Dóra Björt Guðjónsdóttir (dorabjort)

Góðu vinir. Ég býð mig fram í 1. sæti Pírata í Reykjavík.

Við Píratar hugsum ekki bara um hvaða ákvarðanir eru teknar, heldur hvernig. Það hefur sýnt sig að það vantar meira samráð við hagsmunasamtök og einstaklinga í ákvörðunum sem teknar eru í borginni. Ein af grunnstoðum lýðræðisins er sjálfsákvörðunarréttur einstaklingsins. Það þarf sérstaklega að huga að þessu í auknum mæli hvað varðar málefni fatlaðs fólks og innflytjenda, sem og annarra minnihlutahópa. Hlustum fyrst og gerum svo. Samráð skal haft á öllum stigum vinnunnar og ekki vera einhverskonar “tikka í box” samráð rétt fyrir stimplun þegar það er of seint að skipta um kúrs. Án nægs samráðs eru verri ákvarðanir teknar, peningar ekki nægilega vel nýttir og fleiri mistök gerð.

Við verðum líka að standa vörð um lýðræðið í borginni. Hugmyndir hafa verið viðraðar af ónefndum öðrum flokkum að skera niður lýðræðisstofnanir borgarinnar, fækka borgarfulltrúum og vinnuhópum. Hér komum við aftur að samráðinu og hvernig aukið lýðræði og valddreifing bætir lífsgæði allra. Á 9000 manna vinnustað er það heilbrigð skynsemi og góð stjórnun að hafa vinnuhópa og furðulegt getur talist að vilja skera niður vinnuhópa án allrar efnislegrar gagnrýni. Allt of lengi hefur verið lýðræðishalli milli fjölda fulltrúa og fjölda borgarbúa. Meiri snertiflötur milli borgaranna og fulltrúa og þar með aukið lýðræði mun að endingu koma öllum vel. Píratar hafa styrkt beint lýðræði í borginni á kjörtímabilinu með verkefnum eins og Hverfið mitt og Betri Reykjavík. Þetta þarf að styðja við og þróa enn frekar til að borgarar geti haft enn meiri bein áhrif.

Krafan um sjálfsákvörðunarrétt og samráð gengur hönd í hönd með okkar frjálslyndi sem snýst um að einstaklingar eru frjálsir svo lengi sem frelsi þeirra skaðar ekki aðra. Margt gott hefur verið gert í borginni en þó hefur forræðishyggja og íhaldssemi fengið að ráða á of mörgum vettvangi. Ákvarðanir skulu byggðar á gögnum, ekki fordómum. Krefjumst þess að svo megi verða. Reglur um gæladýraeign í borginni er dæmi. Skólakerfið annað. Búum til rými fyrir kennara til að ná fyrirframskilgreindum markmiðum með frjóum og mismunandi leiðum. Hvetjum til frumkvæðis og sköpunar sem mun gefa okkur ánægðari nemendur, kennara og betri gæði náms. Búum líka til rými fyrir nemendur að vera mismunandi og styðjum við einstaklingsmiðað nám. Styðjum við styttingu vinnuvikunnar allsstaðar til að koma í veg fyrir að starfsfólk brenni út.

Að auki vil ég tala um mikilvægi réttarríkishugsjónarinnar í borgarsamfélaginu. Það er ólíðandi að einstaklingar þurfi að segja borginni hver þeirra réttindi eru. Það á að vera borgin sem upplýsir borgara um þeirra réttindi og þjónustu sem stendur til boða og þessu er verulega ábótavant, sérstaklega hjá innflytjendum og fötluðu fólki. Þetta snýst um aðgengi allra að lýðræðissamfélaginu okkar, bæði á praktískan hátt og hvað varðar aðgengi að upplýsingum. Til þess að svo megi verða þarf að auka enn frekar gagnsæi og upplýsingaflæði og halda áfram því frábæra starfi sem Píratar hafa unnið á kjörtímabilinu við opnun stjórnssýslunnar með opnu bókhaldi og rafrænni Reykjavík. Einnig þarf að fylgja því eftir að stefnur, reglur og lög hafi raunverulegar afleiðingar og séu ekki bara falleg orð á pappír í skúffu. Án þess er ómögulegt fyrir lýðræðisborgarann að vita hverjar skyldur hans og réttindi eru.

Síðast en ekki síst: Borgarskipulag! Við erum öll í sama liðinu. Hin meinta barátta á milli einkabílsins og Borgarlínu er mýta. Eins mikilvægt og það er að gamlar ákvarðanir sæti endurskoðun í ljósi nýrra upplýsinga er mikilvægt og róttækt að standa með faglegum langtímaplönum. Borgarlínan er hluti af heildarskipulagi sem mun færa þessa borg mörg skref í þá átt sem við nú stefnum, í átt að nútímalegu og lifandi borgarsamfélagi úr gamaldags bílaborg. Þorum að standa með framtíðinni, betra umhverfi og betri heilsu borgaranna. Þorum að gefa borgarbúum raunverulegt val í ferðamáta. Með því að stuðla að góðu borgarsamfélagi þar sem stóra einbýlishúsið og bíllinn eru ekki nauðsynlega eina rót hamingjunnar styðjum við einnig við heimkomu ungs fólks eftir nám erlendis og stöndum betur að vígi í samkeppni við nágrannastórborgir um hylli almennings.

Hér eru nýlegar greinar eftir mig:
https://stundin.is/blogg/dora/viltu-metropolitan-menningarborg/
https://stundin.is/blogg/dora/viurkenndu-mistok-in-og-haltu-afram/
https://stundin.is/blogg/dora/vi-erum-ekki-oll-jofn-fyrir-logum-vi-miur/


Aðeins um mig:
Ég er alin upp í Elliðaárdal í Reykjavík en flutti utan til að mennta mig og bjó í Noregi og svo Þýskalandi og flutti heim til að slást í för með Pírötum eftir sjö ára búsetu erlendis þar sem ég var búin að læra með glöggu gests auga hvað mætti betur fara hér á landi. Árið 2017 var ég í um hálft ár í vinnu fyrir Evrópuþingmann Pírata, Julia Reda, sem samskiptastarfsnemi. Ég er fyrrverandi formaður Ungra Pírata og formaður nýstofnaðs Femínistafélags Pírata. Ég tók mjög virkan þátt í kosningabaráttunum 2016 og 2017 og tel mig hafa ýmsa reynslu sem myndi nýtast vel í komandi kosningabaráttu eins og reynslu mína af fjölmiðlatengslum, kosningapallborðum og -fundum svo og reynslu af skipulagsvinnu og viðburðarframkvæmdavinnu fyrir Pírata. Ég er menntuð í heimspeki og alþjóðafræðum og stunda nú meistaranám í alþjóðasamskiptum við Háskóla Íslands. Samhliða námi vinn ég sem aðstoðarkona fyrir fatlaðan mann.

Takk fyrir lesturinn,
Dóra Björt

Þið getið fylgst með mér og þeim málum sem ég berst fyrir á samfélagsmiðlum:
Facebook/Twitter/Instagram: @dorabjort
Snapchat: @dora_bjort