Sigurbjörg Erla Egilsdóttir (siggae)

Ég heiti Sigurbjörg Erla Egilsdóttir og ég er fædd 18. Nóvember 1986 í Neskaupstað.

Ég er varaþingmaður Pírata, menntaður sálfræðingur og stunda nú doktorsnám í stjórnmálasálfræði við Háskóla Íslands, þar sem aðalrannsóknarefni mitt er kjörsókn ungs fólks.

Ég ólst upp í Neskaupstað fram á unglingsár en er nú búsett í Kópavogi ásamt unnusta mínum, Óttari Helga Einarssyni, og drengjunum okkar tveimur.

Ég gekk til liðs við Pírata í byrjun árs 2013, stuttu eftir að flokkurinn var stofnaður. Ég heillaðist af hugmyndum Pírata um nútímalegri stjórnarhætti – ákvarðanatöku í samræmi við bestu þekkingu á hverjum tíma, eflingu lýðræðis og gegnsæja stjórnsýslu.

Í prófkjöri fyrir alþingiskosningarnar 2013 hafnaði ég í þriðja sæti á lista Reykjavíkurkjördæmis suður og datt þar með inn sem varamaður þegar Jón Þór hætti á þingi.

Ég tók sæti í fjarveru Ástu í febrúar-mars á þessu ári þar sem ég hélt meðal annars jómfrúarræðu mína um aðgengi að sálfræðiþjónustu óháð efnahag. Þessa lærdómsríku viku á þingi tók ég auk þess þátt í umræðu og atkvæðagreiðslu um fullnustu refsinga ásamt því að taka þátt í að leggja fram frumvarp til laga um samningsveð (lyklafrumvarp) og brottfall laga um helgidagafrið.

Þátttaka mín í Pírötum eru mín fyrstu kynni af hefðbundinni stjórnmálaþátttöku en ég hef alla tíð verið virk í ýmiss konar félagsstarfi. Má þar nefna að ég hef verið meðlimur í björgunarsveit frá unglingsárum, skátaforingi í seinni tíð og gegnt ýmsum embættum á vegum nemendafélagsins í háskólanámi mínu.

Helstu áherslumál mín tengjast menntun minni og eru á sviði geðheilbrigðismála og eflingar samfélagsþátttöku. Með bættu aðgengi að sálfræðiþjónustu má til dæmis draga verulega úr áhrifum geðræns vanda en ásamt því að hjálpa einstaklingunum skilar það sér margfalt til baka til samfélagsins, meðal annars í formi aukinna skatttekna, lækkaðrar glæpatíðni og bætts heilsufars landans almennt.

Ég hef auk þess gaman að og á auðvelt með að setja mig inn í fjölbreytt mál og er gagnrýnin og lausnamiðuð í hugsun.

Að lokum skal tekið fram að ég hef hvorki fjárhags- né hagsmunatengsla að gæta sem gætu haft áhrif á stöðu mína sem frambjóðanda.