Lilja Sif Þorsteinsdóttir (lsth)

Lilja Sif Þorsteinsdóttir heiti ég, er sálfræðingur að mennt og starfa sem slíkur á meðferðarstöð fyrir vímuefnaneytendur í Noregi sem stendur. Ég er fædd árið 1982 og er úr hverfi 108, gekk í Réttarholtsskóla og síðar MH. Eftir útskrift sem sálfræðingur frá HÍ byrjaði ég að vinna á Reykjalundi og vann þar í tæp fjögur ár, mestmegnis á sviði lungnaendurhæfingar og hjartaendurhæfingar en hafði þó viðkomu á geðheilsusviði og offitusviði. Meðfram námi mínu starfaði ég sem flugfreyja hjá Icelandair, hef einnig unnið ýmis konar störf frá táningsaldri, við afgreiðslu, blaðaútgáfu, í bókbandi og ferðaþjónustu svo það helsta sé nefnt. Hef einnig unnið sjálfboðaliðastörf fyrir Kattholt og Dýrahjálp.

Ég er ein af þeim sem fékk nóg af íslenskum stjórnmálum og flutti úr landi í mótþróa í október síðastliðnum. Ég hef þó ekki losnað við þá hugsjón mína að láta gott af mér leiða fyrir landið mitt góða, sem gæti verið ennþá betra ef stjórnarfar batnaði.

Mínar hugsjónir eru í takt við menntun mína. Þau málefni sem ég brenn fyrir eru á velferðarsviði og heilbrigðissviði. Ég tel mig hafa góða hugmynd um þær grundvallarbreytingar sem þyrftu að koma til á þessum sviðum til að búa betur að heilsu landans. Þá tala ég um praktískar leiðir að bæði forvörnum og inngripum, sem hafa áhrif á bæði líkamlegt og andlegt heilsufar fólks, sem skilar sér til langs tíma í ríkiskassann í leiðinni. Mig langar að sjá þjóðfélag sem notfærir sér nýjustu þekkingu á þessum málefnum til að hlúa sem best að þegnum sínum. Öllum.

Ég geri mér grein fyrir að á þessu kjörtímabili munu áherslur Pírata líklega vera á aðra hluti, og því stefni ég ekki endilega á sæti hátt á lista. Ég býð mig fram í Reykjavíkurkjördæmi Norður, þar sem færi svo að ég yrði kölluð til, myndi ég flytja heim og eiga lögheimili í því kjördæmi. Hvar sem ég lendi mun ég þó taka til höndum við þau málefni sem eru efst á baugi hverju sinni, enda hef ég breitt áhugasvið, metnað fyrir hönd þjóðfélags okkar, er fljót að kynna mér málin og skilja hismið frá kjarnanum. Að auki hef ég góða innsýn í mannlega hegðun og hef oft forsendur til að greina og lesa í hana, sem getur nýst í ýmsum aðstæðum. Ég vona að mér sé treyst í verkið og ykkur meðflokksfólki þyki akkur að mér á lista.