Svafar Helgason (Svafar)

Ég veit ekki hvort ég sé einn um það að finnast svona framboðsyfirlýsingar vera erfiðari en að draga úr tönn, sem er að visu bara myndliking, ég hef aldrei dregið tönn, já... allavega ég þarf víst að koma mér að einhverju efnislegu um mig.

Ég er 34 ára gamall. Ég er í HR á frumgreinabraut og er að sækja mér stúdentsprófð núna í vor. Meðfram því vinn ég hlutastarf á búsetukjarna fyrir fötluð ungmenni. Ég bý í vesturbænum með kærustu minni og sonum hennar sem mér fnnst ég þó eignast alltaf aðeins meiri hlutdeild í með tímanum. Það er búið að vera spennandi og krefjandi verkefni sem hefur þó lítið með borgarmáln að gera þannig að ég eyði ekki fleiri orðum í það.

Á líðandi kjörtimabili hef ég gengt hlutverk formanns hverfisráðs miðborgar og gengt sæti varamanns í umhverfis og skipulagsráði. Mér hefur fundist meirihlutasamstarfið að mestu gengið vel þó alltaf megi finna eitthvað til að bæta. Þetta hefur verið ótrúleg reynsla að vinna með svona góðum hópi og á heildina litið er ég ánægður með niðurstöðuna.

Ég hef verið í Pírötum frá stofnun félagsins og það hefur verið mér mikilsvert að taka þátt og fylgjast með. Í gegnum skin og skúrir hefur maður séð getu og hæfleika fólks og hreyfingarinnar i heild þroskast og dafna. Ég trúi því að við Píratar getum fært stjórnmálin til betra horfs, að við getum eflt borgararéttindi, opnað aðgengi að upplýsingum og valdeflt borgara, að við getum bætt vinnubrögð og gengið fram með góðu fordæmi um þá hegðun sem við eigum að búast við í stjórnmálum. Ég trúi því að við getum sett heilbrigð viðmið um hvernig opin og fagleg stjórnmál eiga að vinnast og fært okkur í þá átt sem Reykvíkingar og aðrir Íslendingar eiga skilið. Ég hef orðið vitni að slíkum heilindum og atorku hjá bæði samstarfspírötum í borginni sem og fólkinu í þingflokknum að það verður ómögulegt að vilja ekki taka þátt í þessum breytingum og leggja þeim lið hvernig sem ég get.