Tillaga: Stefna um Dýraþjónustu Reykjavíkurborgar
Stefna um Dýraþjónustu Reykjavíkurborgar
Með tilvísun í:
Grein §1 í grunnstefnu Pírata um gagnsæi og ábyrgð
Grein §6 í grunnstefnu Pírata um beint lýðræði og sjálfsákvörðunarrétt
og með tilliti til:
Stefnu Pírata um stjórnsýslu á sveitarstjórnarstigi ( https://x.piratar.is/polity/1/document/75/ )
Þjónustustefnu Reykjavíkurborgar ( http://reykjavik.is/sites/default/files/thjonustustefna_reykjavikurborgar.pdf )
álykta Píratar í Reykjavík að:
Stofnuð verði stjórnsýslueiningin Dýraþjónusta Reykjavíkurborgar.
Dýraþjónustan beri ábyrgð á þjónustu og samskiptum við gæludýraeigendur, leyfisveitingum og framfylgd samþykkta borgarinnar um gæludýrahald.
Verkefni Hundaeftirlitsins í Reykjavík og verkefni meindýravarna verði færð alfarið undir Dýraþjónustuna, sem og öll önnur verkefni er snúa að dýrum og dýravelferð.
Þjónustuferlar borgarinnar sem snúa að dýrahaldi verði samhliða yfirfærslu til Dýraþjónustunnar alfarið rafvæddir og endurskoðaðir út frá aðferðafræði notendamiðaðrar hönnunar.
Borgin hætti að skrá dýr í gagnagrunna hjá sér og nýti sér þess í stað aðra opinbera gagnagrunna sem fyrir eru, sbr. Dýraauðkenni.
Trygging gegn tjóni þriðja aðila skuli ekki vera bundin tryggingu sem sveitarfélagið býður upp á heldur skuli hún vera valfrjáls.
Samþykktir og gjaldskrár borgarinnar sem snúa að dýrahaldi verði endurskoðaðar í takti við breytt fyrirkomulag. Stefnt skuli að því að samþykktir verði felldar úr gildi eða styttar niður í allra einföldustu grunnatriði.
Jafnframt verði önnur stefnumörkun borgarinnar og stofnanna hennar sem varðar dýrahald tekin til gagngerrar skoðunar, svo sem svigrúm leigjenda í félagslegu húsnæði til dýrahalds.
Víðtækt samráð verði haft við gæludýraeigendur sem og aðra hagsmunaaðila við útfærslu þessa nýja fyrirkomulags.
Greinargerð:
1-3. Sem stendur er ábyrgð á því sem snýr að gæludýrahaldi innan borgarmarkanna dreifð innan stjórnsýslu borgarinnar og nálgunin þar byggist á þeim úrelta grunni að gæludýrahald innan borgarmarka sé fyrst og fremst reglugerðar- og eftirlitsmál, frekar en að það snúist um þjónustu við gæludýraeigendur og dýrin sjálf. Þannig er allt sem varðar hundahald undir Hundaeftirlitinu í Reykjavík á meðan kattahald er vistað hjá meindýravörnum borgarinnar.
Í ljósi þess veruleika að gæludýrahald er orðið mikið hagsmunamál stórs hluta borgarbúa og borgin uppfull af gæludýrum þarf að leita nýrra leiða til að koma til móts við gæludýrahald innan borgarmarkanna og nálgast það á heildstæðan hátt. Gæludýraeigendur kvarta margir hverjir undan því að þeir fái takmarkaða þjónustu fyrir innheimt gjöld og að nálgun borgarinnar gagnvart dýrahaldinu sé á of neikvæðum nótum. Sameining alls sem lýtur að dýrahaldi undir hatti Dýraþjónustu Reykjavík gefur tækifæri til að endurskoða hvernig þessum málum er háttað út frá þjónustumiðaðri nálgun - og þar geta jafnframt falist tækifæri til hagræðingar og aukinnar skilvirkni.
4-5. Þegar dýr er örmerkt þarf að skrá dýr á heimili, ef borgin sameinar sinn gagnagrunn við þau dýr sem skráð eru í Dýraauðkenni er hægt að auðvelda skráningarferli dýrsins gífurlega. Það er nokkuð algengt að dýraeigendur haldi að örmerking sé nóg og skrá því ekki dýrið hjá sveitarfélaginu. Hagræðið af samræmdu fyrirkomulagi er ótvírætt fyrir gæludýraeigendur og þetta myndi einnig minnka skjalavinnslu á vegum borgarinnar.
- Trygging gegn tjóni þriðja aðila er skyldutrygging, eins og staðan er núna er hundaeigandi skyldugur til að greiða tryggingu á vegum sveitarfélagsins. Þykir okkur eðlilegt að hundaeigandi megi ráða því sjálfur hvar hann tryggir hundinn sinn.
7-9. Samhliða þessu er mikilvægt að skoða gagngert allt stjórnsýsluumhverfið og hvernig borgin og stofnanir hennar koma til móts við gæludýraeigendur eða reisa þeim hindranir, til dæmis í félagslegu húsnæði og öðru húsnæði á vegum borgarinnar. Allt þarf þetta að miða að því að rýmka þol borgarinnar gagnvart gæludýrahaldi og rétti fólks til að halda gæludýr í sátt við samfélag sitt.
Útgáfur
# | Staða | Höfundur | Lýsing |
---|---|---|---|
1 | Tillaga | valgerdur79 |