Kjartan Jónsson (kjartanice)

Ég er fæddur og alinn upp í Hafnarfirði en flutti til Reykjavíkur upp úr tvítugu og hef búið þar síðan. Ég er giftur Sólveigu Jónasdóttur, kynningarfulltrúa SFR-stéttarfélags. Ég er faðir fjögurra barna, á aldrinum tíu til þrítugs, auk þess að vera orðinn afi. Börnin mín eru:

-Saga Kjartansdóttir, túlkur og þýðandi, sambýlismaður, Árni Berúlfur Jónsson. Börn: Ellert og Kjartan Loki.
-Óskar Kjartansson, djasstrommari og kennir trommuleik og íslensku.
-Jónas Hákon Kjartansson, er í Menntaskólanum í Hamrahlíð og æfir handbolta hjá Val.
-Inga Sóley Kjartansdóttir, er í Hlíðaskóla og stundar sellónám.

Ég er með BA í Íslensku og MA í Þýðingafræðum frá HÍ.

Nú stunda ég meistarnám í heimspeki, auk þess að reka tungumálamiðstöðina Múltíkúltí-íslensku, þar sem ég kenni útlendingum íslensku. Áður starfaði ég hjá Alþjóðahúsi við íslenskukennslu. Einnig starfa ég við þýðingar, þýði allt frá kvikmyndum til fagurbókmennta og sumrin 2013 og 2014 var ég á strandveiðum.

Í gegnum tíðina hef ég unnið ótal störf, verið á sjó, rekið útflutningsfyrirtæki í fiski og grjóti, ritstýrði Tímaritinu Þroskahjálp, starfaði á Kópavogshæli, svo fátt eitt sé nefnt.

Ég gekk í Pírata nokkrum mánuðum eftir stofnun flokksins og hef verið virkur í starfi hans síðan; hef haldið námskeið um tengslanet, unnið í stefnumótum og skipulagt fundi og uppbyggingu flokksins á landsbyggðinni. Þá var ég á lista Pírata í síðustu alþingis- og borgarstjórnarkosningum og sat fyrir Pírata í nefnd um endurskoðun mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar og var varamaður í mannréttindaráði og fjölmenningarráði. Þá var ég í stjórn Pírata í Reykjavík 2016 til 2017.

Helstu kostir mínir eru þrautseigja, sveigjanleiki, samskiptahæfni, auk þess sem ég tek gjarnan frumkvæðið og læt hlutina gerast.

Mínar ástríður í pólitík eru lýðræðisbylting, róttækar breytingar í sjávarútvegi og innflytjendamál. Mikilvægasta málið í dag er upptaka nýrrar stjórnarskrár, sem snertir öll þessi mál. Ég bauð mig fram til stjórnlagaþings árið 2010 og býð mig fram í þessu prófkjöri til að halda áfram baráttunni fyrir betra og réttlátara Íslandi.

Hagsmunaskráning:

Ég er formaður Vina Kenía, kt 580107-2140 (ólaunað), sjálfseignarstofnun sem styður við skóla og verkefni í Kenía.

Ég sit í stjórn Vina Indlands, kt. 440900-2750 (ólaunað), félag sem styður við skóla, barnaheimili og verkefni í Suður-Indlandi.

Ég er framkvæmdastjóri og hef prókúru í eftirfarandi félögum:

Múltikúlti, íslenska ehf., kt. 440711-0300. Rekstur tungumálskóla, þar sem ég starfa einnig sem kennari (100% hlutur).

Múltikúlti ehf. kt. 541004-2460 (ólaunað). Stuðningsfélag sem styður við félögin Vinir Indlands og Vinir Kenía og á og rekur fasteign að Barónsstíg 3 (15% hlutur).

Aflauki ehf. kt. 411098-2149 (ólaunað). Félagið heldur utan um eign og rekstur á trillu (25% hlutur).

Öll félögin hafa skilað inn ársreikningum undanfarin ár og eru skuldlaus, fyrir utan eitt fasteignaskuldabréf Múltikúlti ehf. sem er í skilum.

Persónulegar skuldir: Eitt fasteignaskuldabréf hjá ARION banka sem er í skilum.

Frekari upplýsingar og greinarskrif má finna á: www.kjartanpirati.info
Býður sig fram í: Reykjavíkurkjördæmi norður Reykjavíkurkjördæmi suður Suðvesturkjördæmi