Samþykkt: Skólamál
Með tilliti til:
- Greinar §6 í grunnstefnu Pírata um beint lýðræði og sjálfsákvörðunarrétt
- Menntastefnu Pírata ( https://x.piratar.is/issue/73/ )
- Grunnstefnu Pírata í Reykjavík um stjórnsýslu og lýðræði ( https://x.piratar.is/issue/109/ )
álykta Píratar í Reykjavík að:
Hvatt verði til aukins sjálfstæðis leik- og grunnskóla og skólaþróunar varðandi kennsluaðferðir og -hætti innan ramma aðalnámskrár. Áframhald breytinga á námi og kennslu sé metið reglulega af skólasamfélaginu til að tryggja að það skili þeim árangri sem lagt er upp með. Áhrifavald kennara til stefnumótunar í skólamálum innan Reykjavíkurborgar verði aukið. Frelsi nemenda og foreldra til þess að hafa áhrif á skólaumhverfi og nám verði aukið í samræmi við aðalnámskrá.
Fjölbreyttir skólar með mismunandi áherslur og rekstrarform séu æskilegir, svo fremi sem þeir fylgja aðalnámsskrá.
Miðað skuli við að meðallaun kennara verði sambærileg við meðalkennaralaun í OECD-ríkjum.
Unnið verði ötullega að innleiðingu nemendamiðaðs náms eins og kveðið er á um í aðalnámskrá.
Gera skuli heildarúttekt á kostnaði skóla sem birt verður almenningi í auðskiljanlegu formi. Skoða skuli kostnað hvers skóla fyrir sig lið fyrir lið og jafnframt verði opnun bókhalds Reykjavíkurborgar nýtt til að finna aukið fjármagn til skólahalds í borginni. Sérstaklega verði farið yfir innri leigu skóla. Einnig verði farið yfir kostnað vegna skóla- og frístundasviðs borgarinnar og starfsemi sviðsins endurskipulögð eftir þörfum í þágu bætts skólastarfs og aðhalds í fjármálum.
Áfram skuli stefnt að skóla án aðgreiningar og rannsakað hversu mikið viðbótarfjármagn (fyrir aðstöðu, starfsþróun og fjölgun starfsfólks) þurfi til að hann verði að veruleika. Ljóst er að það fjármagn sem þurfti til að fylgja þessari fallegu hugmyndafræði almennilega úr hlaði var aldrei sett inn og af þeim sökum hefur víða skapast ástand sem kemur niður á nemendum, fjölskyldum þeirra og skólastarfi almennt. Boðið skuli upp á sérskólaúrræði fyrir þá nemendur og fjölskyldur þeirra sem þess óska.
Verk- og listmenntun verði aukin verulega í samráði við skóla og óskir nemenda, sem og fjölbreyttir möguleikar nemenda til hreyfingar innan ramma skóladagsins.
Samgangur og samskipti skólabarna við fólk af eldri kynslóðum verði aukinn, meðal annars með mentorverkefnum og starfsþjálfun í efri stigum grunnskóla.
Endurskoða skuli gjaldtöku í skólum og frístundum til að koma betur til móts við tekjulágt fólk.
Fundnar verði leiðir til að efla í raun jákvætt samstarf kennara, nemenda og foreldra í samræmi við ákvæði aðalnámskrár. Lengi hefur verið misbrestur á þessu og hluti vandans liggur í tímaskorti skólafólks, enda fer hlutverkum og starfsskyldum kennara æ fjölgandi. Því þarf að breyta til að skólasamfélagið geti unnið sem heild að hagsmunum nemenda.
Talkennsla, eineltisforvarnir, náms- og starfsráðgjöf og félagsráðgjöf verði efld í skólum.
Útiskólar borgarinnar á leik- og grunnskólastigi verði efldir og þeim meðal annars gert kleift að verða leiðandi í því að bjóða upp á fjölbreytt nám úti í náttúrunni.
Stuðlað verði að því að afleysing fáist þegar mannekla verður innan leik- og grunnskóla.
Tilheyrandi mál: | Skólamál |
---|
Útgáfur
# | Staða | Höfundur | Lýsing |
---|---|---|---|
1 | Samþykkt | tharfagreinir | |
2 | Tillaga | bjornlevi | Legg til breytingatillögu þar sem greinin um skóla án aðgreiningar er fjarlægð. Ástæðurnar fyrir því er að sú grein er efni í tillögu út af fyrir sig, það eru ekki til nægjanleg gögn nema 'af því að það er falleg hugsun' um hvaða árangri þetta skilar fyrir þiggjendur þessarar þjónustu. |