Samþykkt: Lagabreytingartillaga: Nýr 8. kafli (Framboð)
Núverandi 8. kafli í lögum PíR fellur brott í heild sinni.
Í hans stað kemur nýr kafli svohljóðandi:
> 8.1. Ákvarðanir samkvæmt þessum kafla má taka með ákvörðun stjórnar eða með ályktun félagsfundar nema annað sé sérstaklega tilgreint. Staðfesta skal allar ályktanir félagsfunda í rafrænu kosningakerfi Pírata.
> 8.2. Félaginu er heimilt að stofna til kosningabandalags vegna sveitarstjórnarkosninga með öðrum stjórnmálaflokkum. Slík ákvörðun skal tekin með ályktun félagsfundar. Efni tillögunnar skal fylgja fundarboði.
> 8.3. Þegar ákvörðun hefur verið tekin um að félagið bjóði fram í tilteknum kosningum skal tilkynna hana á vettvangi félagsins svo skjótt sem auðið er. Auglýst skal eftir framboðum innan viku frá slíkri ákvörðun.
> 8.4. Ef atkvæðagreiðslur um framboðslista fara fram í rafrænu kosningakerfi Pírata skal sú kosning standa yfir í að minnsta kosti 7 sólarhringa, en þó aldrei lengur en 10 sólarhringa.
> 8.5. Skipa skal tvo umboðsmenn fyrir framboðslista. Umboðsmenn bera ábyrgð á móttöku framboða til framboðslistakosninga. Að framboðslistakosningu lokinni bera umboðsmenn ábyrgð á að skila framboðsgögnum til kjörstjórnar.
> 8.6. Hafi frambjóðandi ekki skilað inn nauðsynlegum upplýsingum fjórum sólarhringum áður en skila á framboðslista er heimilt að fella hann út af listanum.
> 8.7. Frambjóðendur mega skila kynningu á sjálfum sér, sem koma skal rafrænt á framfæri við alla félaga í félaginu.
> 8.8. Við framkvæmd kosninganna skal að öðru leyti fara eftir lögum Pírata um framboðslistakosningar.
Athugasemdir við þessa lagabreytingartillögu:
gr. Núgildandi 8. kafli í lögum PíR er um margt gallaður. Óeðlilegt þykir að það þurfi ákvörðun félagsfundar til að bjóða fram í tilteknum kosningum. Félagið er stjórnmálaflokkur sem hefur það markmið að setja sér stefnu og vinna að framgangi hennar og stefnu Pírata með öllum þeim aðferðum sem honum stendur til boða. Því ætti stjórn að geta tekið ákvörðun um að félagið taki þátt í kosningum. Núgildandi kafli býður upp á að hægt sé að halda endanlegum framboðslista í óvissuástandi lengur en skynsamlegt getur talist.
Nokkur atriði í núgildandi kafla stangast á við lög landsfélagsins og því er mikilvægt að samræma lög PíR við þau. Einnig er hann óþarflega flókinn og langorður þar sem meðal annars eru tilgreind atriði sem eru nú þegar í lögum landsfélagsins og því óþarft að endurtaka.gr. Í stað þess að lagfæra núgildandi kafla með viðbótum og úrfellingum þótti skynsamara að semja nýjan. Markmiðið var að hafa hann skýran og skorinortan ásamt því að láta landsfélagslögin gilda nema þar sem sérstaklega þarf að skýra einhver atriði betur.
Þar sem nú eru komin ákvæði í lög landsfélagsins um að ábyrgðaraðila kosningar beri að setja skýrar reglur um framkvæmd prófkjörs þykir ekki rétt að binda hendur félagsins meira en þörf er á. Í lögum landsfélagsins er meðal annars kveðið á um neðri mörk kosningaréttar.
Athugasemdir um stakar greinar nýja kaflans:
Almenna reglan á að vera að stjórn taki ákvarðanir nema þar sem annað er tekið fram. Félagið getur þó samkvæmt þessari grein tekið ákvarðanir óháð stjórn ef félagsmönnum þykir ástæða til.
Þessi grein felur í sér heimild fyrir það stórri ákvörðun að ekki þykir annað hægt en að hún sé tekin af sem stærstum hluta félagsmanna. Í það minnsta ekki eingöngu af stjórn.
Þó augljóst sé að félagið muni að óbreyttu bjóða fram í þeim Alþingis og sveitastjórnarkosningum sem fram fara í kjördæmum þess, þarf þó að setja stjórn tilteknar skorður um það að ákveða formlega á einhverjum punkti að hefja prófkjörsundirbúning, og tilkynna það þá félagsmönnum. Ekki er gott að fastbinda það um of kosningadagsetningum þar sem uppi getur verið vafi um þær. Þetta er gert til að ekki sé hægt að hefja prófkjörsundirbúning sem einstaka aðilar geti tekið þátt í, án þess að fleiri félagsmönnum gefist kostur á að vera með og bjóða sig fram.
Hér er opnað á þann möguleika að atkvæðagreiðslur um framboðslista fari fram utan rafræns konsingakerfis Pírata. Þó þær ættu almennt að fara fram í kosningakerfinu þá gæti komið upp sú staða, af einhverjum ástæðum, að rétt þyki að notast við annað form á atkvæðagreiðslunni. Ef notast er við rafræna kosningakerfið þá er þó skynsamt að vera með skilgreindan tímaramma í lögunum.
Þetta er ákvæði sem tryggir að ekki getið leikið vafi á því hver beri ábyrgð á framboðsgögnum, móttöku þeirra og skilum. Ekkert er því til fyrirstöðu að þeir sem eru á endanlegum framboðslista velji sér nýja umboðsmenn á þeim tímapunkti. Samkvæmt landslögum eru aðalmenn á lista umboðsmenn hans séu tveir umboðsmenn ekki tilgreindir eða nauðsynjar hamli umboðsmönnum að sinna sínu verki.
Þessi grein er til þess ætluð að tryggja að félagið sé ekki með ógildan lista vegna vanrækslu frambjóðanda að skila inn nauðsynlegum gögnum. Greinin felur eingöngu í sér heimild en ekki kvöð til að fella frambjóðanda af listanum.
Þetta er gert til að tryggja jafnræði frambjóðenda. Ef frambjóðandi nýtir sér þessa heimild þá er félaginu skylt að koma kynningunni á framfæri með rafrænum hætti. Með rafrænum hætti er sérstaklega tekið fram svo ekki sé hægt að setja óeðlilegar kröfu á félagið um dreifingu með öðrum miðlum.
Ekki er þörf á að endurtaka atriði í lögum PíR sem eru nú þegar tilgreind í lögum landsfélagsins.
Tilheyrandi mál: | Lagabreytingartillaga: Nýr 8. kafli (Framboð) |
---|
Útgáfur
# | Staða | Höfundur | Lýsing |
---|---|---|---|
1 | Samþykkt | Bergthor |