Olga Cilia (OlgaCilia)

Ég heiti Olga Margrét Cilia og skipa 4. sæti í Reykjavík Suður. Ég varð þrítug í febrúar og á ættir að rekja til Vestfjarða, Borgarfjarðr og Möltu.

Ég ólst upp í Laugarnesinu; sleit barnaskónum á Ásborg, hélt þaðan í Laugarnesskóla og útskrifaðist loks úr Laugalækjarskóla. Hið fastmótaða skólakerfi hentaði mér ágætlega og gekk því skólagangan snurðulaust fyrir sig. Árið 2006 útskrifaðist ég úr Menntaskólanum við Hamrahlíð.

Ég er menntaður bókmenntafræðingur og lauk BA gráðu í lögfræði nú í vor.
Ég hef þó nokkuð víðtæka reynslu af vinnumarkaðnum. Ég hef unnið sem leikskólaliði, landamæravörður, kaffibarþjónn, bókavörður, þýðandi, yfirlesari og í sumar starfa ég við rannsóknir á íslensku lagamáli.

Ég gekk í Pírata af því að grunnstefnan, að taka upplýstar ákvarðanir hverju sinni byggðar á fyrirliggjandi gögnum og gagnrýnni hugsun, heillaði mig. Ég tel að sú hugmyndafræði komi til með að gagnast almenningi best. Þetta á ekki að vera keppni um hvort er betra; hægri eða vinstri. Samfélög blómstra ef stöðugleiki er til staðar, en það er einnig mikilvægt að geta aðlagað sig að breyttum aðstæðum. Ég reyni að sjá mál frá öllum hliðum og taka skynsamar ákvarðanir. Grunnstefnan hefur og mun vera leiðarljós mitt í störfum mínum fyrir Pírata.

Ég er hlynnt forræðishyggju á einhverjum sviðum, þó að ég telji að einstaklingurinn eigi að fá að gera það sem hann vill, svo lengi sem hann gerir ekki á hlut annarra. Ég er hlynnt einkavæðingu á tilteknum sviðum, en tel að ríkið eigi alltaf að tryggja jafnan aðgang að grunnstoðum velferðarkerfisins. Ég lít ekki á það sem skoðanaleysi, heldur frekar vilja til þess að líta á mál frá öllum hliðum áður en tekin er ákvörðun um útfærsluatriði. Ég tel þó allra mikilvægast að tryggja upplýsta umræðu og lýðræðisleg vinnubrögð í stjórnsýslunni.

Stjórnsýslan nær inn á öll málefnasvið. Bætt stjórnsýsla er því eitt af aðaláherslumálum mínum. Það felur meðal annars í sér að bæta eftirlit, bera virðingu fyrir vanhæfisreglum stjórnsýslunnar, tryggja faglega ábyrgð starfsmanna og auka fræðslu um borgaraleg réttindi. Auk þess langar mig að einbeita mér að því að betrumbæta mennta- og umhverfismál.

Ég sat í stjórn Málfundafélags Pírata árið 2015, var meðlimur framkvæmdaráðs 2015-2016 og sit nú í Úrskurðarnefnd.

Frekari upplýsingar um mig má finna á heimasíðunni minni: olgacilia.is