Sigurbjörg Erla Egilsdóttir (siggae)

Kæru Píratar!

Ég býð mig fram til þess að leiða lista Pírata í Kópavogi í sveitarstjórnarkosningunum 2018.

Ég er fædd í Neskaupstað árið 1986 en flutti 15 ára gömul í Kópavog ásamt foreldrum mínum og bý þar nú með manni og þremur börnum.

Ég útskrifaðist með BS gráðu í Sálfræði frá Háskóla Íslands vorið 2012 og Cand. psych gráðu frá sama skóla vorið 2015. Þá hóf ég doktorsnám í stjórnmálasálfræði með kjörsókn ungs fólks að rannsóknarefni. Þar lauk ég einu ári áður en lífið tók aðeins óvænta stefnu og sendi mig í tvö nánast samliggjandi fæðingarorlof en yngsta krílið fæddist í haust. Samhliða námi síðustu ár hef ég meðal annars sinnt aðstoðarkennslu við bæði Sálfræði- og Stjórnmálafræðideild í HÍ og verið fulltrúi foreldra í leikskólanefnd Kópavogsbæjar.

Ég gekk til liðs við Pírata í byrjun árs 2013, stuttu eftir að flokkurinn var stofnaður. Ég heillaðist af hugmyndum Pírata um nútímalegri stjórnarhætti; ákvarðanatöku í samræmi við bestu þekkingu á hverjum tíma, eflingu lýðræðis og gegnsæja stjórnsýslu.

Ég var varaþingmaður fyrir Ástu Guðrúnu Helgadóttur 2015-2016 og tók sæti á Alþingi í hennar fjarveru í eina viku vorið 2016. Í vetur hef ég verið í Trúnaðarráði Pírata og tekið þátt í að endurvekja félagið Pírata í Kópavogi. Um þessar mundir fer fram vinna við stefnumótun fyrir sveitarstjórnarkosningarnar en þar hef ég mikinn áhuga á að sjá betrumbætur á opnu bókhaldi, tilraunir með styttingu vinnuvikunnar og aukið íbúalýðræði. Mín persónulegu áherslumál tengjast menntun minni og eru á sviði geðheilbrigðismála og eflingar samfélagsþátttöku. Bætt aðgengi að sálfræðiþjónustu skilar sér til dæmis margfalt til baka til samfélagsins, meðal annars í formi aukinna skatttekna, lækkaðrar glæpatíðni og bætts heilsufars almennt. Ég hef gaman að og á auðvelt með að setja mig inn í fjölbreytt mál og beita gagnrýni og lausnamiðaðri hugsun til þess að taka upplýstar ákvarðanir.

Ég hlakka til að vinna áfram að Píratamálum í Kópavogi, megi okkur ganga sem best í komandi kosningum!

Sigurbjörg Erla