Mínerva M. Haraldsdóttir (Minerva)

Ég er fædd í Reykjavík 2.júní 1955 og þetta er í fyrsta skipti sem ég býð mig fram til starfa fyrir stjórnmálaflokk. Ég lít á starf þingmanns sem þjónustu við fólkið í landinu og mun fylgja stefnumálum Píratanna, sem m.a. setur nýju stjórnarskrána sem forgangsmál til að bæta stjórnkerfið og stjórnarhætti, fá auðlindir í þjóðareign og bæta lífskjör almennt í kjölfarið.

Ég á 3 börn og 4 barnabörn, er enhleyp og bý með 16 ára fósturdóttur minni. Ég hef starfað við margvísleg störf til sjós og lands, en lengst af hef ég verið tónlistarkennari og á árunum 2010-2015 var ég músíkmeðferðarnámi við Álaborgarháskóla og hef unnið við að kenna börnum með sérþarfir undanfarið ár hjá Tónstofu Valgerðar.

Ég hef stutt Pírata frá stofnun og þar á undan studdi ég Borgarahreyfinguna. Ég tók virkan þátt í búsáhaldabyltingunni, sem og í mótmælum og stjórnmálaumræðum á netmiðlum undanfarin ár. En nú vil ég bjóða fram krafta mína til að ná fram þessum grundvallarbreytingum til að efla lýðræðið í landinu og taka á rótgróinni spillingu í öllu stjórnkerfinu.

Ég tel að mín störf sem kennari og skólastjóri tónlistarskóla hafi reynt mjög á og þjálfað hæfni mína í mannlegum samskiptum og stjórnun, sem mun nýtast vel í starfi í þágu Píratanna, hvort sem er á þingi eða í stefnumótun og starfi innan flokksins.

Mig langar að bæta því við hér, að ég óska eftir jákvæðri kosningabaráttu og við Píratar setjum fordæmi í því að leggja áherslu á okkar framtíðarsýn og lyftum okkur upp fyrir dægurþras og skotgrafir á netmiðlum og í fjölmiðlunum. Mín hjartans mál eru bætt fjölskyldustefna og að búa betur að unga fólkinu með því að taka á okur-áþján banka og lánasjóða, gera öldruðum, öryrkjum og veikum fært að lifa með reisn á sínum eftirlaunum og tryggingargreiðslum. Stóriðjan er hluti af gamla Íslandi, þ.e. gróði örfárra á kosnað allra hinna og sú vinna höfðar ekki til unga fólksins í dag. Atvinnutækifæri dagsins felast í nýsköpun, hugmyndavinnu, hugviti og listsköpun. Það er okkar stærsta auðlind.