Hákon Helgi Leifsson (hakon78)

Kæru Píratar!
Ég býð mig fram í prófkjöri Pírata í Kópavogi 2018 og sækist eftir 1. - 2. sæti í komandi sveitarstjórnarkosningum.

--Píratinn Hákon--
Mér þykir gaman að segja ykkur frá því að í dag eru nánast akkúrat fjögur ár síðan ég vafraði inn á minn fyrsta Píratafund. Á þessum tíma hafði einn flokkur ákveðið að lýðskrum, að höfða til þess lægsta í fari okkar, væri rétta leiðin að völdum, í hinu svokölluðu moskumáli. Andrúmsloftið þá æði sérstakt eins og oft, en þetta útspil var það sem fyllti mælinn hjá mér.

Alla tíð hef ég verið heldur félagsfælinn náungi og ekki kunnað neitt sérstaklega við mig innann um ókunnuga. En þökk sé umræðunni var mér ljóst að ekki þýddi lengur að sitja bara heima aðgerðalaus, argur og sorgmæddur yfir ástandinu í landslagi stjórnmálanna. Ég tók því ákvörðunina stóru og álpaðist niðureftir í Tortuga. Óttasleginn vissulega, en með tilgang. Tilgang sem var í mínum huga mun stærri og mikilvægari en eigin ágallar.

Þegar þangað var komið var mikið fjör, enda kosningar á næsta leyti og veitti mér þar enginn neina sérstaka athygli. [Gyðjum grísku goðafræðinnar sé lof, hugsaði ég með mér] En þangað var ég kominn - Til þess að hjálpa - og var mér ljóst að það gengi ekki, andskotinn hafi það, að hanga bara í bakgrunninum.

Ég leit því yfir sviðið og reyndi að átta mig á hver allra mikilvægasta manneskjan þarna inni væri, fann líklegan kandídat, veitti mér að henni ákveðinn og tjáði:

„Ég heiti Hákon, ég ætla að hjálpa!”

Fyrstu viðbrögð við þessari háfleygu yfirlýsingu minni, voru einkennilegt augnaráð og þessi ódauðleg orð, sem ég mun ávallt geyma í hjarta mínu:

„Ok…. Flott hjá þér….”

Nú þetta var kannski ekki endilega eins og ég hafði séð byrjunina fyrir mér. En hvað um það. Ég þráaðist þó við þetta örlagaríka kvöld og talaði við allskonar fólk. Á leiðinni heim hugsaði ég allann tímann með mér að þarna var fólk, eins og ég, að berjast fyrir sömu hlutum, málefnum, hugsjónum og ég sjálfur. Þetta var í sannleika sagt afskaplega magnað kvöld - og eitthvað sem verður lengi í minnum haft.

Þegar heim var komið, fann ég fyrir ríkri þörf að auka þekkingu mína á stjórnmálum. Fór því að lesa mig til og markvisst sanka að mér vitneskju um stjórnmálin og stjórnspeki, um stóru hugmyndirnar, hvaðan þær komu og fræðin öll í heild. Í dag tel ég mig geta gert flestum stóru hugmyndunum innann fagsins nokkuð greinargóð skil. A.m.k. í stjórnspekilegu tilliti.

Eða, eins og Sókrates á að hafa sagt: Að ég viti það eitt, að ég viti ekkert.

En það mikilvægasta sem hefur á þessum tíma gerst er öllu er persónulegra. Ég er ekki lengur félagsfælinn, ekki lengur óöruggur, óttasleginn eða fullur efa. Þvert á móti er ég afskaplega öruggur í eigin hugmyndum, í þekkingu og fullur sjálfstraust þegar að stjórnmálum kemur. Þessu þakka ég ykkur kæru Píratar.

Nú langar mig að sýna ykkur það í verki og skila þakklæti mínu tilbaka fyrir Pírata.

--Stjórnmálaskoðanir--
Ég á svo margar að prófkjörinu væri líklega löngu lokið, þegar ég loks kláraði að hripa þær niður. En ég skal hinsvegar svara þeirri sem iðulega og sérstaklega brennur á fólki þegar stjórnmálaskoðanir einstaklinga eru rædd.

--Vinstri eða hægri?--
Já.

--Restin--

Ég hef mögulega dálítið sérstakt viðhorf á stjórnmálum í heild, eins og ofangreint svar mögulega ber með sér. En þeir eru í raun ekki nema tveir merkimiðarnir sem ég tel mig geta fyllilega staðið undir og tileinkað. Ég er frjálslyndur náungi og ég er lýðræðissinni.

Ég er frjálslyndur vegna þess að ég geri mér grein fyrir að stjórnmál eru í eðli sínu valdbeiting. Frelsi einstaklingsins, innleitt með upplýsingunni og byltingum á öldum áður, með miklu harðfylgi, eru mínar grunnskoðanir. Sem einnig eru undirstaða grunnstefnu Pírata.

Ég er lýðræðisinni, ekki vegna þess að það er töff eða fallegt, eiginlega þvert á móti. Ég er lýðræðissinni vegna þess að ég geri mér fulla grein fyrir að lýðræði er aðferðafræði og eingöngu eins gott og skorðurnar sem lýðræðinu er eru settar. En með réttri nálgun er svo sannarlega hægt að gera magnaða hluti

Eitt sinn var ég valinn Pírati vikunnar [enn afskaplega stoltur]. Þar svara ég hinum ýmsu spurningum um sjálfan mig ef þið hafið áhuga að kynnast mér betur. Sjá hér
https://piratar.is/frettir/pirati-vikunnar-hakon-helgi-leifsson/

--Eigin áherslur.--
Fyrir utan óbilandi áhuga á gagnsæi, lýðræði, jafnrétti og frelsi einstaklingsins, sem eru málefni sem allir Píratar sameinast um.

Þá er einelti í grunnskólum og afleiðingar mér afskaplega hugleikið viðfangsefni. Framtíð okkar allra mótaðist í æsku og einelti veldur þjáningum sem geta fylgt þolandanum ævilangt.

Ég tel það sömuleiðis frumskyldu stjórnmálanna að gera allt sem í þeirra valdi stendur, að koma í veg fyrir samfélagsmeinið og tryggja öllum framtíð tækifæra í stað veg hindrana. Ég er sannfærður um að með réttum áherslum og stuðningi fyrir þolendur, fyrir gerendur og foreldra megi gera heilmikið til þess að bæta ástandið og líðan allra.

Fái ég möguleikann, myndi ég leggja hjarta mitt og sál í verkið, ég myndi gera allt sem hægt er til að tryggja öllum framtíð sem væri bæði björt og rík af tækifærum sem allir eiga skilið.

--Um mig.--
Ég er í sambúð með hinni yndislegu Ragnheiði Rut Reynisdóttur, en hún er 38.ára Kópavogsmær fædd og uppalin. Hún hefur lengst af starfað í leikskólanum Furugrund og þakka ég henni persónulega fyrir að Kópavogur er fullur af flottu ungu fólki. Saman eigum við tvo mikla snillinga, Reyni Helga 9.ára og Leif Erni 13.ára, sem báðir nema í Hörðuvallaskóla.

--Reynsla--
Ég hef nær alla tíð starfað í þjónustu sölu, tel þá reynslu afskaplega dýrmæta. Eðli starfsins vegna öðlast maður djúpan skilning á því hvað það er að starfa fyrir aðra og í mannlegum samskiptum. Ég hef ekki mikla formlega menntun, en kláraði verslunarstjóranám í Bifröst fyrir nokkrum misserum síðan.

Í þjónustustörfum hef ég alltaf haft eina meginreglu:
Að það sé viðskiptavinurinn sem greiðir launin, ekki vinnuveitandinn. Sú regla á svo sannarlega einnig við um stjórnmálin. Þar er almenningur viðskiptavinurinn sem skyldan og ábyrgðin er við.

Ég er varamaður í stjórn ADHD samtakanna og hef verið undanfarin tvö ár, en þau samtök eru mér afskaplega dýrmæt. Fyrir samtökin hef ég sinnt ýmiskonar starfi í sjálfboðavinnu.

Nú skal ég ekki fullyrða um hvort rökræðuhæfileikar séu reynsla sem er mikilvæg í ykkar huga. Ég segi það samt að ég myndi aldrei nokkurtímann nenna rökræðum við sjálfan mig.

--Innann Pírata--

Ég hef lengi verið virkur í innra starfi Pírata, í málefnavinnu og umræðu almennt.
Tekið virkan þátt í öllum kosningabaráttum og starfi þeim tengdum.
Var í 7. Sæti á lista Pírata í SV fyrir kosningar 2016
Var í 6. Sæti á lista Pírata í SV fyrir kosningar 2017
Mér var treyst til þess að sitja í trúnaðarráði af félagsmönnum.
Sem stendur er ég í stjórn Pírata í Kópavogi.
Hef ég ritað fjölmargar greinar og fengið birtar í fjölmiðlum um stjórnmál, um Pírata, um einelti og um ADHD.

Kærar og innilegar þakkir fyrir athygli þína og lestur.
Virðingarfyllst.

Hákon Helgi Leifsson