vorið 2017. Áður sat ég í Skóla og frístundaráði Reykjavíkur ásamt því að hafa verið varamanneskja í Velferðarráði.

Ég vil aftur bjóða fram krafta mína til Alþingis Íslendinga. Ég tel að reynsla mín á þingi sé dýrmæt og er spennt fyrir því að auka við hana samhliða því að berjast fyrir Píratatískum málefnum í hag almennings. Við Píratar erum sterk heild og ég hef mikla trú á því að við munum skipta sköpum fyrir framtíðina á Íslandi. Ég treysti mér til þess að taka þátt í hverju því sem koma skal.
Ef félagar mínir í Pírötum treysta mér einnig fyrir því mun ég að sjálfsögðu setja það í forgang og flytjast aftur til Íslands.

Ef áhugi er fyrir því að skoða mig og verk mín betur er má finna slóð á vefsíðu mína og fleira frá FB síðunni minni
https://www.facebook.com/femikat/

Spurningar frá kjördæmaráði:
1. Ef þú nærð kjöri til alþingis og seinna kæmi til ágreinings og aðstæðna þar sem þú segðir þig úr flokknum. Myndir þú segja af þér og víkja þingsætinu til varamanns eða starfa áfram sem óháður eða með öðrum flokkum?
-Ég lít svo á að umboð mitt komi fyrst frá Pírötum sem kjósa mig í prófkjöri og síðan frá landsmönnum á kjörstað. Ef þær ólíklegu aðstæður kæmu upp að ég teldi mig ekki geta unnið með þingflokki Pírata myndi ég því að sjálfsögðu segja af mér og víkja af þingi fyrir varamanneskju á listanum. Enn sem komið er er flokkakjör við lýði á Íslandi og því tel ég að við sem Píratar þurfum að virða það, þó svo að persónukjör sé langtímamarkmið okkar.

2. Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá?
-Já, án nokkurs vafa og af öllu hjarta er þetta ósk mín.

3. Hvaða stefnumál, úr samþykktum stefnum Pírata, þykja þér mikilvægust fyrir komandi kjörtímabil?
-Komandi kjörtímabil verður að snúast um að tryggja kjör landsfólks. Við verðum að ganga í róttækar umbætur á heilbrigðiskerfinu og grunnskólar landsins þurfa nauðsynlega athygli þannig að réttur allra barna til menntunar og velferð sé tryggður. En fyrst og fremst held ég að komandi stjórn þurfi að leggjast í umfangsmiklar, hraðar og róttækar aðgerðir með leigumarkaðinn á Íslandi. Ástandið er fyrir löngu orðið óviðunandi. Við Píratar eigum stefnur í öllum þessum málaflokkum.
Frelsi einstaklinga er okkur einstaklega hugleikið og til að tryggja frelsi fólks þarf að tryggja grunninn, þannig getur fólk leitast eftir sínu persónulega frelsi óttalaust.

4. Hvað telur þú að þú hafir til brunns að bera sem geri þig að góðum kosti til að gegna þingmennsku fyrir Pírata?
-Ég tel mig vera samvinnugóða manneskju og mikil liðskona. Það þýðir ekki að ég sé alger já-manneskja. Ég hef sterkar skoðanir og og er hvorki óskeikul né fullkomin mannvera. Ég legg mig fram við að hlusta á raddir annarra og sinna eigin vitundarþroska.
Að því sögðu þá er ég menntuð í heimspeki, kynjafræði, siðfræði og gagnrýni hugsun. Þessi menntun hefur þjálfað mig í lestri á flóknum textum til að skilja kjarnann frá hisminu sem og að sinna heimildarvinnu og nota hausinn til góðra verka. Ég hef reynslu af því að vinna í ráðum og starfshópum á vegum Reykjavíkurborgar og hef fengið smjörþefinn af vinnu á Alþingi. Ég er, líkt og fjölmargir frambjóðendur, hæf og tilbúin í þetta verk.

5. Með hvaða hætti telur þú líklegast að Píratar geti fengið sínum málum framgengt á þingi?
-Píratar þyrftu að komast í ríkisstjórnarsamstarf til að fá framgengt sínum helstu baráttumálum sem snúa að breytingum á kerfinu. Við höfum alltaf talað um það að stjórnsýslan þarfnast uppfærslu, við þurfum að færa almenningi tækin til að veita yfirvöldum aðhald og við þurfum að gera Alþingi að vinnustað þar sem ríkisstjórn hvers tíma getur ekki tekið geðþóttaákvarðanir án nokkurrar mótspyrnu.
Von mín er sú að það verði samstaða á milli flokka um stóru málin, landsfólki til bóta. Nú er tíminn fyrir alla flokka að standa við stóru orðin og sýna stefnur sínar í verki.
----------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------
Samfélagið okkar er líf mitt og yndi. Ég brenn fyrir réttlæti og sanngirni og kemur það að miklu leyti vegna minnar eigin reynslu. Ég þekki fátækt á eigin skinni, ég þekki ömurleika heilbrigðiskerfisins, viðbragðsleysi velferðarkerfisins þegar fólk í neyð á sér enga von og úrræðaleysi þeirra sem sjá ekki ljósið í enda ferðarinnar. Ég veit að sama hversu mikið fólk í forréttindastöðu talar um að í samfélaginu sé hagvöxtur og aukinn kaupmáttur verður það samt ekki sannleikur. Ég veit að fátækt fólk er ekki fátækt vegna leti, fátæktin er gildra sem er nánast ómögulegt að koma sér frá og ég veit að það þarf aðgerðir yfirvalda til að hjálpa fólki úr þeirri gildru.

Ég mun ávallt setja þá hópa samfélagsins sem eru jaðarsettir í forgang í minni vinnu, hagsmunir þeirra hópa eru almannahagsmunir og þar með hagsmunir mínir. Þess vegna vil ég vinna fyrir þjóðina.