Mínerva M. Haraldsdóttir (Minerva)

Ég er fædd í Reykjavík 2. júní 1955 og þetta er í annað skipti sem ég tek þátt í prófkjöri Pírata og þeir eru fyrsti stjórnmálaflokkur sem ég hef starfað með. Ástæðan er einfaldlega sú að ég get ekki meiri vanhæfni og spillingu og vil leggja mitt af mörkum til að stuðla að breytingum. Að starfa með Pírötum í grasrót eða á þingi er þjónusta við fólkið í landinu og mun ný stjórnarskrá tryggja aukið aðhald með kjörnum fulltrúum og auka lýðræðið, sem er í raun mjög takmarkað eins og er. Ný stjórnarskrá mun bæta stjórnkerfið og stjórnarhætti, fá auðlindir í þjóðareign og bæta lífskjör almennt í kjölfarið.

Ég hef stutt Pírata frá stofnun og þar á undan studdi ég Borgarahreyfinguna. Ég tók virkan þátt í búsáhaldabyltingunni, sem og í mótmælum og stjórnmálaumræðum á netmiðlum undanfarin ár. En nú vil ég bjóða fram krafta mína til að ná fram þessum grundvallarbreytingum til að efla lýðræðið í landinu og taka á rótgróinni spillingu í öllu stjórnkerfinu.

Ég rek Músíkstofu Mínervu, sem er tónlistarskóli og músíkmeðferðarstofa. Einnig starfa ég sem fósturmóðir á vegum Barnaverndar og félagsþjónustu höfuðborgarsvæðisins. Í gegnum tíðina hef ég unnið mest við tónlistarkennslu og skólastjórnun, en einnig í fiskvinnslu, við sjómennsku, skrifstofustörf, leiðsögumennsku og fleira. Ég tel að mín störf sem kennari og skólastjóri tónlistarskóla, sem og önnur fjölbreytt störf hafi þjálfað hæfni mína í mannlegum samskiptum og stjórnun, sem mun nýtast vel í starfi í þágu Píratanna, hvort sem er á þingi eða í stefnumótun og starfi í grasrót flokksins.

Mig langar að bæta því við hér, að ég óska eftir jákvæðri kosningabaráttu og við Píratar setjum fordæmi í því að leggja áherslu á okkar framtíðarsýn og lyftum okkur upp fyrir dægurþras og skotgrafir á netmiðlum og í fjölmiðlunum.

Mín hjartans mál eru bætt fjölskyldustefna, að taka á húsnæðismálum og að búa betur að unga fólkinu með því að taka á okurlánastefnu banka og lánasjóða. Mjög mikilvægt er að hlú betur að menntakerfinu og endurreisa heilbriðgiskerfið okkar og gera öldruðum og öryrkjum fært að lifa með reisn á sínum eftirlaunum og tryggingargreiðslum. Innviðir okkar hafa verið fjársveltir undanfarna áratugi vegna spillingar, skattaundanskota og tilrauna til að fjármálavæða þessa grunnþjónustu sem var áður fjármögnuð af okkar sameiginlega skattfé.

Stóriðjan er hluti af gamla Íslandi, þ.e. gróði örfárra á kostnað allra hinna og sú vinna höfðar ekki til unga fólksins í dag og álrisarnir hafa komist upp með að borga lítinn sem engan skatt til samfélagsins.

Atvinnutækifæri dagsins felast í nýsköpun, hugmyndavinnu, hugviti og listsköpun. Það er okkar stærsta auðlind.