Svafar Helgason (Svafar)

Ágætu Píratar!

Svafar heiti ég og gef kost á mér í prófkjöri Pírata á höfuðborgarsvæðinu. Ég er 33 ára og menntaður í grafískri miðlun. Ég hef starfað við ýmislegt í gegnum tíðina, svo sem við verslunarstörf, í fiskvinnslu, upplýsingaþjónustu og umbrotsvinnu. Nú starfa ég sem vakthafandi verslunarstjóri hjá Hagkaup.

Ég hef tekið þátt í starfi Pírata frá upphafi, tók þátt í spennandi starfi við stofnun flokksins, vann að uppbygingu og með öðrum tók þátt í að móta grunnstefnuna og lög Pírata.

Ég tel mína helstu kosti þá að ég ögra fastmótuðum hugsanagangi og hef ríka þörf til að skoða mál frá öllum hliðum og taka síðan upplýsta afstöðu. Ég er góður mannþekkjari, skapandi og lausnamiðaður. Ég er sjálfstæður í hugsun og sannfæringu en leyfi mér hiklaust að játa þegar ég hef rangt fyrir mér og skipti hikstalaust um skoðun þegar rök annarra duga betur en mín eigin.

Ég býð mig fram til þings vegna þess að ég tel mig eiga erindi í stjórnmál. Fjórtán ára var ég sendur á unglingaheimili og fékk að kynnast því hvernig er að alast upp innan velferðarkerfisins. Sú reynsla hefur gefið mér sterka sýn á hvað má betur fara innan þeirrar vélar. Málefni bóta- og lífeyrisþega eru mér afar hugleikin og þar má og þarf að bæta úr miklu.

Samgöngumál, einkum almenningssamgöngur, eru annað mál sem ég brenn fyrir. Almenningssamgöngur eru mikilvægur samfélagslegur þáttur og búa þarf þannig um hnúta að þær séu aðgengilegri og þjóni betur þeim hópi sem treystir á þær í sínu daglega lífi og starfi.

Ég mun leggja áherslu á að standa vörð um tjáningarfrelsið og vinna að því að losa okkur við refsingar gegn fáfróðum eða jafnvel hatursfullum ummælum. Það getur aldrei verið til bóta í okkar samfélagi að grafa vandann eða koma þeirri hugmynd inn hjá fólki með lélegan málstað að það þori ekki að beita sínum sínum rökum í umræðu.

Stjórnarskrármálið og krafan um nýja og endurbætta stjórnarskrá verður að teljast það mál sem ég set í fyrsta sætið. Það er einu orði sagt galið að þjóðin geti ekki gripið inn í hættulega og eyðileggjandi löggjöf. Því miður hafa stjórnmálin of oft einkennst að vinagreiðum og einkavinavæðingu og það verða að vera ráð til að koma í veg fyrir slíkt.

Stefna Pírata í sjávúrtvegsmálum hugnast mér vel og er að mínu mati stórt skref til að draga úr því mikla óréttlæti sem þjóðin hefur mátt búa við í þessum málaflokki. Ég mun leggja mig allan fram um að ná fram breytingum á ríkjandi fiskveiðistefnum með það að markmiði að tryggja að þjóðin fái sína sanngjörnu rentu af auðlindinni.

Hagsmunatengsl hef ég gott sem engin. Jú, ég vil auvitað fjölskyldu minni og vinum allt hið besta. Ég hef hins vegar ekki nein viðskiptaleg eða pólítísk tengsl sem mér kemur í hug að ég ætti að taka fram, en þó svo væri þá myndi ég ekki leyfa vinum eða vandamönnum að njóta góðs af pólitískri ábyrgð minni. Ég sit í nefndum fyrir hönd Pírata og hef einnig átt sæti í stjórnum innan flokksins.

Innan Pírata hef ég verið með nokkra hatta á höfðinu. Ég er stofnfélagi hreyfingarinnar og sat í fyrstu tveimur framkvæmdaráðunum. Ég gegndi starfi kynningarstjóra í kosningunum árið 2013 og annaðist meðal annars umbúnað kynningarefnis, samfélagsmiðlaherferð og ýmislegt annað. Að loknum kosningum til borgarstjórnar var mér treyst til gegna formennsku í hverfisráði miðborgar og þá hef ég verið varamaður í umhverfis- og skipulagsráði en hvort tveggja hefur verið skemmtileg reynsla og lærdómsrík.

Ég sækist eftir þingsæti og bið ykkur að íhuga vel að setja mig hátt á lista í komandi prófkjöri.