Dóra Björt Guðjónsdóttir (dorabjort)

Ég býð mig fram í prófkjöri Pírata í Suðvesturkjördæmi fyrir komandi Alþingiskosningar og sækist eftir 1. - 3. sæti.

Hér er kynningarmyndband mitt með glefsum úr Píratalífinu: https://youtu.be/DKlLBp3VZzE

Um mig:

Síðastliðið ár var ég formaður Ungra Pírata. Á þessu ári hefur mér og góðri stjórn tekist að byggja upp félagið og gera það að einni sýnilegustu ungliðahreyfingu landsins. Upp úr síðustu áramótum gerðist ég starfsnemi á Evrópuþinginu í Brussel í Belgíu hjá Evrópuþingmanni Pírata, Julia Reda. Í fyrra flutti ég heim til Íslands til að taka þátt í Pírötum eftir sjö ára veru í Noregi og Þýskalandi við menntun og störf.

Í Noregi stofnaði ég Femínistafélag Oslóarstúdentanna og starfaði sem framkvæmdastjóri Stúdentaþings Oslóarháskóla.

Undanfarin ár hef ég fengið töluverða reynslu af því að koma fram í útvarpi, sjónvarpi, á ráðstefnum, viðburðum og í pallborðum ýmis konar. Einnig hafa samskipti mín við fjölmiðla verið mikil og hef ég oft verið fengin í blaðaviðtöl, sérstaklega við norska fjölmiðla. Ég þekki vel inn á PR- og samskiptamál eftir vinnu mína á Evrópuþinginu, Stúdentaþingi Oslóarháskóla og áralanga reynslu af félagsstörfum. Ég leiddi PR- og samskiptavinnuna á aðalfundi Pírata í ár og hef reglulega verið óháður fundarstjóri á fundum framkvæmdaráðs Pírata.

Ég er með BA bæði í heimspeki og alþjóðafræði frá Noregi og Þýskalandi og nem nú alþjóðasamskipti á meistarastigi við Háskóla Íslands. Ég tala norsku og ensku reiprennandi, skil dönsku og sænsku og tala einnig sæmilega þýsku.

Mínar áherslur:

Eftir langa dvöl í löndum þar sem lýðræðið er mun fullkomnara en á Íslandi sá ég spillinguna og lýðræðisgallana sem koma í veg fyrir samfélagslegar betrumbætur. Alþingi er veikt, ríkisstjórnin nærri allsráðandi og í landi þar sem flokkur elítunnar situr nánast í hverri einustu ríkisstjórn er það sérlega stórt vandamál. Þrískipting valdsins er punthugtak á Íslandi sem á sér litla stoð í raunveruleikanum. Afleiðing þessa er að menntakerfið fær að grotna, sem og heilbrigðiskerfið. Fjölmiðlafrelsið er gríðarlega skert af fjársterkum eigendum og yfirvöldum sem hóta niðurskurði ef fjölmiðlafólk lætur ekki af gagnrýni sinni. Þar með eru tennurnar dregnar úr lýðræðislegum aðhaldstækjum.

Mín sýn er að lýðræðislega kjörnir fulltrúar eigi að opna glugga inn til valdsins, styrkja stöðu borgaranna í samfélaginu og möguleika þeirra til að fylgjast með og hafa áhrif á stöðu samfélagsmála.

Ég hlakka til komandi kosningabaráttu. Gerum þetta saman.

Facebook/Twitter/Instagram: @dorabjort
Snapchat: @dora_bjort
Bloggið mitt á Stundinni: www.stundin.is/blogg/dora/


Frambjóðendur eru beðnir um að svara eftirfarandi spurningum:

1. Ef þú nærð kjöri til alþingis og seinna kæmi til ágreinings og aðstæðna þar sem þú segðir þig úr flokknum. Myndir þú segja af þér og víkja þingsætinu til varamanns eða starfa áfram sem óháður eða með öðrum flokkum?

Í mínum augum á flokkurinn þingsætið, og því myndi ég segja af mér.

2. Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá?

Já.

3. Hvaða stefnumál, úr samþykktum stefnum Pírata, þykja þér mikilvægust fyrir komandi kjörtímabil?

Ný stjórnarskrá. Hún myndi leggja grunninn að mörgum góðum breytingum í samfélaginu, meðal annars með valdeflingu þings og þjóðar og meira réttlæti í atvinnuvegamálum í landinu.

4. Hvað telur þú að þú hafir til brunns að bera sem geri þig að góðum kosti til að gegna þingmennsku fyrir Pírata?

Ég hef gríðarlega sterka réttlætiskennd og menntun mín hefur gert mig að góðum gagnarýni. Næm er ég á tilfinningar fólks og það kemur sér rosalega vel við að leysa deilur og halda hitanum niðri þegar átök verða. Ég hef einnig áralanga reynslu af félagsmálum sem hefur fært mér reynslu í samvinnu, skipulagi, PR- og samskiptamálum og framkomu sem ég tel að myndi nýtast mér afar vel. Ég hef hlotið töluverða reynslu af því að koma fram í fjölmiðlum og á viðburðum og góða aðlögunarhæfileika eftir að hafa búið í fjórum mismunandi löndum. Einnig tel ég mig hafa góð tengsl við alþjóðlega hreyfingu Pírata eftir að hafa unnið hjá Evrópuþingmanni Pírata og evrópskum Pírötum á Evrópuþinginu í Brussel.