Lind Völundardóttir (rosa5flotta)


Lýðræðið er mér hugleikið. Píratar eru eina stjórnmálaaflið sem í uppbyggingu sinni og aðkomu byggir á lifandi lýðræði í stöðugri mótun.

Á mínum ferli hef ég bæði verið á gólfinu og í brúnni, stundað skapandi störf, starfað sem stjórnandi og í kennslu ásamt því að skúra mér til lífs.

Ég heiti Lind Völundardóttir. Ég er fædd í Reykjavík 9. október 1955 og er því 61 árs. Ég er móðir, amma og langamma, listamaður, iðnaðarmaður og kennari, kennslufræðingur og menningarstjórnandi. Ég hef unnið sem myndlistarmaður og staðið að myndlistarsýningum, galleríhaldi og listtengdri útgáfustarfsemi. Einnig hef ég kennt listir og handverk á öllum skólastigum.

Lífsskilyrði okkar og hamingja, ásamt menntamálum og málefnum eldri borgara, eru mín aðaláherslumál. Ég vil gjarnan að hamingjan sé útgangspunktur í stjórnmálum, en ekki eingöngu óþekkt, þokukennd, andleg stærð sem fáum er ætlað að höndla. Kennum hamingjuna, lærum hamingjuna og byggjum samfélagið þannig að það sé möguleiki að vera hamingjusöm manneskja. Sjálfbærni, samheldni og réttur hvers og eins til að blómstra. Hver segir að hugsjónir séu óþarfar og úreltar?

Öll mál í grunnstefnu Pírata eru mín stefnumál. Höfum það hugfast að við erum öll þátttakendur í stjórnmálum, daglega.