Andrés Helgi Valgarðsson (ofurandres)

Nú hef ég verið gjaldkeri stjórnar Pírata í Reykjavík síðan í október í fyrra. Þessi tími hefur verið einstaklega ánægjulegur og lærdómsríkur.

Ekki bara hef ég kynnst frábæru fólki sem er gaman að vinna með, heldur hef ég upplifað það í fyrsta skipti að starfa í hóp sem er samtaka að stefna markvisst að stóru og metnaðarfullu markmiði. Það er mjög góð tilfinning að vita það að þó okkur greini stundum um aðferðafræði eða forgangsröðun, þá erum við öll sammála um markmiðið og viljug til að gera okkar besta til að komast þangað.

Píratar í Reykjavík eru stærsta aðildarfélag Pírata og ber ábyrgð á framboði til Alþingis í tveimur af stærstu kjördæmum landsins og framboði til borgarstjórnar í höfuðborginni. Stjórnin sem nú verður kjörin mun vera sú mikilvægasta sem við höfum valið ennþá, þar sem hún mun koma til með að þurfa að sjá um þann hluta kosningabaráttunnar sem viðkemur höfuðborgarsvæðinu, þó að sjálfsögðu í samráði við framboðslista, kosningastjóra og framkvæmdaráð.

Sem betur fer er úr mjög góðum hóp að velja í dag, en ég býð mig fram til að tryggja að viss samfella sé milli stjórna, svo að ný stjórn þurfi ekki að byrja alveg frá grunni. Þó ég sé í 8. sæti á framboðslista Pírata í Reykjavík Suður í komandi Alþingiskosningum, þá er ósennilegt að það sæti muni leiða til þingmennsku. Ef til kemur vegna forfalla eða annarra ástæða, þá myndi ég að sjálfsögðu segja mig úr stjórn, enda kjörnir fulltrúar ekki stjórntækir samkvæmt lögum félagsins, en þangað til slíkt ætti sér stað, þá vil ég bjóða fram krafta mína hér til áframhaldandi starfa.

Ég hlakka til að vinna með þessu góða fólki sem hefur boðið sig fram, ég er viss um að þetta verður frábært.