Hákon Helgi Leifsson (hakon78)

Ég ætla mér að vera lélegur stjórnmálamaður, sú afstaða krefst skýringa þannig að endilega lesið áfram. En ég tel að þau gildi sem við mælum gæði stjórnmálamanna á, einfaldlega röng.

Að mínu mati eru núverandi gildi hins „öfluga“ stjórnmálamanns, einstaklingur sem góður er að víkja sér frá umræðu, góður að svara engu og frábær kenna öðrum um. Þetta eru gildi sem við öllu jafna forðumst í náunganum og gildi sem eru í raun andstaða við það sem ég stend fyrir.

Ég ætla mér hinsvegar að vera góður þingmaður, góður Pírati og góður málsvari grunnstefnunnar, hugsjónum okkar og almennings, fái ég traust til. Ég gef hér með drengskaparheit þess efnis að grasrót Pírata er álitsgjafinn og skuldbind sjálfan mig að fara eftir óskum hennar, ella segja af mér þingmennsku.

Sem alþingismaður væri mitt helsta verkefni að dreifa valdi tilbaka. Vald brenglar og á að vera í höndum sem flestra. En ekki, eins og raunin er, þjappað á hendur fárra. Út frá þessu er ykkur óhætt að álykta að ég er mikill stuðningsmaður nýju stjórnarskrárinnar. En ég tel ekkert mikilvægara fyrir framtíð landsins en innleiðing hennar.

Ég er mikill áhugamaður um rökræður, þá sérstaklega m.t.t. rökstuðnings og rökvillna. En að eigin mati er ég afskaplega góður í að sjá misferli og rökleysu í málflutning annarra. Þessu tengt, þá heiti ég, fái ég ykkar stuðning að kenna aldrei öðrum mönnum, flokkum eða ríkisstjórnum um eigin afglöp.

Ég hef unnið í þjónustu og sölu í 20 ár og lít á þingmennsku með þeim augum. Á mínum ferli hef ég tileinkað mér eitt gildi framar öllum öðrum. Það er að gera sér grein fyrir því að það er ekki fyrirtækið sem greiðir launin, heldur viðskiptavinurinn. Þetta sjónarmið má leikandi færa yfir í stjórnmálinn.
Í stað viðskiptavinar, þá er það almenningur og grasrót.

Þingmenn skuldbinda sig til að vinna fyrir hagsmunum almennings, en það sjónarmið virðist hafa sárlega vantað undanfarna áratugi að mínu mati.

Ég er með ADHD. Í raun tel ég það vera einn af mínum helstu kostum. Vissulega eru gallar, en ég á afskaplega auðvelt með að setja mig í spor annarra, skoða málefni frá öllum hliðum og finna lausnir sem aðrir mögulega ekki sjá.

Þetta tel ég vera mjög góðir eiginleikar sem fullt erindi eiga á alþingi. Eins á ég erfitt með að ljúga, en að mínu mati ætti góður stjórnmálamaður aldrei að hafa ástæðu til þess. Þessi vangeta mín á sviði lyginnar fer langt með að tryggja heiðarleika. Ég brenn fyrir því að fá tækifæri til þess að sýna hvað í mér býr. Ég tel mig geta verið mér, ykkur, almenningi og þá sérstaklega annarra með ADHD til sóma.

Því ef ég get, þá geta aðrir með ADHD einnig.

Mér þætti vænt um sæti ofarlega á lista, (1-5.sæti) en ég mun una hverju því sæti sem mér hlotnast og styðja við endanlega lista af líf og sál. En hvaða sæti sem það á endanum verður er ég og verð ævinlega þakklátur fyrir að eiga pláss einhvernstaðar í uppröðun þinni.

Ég heiti Hákon Helgi Leifsson, er 38 ára gamall, tveggja barna faðir í sambúð og bý í Kópavogi.

Yarr!