Sara E. Þórðardóttir Oskarsson (SaraOskarsson)

Ég heiti Sara Þórðardóttir Oskarsson og 35 ára. Ég bjó í Bretlandi í 16 ár og kláraði háskólagráðu frá Edinburgh College of Art árið 2012. Ég er formaður Pírata á Seltjarnarnesi og vara-formaður Pírata í Suðvesturkjördæmi.

Ég hef verið meðstjórnandi Strandhöggs, sjónvarpsþáttar Pírata á Íslandi, frá upphafi þáttanna sem nú telja um 20 talsins. Ég er formaður Jæja, og Jæja-síðunnar sem hefur verið starfrækt síðan í nóvember 2014. Ég hef tekið þátt í
skipulagningu fjölmargra mótmæla, sem hafa flest verið vel sótt. Ég var meðal þeirra sem skipulagði, og hélt ræðu, á mótmælunum á Austurvelli þann 4. apríl síðastliðinn. Þau voru stærstu mótmæli Íslandssögunnar, og talið er að 23.þús manns hafi mætt niður á Austurvöll þann dag.

Ég starfaði í forsetaframboði Andra Snæs Magnasonar sem veitti mér gríðarmikla innsýn inn í álag og verklag slíkrar stjórnmálavinnu. Ég var einnig umboðsmaður forsetaframboðs Andra Snæs í Reykjavík norður.

Ég fékk brennandi áhuga á stjórnmálum eftir að hafa flutt aftur til Íslands árið 2012, og sá um leið að Píratar var flokkurinn fyrir mig, og að hann hafði fólk innanborðs sem hafði raunverulegan áhuga, og nógu sterka sannfæringu, til þess að geta breytt úrsérgengna, spillta og sérhagsmuna stjórnmálaumhverfinu sem að þjóðin hefur þurft að búa við í áratugi. Píratar hafa alla burði í að takast það sem að ekki nokkrum einasta flokki hefur tekist áður: að koma á raunverulegu, beinu og heilbrigðu lýðræði.

Mín helstu áhersluatriði eru nýja stjórnarskráin og það að heilbrigðiskerfi Íslendinga verði gjaldfrjálst, aðgengilegt og framúrskarandi á öllum sviðum læknisfræðinnar. Það liggur gríðarlega mikið á að ljúka við byggingu nýs spítala sem hefur staðið á hakanum í um 20 ár. Ég á auðvelt með að framkvæma hluti og á auðvelt með, og er vön því, að vinna með öðrum, jafnvel við erfiðar og álagsmiklar aðstæður og á auðvelt með að taka gagnrýni. Yrði ég kjörinn á þing myndi ég halda áfram að leggja mig fram af fullum hug og heilu hjarta við uppbyggingu lýðræðis, heilbrigðis og beinni þátttöku almennings í ákvörðunum er hann varðar.

Mikilvægt finnst mér einnig að þingmenn séu aðgengilegir fólkinu sem veitti þeim umboð, og myndi ég leggja mikla áherslu á það að gjáin milli þings og
þjóðar verði að engu, og mér fyndist eðlilegast að fólki fyndist það geta nálgast þingmanninn sinn til þess td. að ræða málefni þingsins, eins og hvern
annan einstakling í þjóðfélaginu. Yarr!