Olga Margrét Cilia (OlgaCilia)

--------- Um mig -----------

Ég er bókmenntafræðingur að mennt og með BA gráðu í lögfræði. Ég vinn nú að því að klára MA gráðu í lögfræði frá Háskóla Íslands. Ég skrifaði BA ritgerð mína á sviði stjórnsýsluréttar þar sem ég fjallaði um Lekamál Hönun Birnu út frá yfirstjórnunar- og eftirlitsheimildum ráðherra. Áhugi minn í lögfræði liggur innan stjórnsýsluréttar og mannréttinda. Ég hef unnið ýmis konar störf í gegnum tíðina, meðal annars sem kaffibarþjónn, leikskólaliði, bókavörður og landamæravörður. Síðustu tvö sumur hef ég unnið að rannsókn á skilningi almennings á íslensku lagamáli. Það er ljóst að lögin og kerfin okkar eru ekki aðgengileg almenningi og komist ég inn á þing mun ég beita mér fyrir því að gera kerfin skiljanlegri og aðgengilegri.

Nánari upplýsingar um mig má nálgast á olgacilia.is

Nýlegir pistlar eftir mig

http://www.visir.is/g/2017170928928/verdi-ljos
https://olgacilia.is/2017/09/23/kthbavd/
https://stundin.is/grein/5499/med-abyrgd-skal-land-byggja/


----- Framboðsyfirlýsing ----

Elsku Píratar!

Ég tilkynni hér með framboð mitt í prófkjöri Pírata á höfuðborgarsvæðinu og sækist eftir 1. – 3. sæti. Ég gekk í Pírata því ég trúi á að gagnsæi í stjórnsýslunni og að óheftur aðgangur að upplýsingum muni bæta ákvarðanatöku við lagasetningu. Við verðum að taka valdið frá hagsmunaaðilum og færa það til almennings.

Ég er Pírati því að ég er fyrir löngu búin að fá nóg af spillingu og vanhæfi innan stjórnkerfisins. Meinbugir þess koma í veg fyrir að Íslendingar geti notið gæða landsins til heilla fyrir land og þjóð. Auðlindum er misskipt og sprettur misskiptingin upp úr lagasetningu á Alþingi sem almenningur fær aldrei að hafa nokkra aðkomu að fyrr en það er orðið of seint. Ákvarðanir eru teknar sem varða landsmenn alla algjörlega án aðkomu þeirra og áður en við vitum af er sprottin upp mengandi stóriðja í hverjum kima og fjármunir færast í auknu mæli frá hinum efnaminni til þeirra efnameiri. Grunnurinn að misskiptingunni liggur í spilltu kerfi sem hefur fengið að viðgangast hér alltof lengi. Þessu vil ég eiga þátt í að breyta í þágu okkar allra.

Ég hef nú þegar víðtæka reynslu af starfi með Pírötum. Ég gekk í félagið 2015 og var kosin í framkvæmdaráð Pírata sama ár. Ég hef tekið virkan þátt í innra starfi flokksins. Ég sat í úrskurðarnefnd, hef skipulagt marga viðburði, er varaþingkona í Reykjavíkurkjördæmi Suður og var nýlega kosin formaður í stjórn Pírata í Reykjavík. Auk þess var ég einn fjögurra einstaklinga sem voru skipuð í kosningastjórn Pírata fyrir síðustu Alþingiskosningar.

Við göngum ekki bara til kosninga nú vegna nýlegs hneykslis varðandi uppreist æru barnaníðinga. Við göngum til kosninga vegna landlægrar spillingar sem við viljum ekki lengur að taka þátt í. Mig langar að þjóna ykkur og þjóðinni allri á Alþingi. Við Píratar höfum sýnt að við getum, með aðstoð kjósenda, upplýst spillinguna og upprætt hana.

--------- Svör við spurningum frá kjördæmisráði ----------

1. Ef þú nærð kjöri til alþingis og seinna kæmi til ágreinings og aðstæðna þar sem þú segðir þig úr flokknum. Myndir þú segja af þér og víkja þingsætinu til varamanns eða starfa áfram sem óháður eða með öðrum flokkum?

Ég myndi víkja þingsæti mínu til varamanns. Ef ég næ kjöri þá er ég þar í umboði Pírata. Fyrir mér snýst þetta um að koma hugsjónum Pírata á framfæri.

2. Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá?

Já. Ég tel að ný stjórnarskrá sé fyrsta skrefið af mörgum til þess að tryggja sátt í samfélaginu. Á henni er svo hægt að byggja mikið af þeim breytingum sem Píratar vilja ná fram innan stjórnkerfisins.

3. Hvaða stefnumál, úr samþykktum stefnum Pírata, þykja þér mikilvægust fyrir komandi kjörtímabil?

Ég hef alltaf og mun alltaf vinna eftir grunnstefnu Pírata. Fyrir mér er hún grunnurinn að öllum stefnumálum Pírata. Fyrir mér skiptir gagnsæi og ábyrgð mestu máli og munu vera mikilvæg í framtíðinni ef við ætlum að uppræta spillingu. Spilling á erfitt með að þrífast ef forsendur ákvarðanatöku eru aðgengilegar almenning. Eins og segir um þennan lið í Grunnstefnunni: "Gagnsæi snýst um að opna hina valdameiri gagnvart eftirliti hinna valdaminni."

Þar fyrir utan finnst mér mikilvægt að leggja áherslu á umhverfismál. Við getum ekki beðið lengur með að verða leiðandi afl í umhverfisvernd á heimsvísu. Píratar eiga margar góðar stefnur er varða umhverfismál. Ég myndi vilja leggja áherslu á það inni á Alþingi að mynduð verður heildstæð stefna í umhverfismálum á Íslandi. Almenningur þarf að fá betri aðkomu að ákvarðanatöku sem hefur áhrif á náttúruna og það þarf að virkja eftirlitsstofnanir þannig að þegar vankantar á stóriðju koma í ljós að unnt er að grípa til virkra réttarúrræða.

4. Hvað telur þú að þú hafir til brunns að bera sem geri þig að góðum kosti til að gegna þingmennsku fyrir Pírata?

Ég er mjög góð í að miðla málum og fá ólíkt fólk til að vinna saman. Ég hef mikinn áhuga á því að bæta kerfin okkar og brenn fyrir því að auka lífsgæði Íslendinga. Ég er menntuð í lögfræði og það nám mun nýtast mér mjög vel inni á Alþingi. Ég er skipulögð, hef mikla reynslu af vinnumarkaðanum og er vön að vinna sjálfstætt og í hóp. Auk þess hef ég mikla reynslu af því að vinna með alls konar fólki úr Pírötum og hefur það skilað mjög góðu.