Viktor Orri Valgarðsson (viktororri)

Ég býð mig fyrir Pírata vegna þess að ég trúi því að í þessum kosningum stöndum við frammi fyrir einstöku og sögulegu tækifæri til að breyta íslenskum stjórnmálum varanlega til hins betra - og ég trúi því að Píratar séu okkar langbesta von til þess að nýta þetta tækifæri.

Ég hef verið Pírati frá stofnun vegna þess að ég deili hugsjónum þeirra um beinna og virkara lýðræði, gegnsærri stjórnsýslu, félagslegt frjálslyndi, sterkari borgararéttindi, tjáningarfrelsi, netfrelsi, upplýsta og málefnalega ákvarðanatöku og svona mætti lengi telja. Píratar hafa líka sýnt að þau sýna þessar hugsjónir í verki, með einstakri framgöngu í stjórnmálum, og ég hef kynnst því að þar inni er rosalega mikið af kláru og vel innrættu fólki sem virkilega ætlar sér að breyta Íslandi róttækt til hins betra.

Og það er það sem við þurfum. Sérstaklega tel ég bráðnauðsynlegt að Ísland fullgildi þá stjórnarskrá sem við komumst langt með að semja eftir hrun; ég hef talað opinberlega og ákveðið fyrir því í mörg ár og bauð mig m.a. fram til Stjórnlagaþings þegar ég var nýorðinn 20 ára gamall.

Ég hef líka haft ástríðu fyrir umbótum á stjórnmálamenningu, stjórnkerfi og lýðræðinu í kringum mig frá því ég var í menntaskóla; fyrst í nemendafélögum menntaskóla og síðan þegar ég og vinir mínir stofnuðum saman stúdentahreyfinguna Skrökvu í HÍ í ársbyrjun 2010, til höfuðs flokkapólitík og meirihlutaræði í Stúdentaráði HÍ. Ég er mjög stoltur af þeim árangri sem við náðum þar í samstarfi við fólkið í Röskvu og Vöku til að bæta stjórnmálamenninguna, stjórnkerfið og kosningakerfið; m.a. innleiddum við möguleikann á einstaklingsframboðum og persónukjöri í Stúdentaráði og stuðluðum vonandi að bættu samstarfi fylkinga með gagnrýni okkar.

Síðan þá hef ég talað og barist fyrir ýmiss konar lýðræðisumbótum á Íslandi, bæði í því hvernig við stundum stjórnmálin, hvaða viðhorf stjórnmálamenn hafa til kjósenda - sem eiga að hafa völd burtséð frá því hvort þingkosningar nálgast eða ekki - og síðast en ekki síst þau gildi og þær leikreglur sem endurspeglast í nýju stjórnarskránni okkar.

Ég er með BA-gráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands og MSc-gráðu í Governance & Policy frá University of Southampton í Englandi. Síðasta vetur hóf ég doktorsnám í Southampton og helstu rannsóknarefni mín í náminu hafa verið lýðræðiskenningar, lýðræðisleg þátttaka og lýðræðisumbætur. Ég vona innilega að ég fái tækifæri til að gera mitt besta til að hjálpa Pírötum og Íslendingum öllum til að nýta þau tækifæri til umbóta sem okkur bjóðast í komandi kosningum.

Ég var í viðtali í útvarpsþættinum Harmageddon á X-inu morguninn 28. júlí, þar sem ég ræddi þessi mál nánar: http://www.visir.is/section/MEDIA98&fileid=CLP47342

Ég hef skrifað pistla fyrir Kvennablaðið undanfarin misseri: http://kvennabladid.is/author/viktor-orri-valgardsson/

Áður skrifaði ég á DV.is: http://www.dv.is/blogg/viktor-orri-valgardsson/