Samþykkt: Kjarnastefna stjórnsýslu og lýðræðis
Kjarnastefna stjórnsýslu og lýðræðis
Með tilvísun í:
Grein §2 í grunnstefnu Pírata um borgararéttindi
Grein §3 í grunnstefnu Pírata um friðhelgi einkalífsins
Grein §4 í grunnstefnu Pírata um gagnsæi og ábyrgð
Grein §5 í grunnstefnu Pírata um upplýsinga- og tjáningarfrelsi
Grein §6 í grunnstefnu Pírata um beint lýðræði og sjálfsákvörðunarrétt
og með tilliti til:
Stefnu Pírata um stjórnsýslu á sveitarstjórnarstigi
Upplýsingastefnu Reykjavíkurborgar
Þjónustustefnu Reykjavíkurborgar
álykta Píratar í Reykjavík að:
Samþykkt og innleidd verði lýðræðisstefna Reykjavíkurborgar sem tekur á skyldum borgarinnar, kjörinna fulltrúa hennar og starfsfólks gagnvart íbúalýðræði í borginni.
Unnið verði að innleiðingu þjónustustefnu Reykjavíkurborgar á öllum sviðum starfsemi hennar með sérstaka áherslu á notendamiðaða hönnun og notendasamráð í þjónustu.
Embætti umboðsmanns borgarbúa verði eflt í því skyni að gera því kleift að sinna fræðslu og frumkvæðisathugunum. Einnig skal horfa til þess að útvíkka hlutverk þess eftir því sem reynsla kemst á það.
Fulltrúar Pírata í borginni skulu ávallt krefjast þess að niðurstöður íbúakosninga sem eru framkvæmdar samkvæmt 107. og 108. gr. sveitarstjórnarlaga séu bindandi fyrir borgarstjórn.
Hverfisráð borgarinnar verði fest í sessi í skipuriti borgarinnar og styrkt í því skyni að veita þeim aukið vald yfir útdeilingu fjármagns, stefnumótun og nærþjónustu í sínu hverfi. Íbúum hverfisins verði gefin bein aðild að skipun í hverfisráð.
Sett verði samþykkt um íbúasamtök innan borgarinnar sem setur ramma utan um þau sem þau geta gengið inn í til að fá formlega stöðu innan borgarkerfisins.
Stefnt skuli að því að gagnsæi í stjórnsýslunni verði algjört og nái til allra ferla við ákvarðanatökur. Fundargerðir og önnur opinber skjöl verði gerð aðgengileg á netinu og rekjanleg eftir innihaldi. Tryggja beri að upplýsingar um öll útgjöld borgarinnar, dótturfyrirtækja hennar, byggðasamlaga og ráðstöfun styrkja sem borgin veitir séu gefnar upp.
Upplýsingar á rafrænu formi séu settar inn tímanlega og uppfærðar reglulega. Slík upplýsingavinnsla lúti þó í öllum tilfellum viðeigandi persónuverndarsjónarmiðum og lögum.
Reykjavíkurborg verði leiðandi í birtingu opinna gagna.
Reykjavíkurborg styðji við frjálsan og opinn hugbúnað og útgáfu annars efnis samkvæmt opnum höfundarleyfum.
Stofnað verði embætti gagnastjóra hjá Reykjavíkurborg. Hann sé ábyrgðarmaður upplýsingagagnsæis hjá Reykjavíkurborg og beri ábyrgð á samræmingu og vandaðri meðferð gagna sem og gagnaöryggismálum.
„Betri Reykjavík“ verði gerð enn betri með því að auka raunveruleg áhrif borgarbúa á ráðstöfun eigin skattfjár. Sett verði það markmið að borgarbúar fái beina aðkomu að ráðstöfun 1.500 mkr. að lágmarki á ári í stað 450 mkr. líkt og nú er boðið upp á. Útvíkka skal verkefnið “Hverfið mitt” þannig að hægt verði að hafa bein áhrif á fleira en framkvæmdir og viðhald í hverfinu. Einnig verði tekið til hliðar fast fjármagn fyrir opnar hugmyndir íbúa sem þeir hafa rétt á að setja fram.
Gagnsæi í verkefnum borgarinnar um þátttökulýðræði verði aukið sem og aðgengi að þeim. Þau verði tekin saman í einni einfaldri þátttökugátt á vef borgarinnar og fléttuð vandlega við borgarkerfið. Auðvelda skal almenningi eftirfylgni með innsendum hugmyndum og auðvelda yfirsýn yfir stöðu þeirra í kerfinu. Íbúar fái aðstoð við að koma hugmyndum sínum inn á vefinn, meðal annars í gegnum opna íbúafundi.
Stefnumótun innan Reykjavíkurborgar ætti ávallt að setja í opið samráðsferli á þar til gerðri samræmdri gátt á vef borgarinnar.
Kláruð verði greining á misferlisáhættu innan borgarkerfisins og hún notuð sem grunnur að aðgerðum og vörnum gegn misferli og spillingu.
Greinargerð:
Umbætur á sviði stjórnsýslu og lýðræðis eru kjarnamálefni Pírata. Fáir aðrir málaflokkar standa grunnstefnu flokksins jafn nærri. Það er hér sem möguleikarnir á kerfisbreytingum eru mestir. Kerfin skal fyrst og fremst hugsa út frá þörfum íbúa. Stöðugt þarf að leita leiða til að láta þau koma til móts við fólk og veita því gott aðgengi að þeim.
Undir forystu Pírata hefur verið komið upp stjórnkerfis- og lýðræðisráði Reykjavíkurborgar, sem hefur umsjón með skipulagi stjórnkerfis Reykjavíkurborgar og fer með ýmis verkefni sem varða íbúalýðræði, gagnsæi og þjónustu. Í gegnum það hafa náðst ýmsar umfangsmiklar kerfisbreytingar í anda Pírata, á borð við upplýsingastefnu, þjónustustefnu, opnun bókhalds og stofnun rafrænnar þjónustumiðstöðvar. Einnig hefur umboðsmaður borgarbúa verið festur varanlega í sessi undir ráðinu. Þannig hafa margar umbætur nú þegar náð fram að ganga og mörgum fræjum hefur verið sáð sem munu halda áfram að gefa af sér.
Mikilvægt er að halda markvisst áfram á þessari braut, tryggja innleiðingu á stefnumörkun og leggja rækt við frekari umbótaverkefni og kerfisbreytingar. Hér felast stærstu áskoranirnar meðal annars í umbreytingu á hverfisráðum þannig að þau virki eins og þeim er ætlað að virka, sem og gagngerri samþættingu á þátttökulýðræðisgáttum á vef borgarinnar til að tryggja gott aðgengi að þeim. Einnig má útvíkka opnun bókhalds yfir í dótturfyrirtæki borgarinnar og byggðasamlög.
Almennt má þó segja að upplýsingatækni spili hér alltaf og óhjákvæmilega stórt hlutverk. Með eflingu upplýsingatækninnar og skilvirkri nýtingu hennar hjá opinberum aðilum opnast gríðarlegir möguleikar á því að nýta upplýsingar til upplýstrar og lýðræðislegrar ákvarðanatöku, með samkeyrslu þeirra og rekjanlegum gagnsæjum ferlum þar sem samhengi hlutanna er öllum bersýnilegt. Mikilvægt er að sem mest af upplýsingum sé öllum aðgengilegar, til að draga úr því valdamisræmi sem ójafnt aðgengi að upplýsingum veldur. Í þessu samhengi er þó einnig mjög mikilvægt að tryggja að söfnun og vinnslu persónugreinanlegra upplýsinga sé haldið í lágmarki. Hún fari eingöngu fram ef hún er algjörlega nauðsynleg og að öryggi slíkra upplýsinga sé tryggt eftir fremsta megni og persónuverndarsjónarmið séu í heiðri höfð.
Opnun gagna opinberra aðila á stöðluðum sniðum, svo aðrir geti endurnýtt þau, býr til ýmsa möguleika á nýsköpun þar sem betur sjá augu en auga. Aðgengi að hrágögnum eykur jafnframt aðhald með því að gögnin séu rétt fram sett. Reykjavíkurborg hefur nú þegar haft frumkvæði að því að gefa opið bókhald sitt út sem opin gögn en slíkt gerir þriðju aðilum kleift að taka gögnin og setja þau fram á nýstárlegan hátt. Margvíslega aðra gagnapakka borgarinnar mætti taka saman og gefa út með sambærilegum hætti.
Opinn hugbúnaður snýst um að framleiða hugbúnað sem er öllum opinn og er þannig í raun opinber gæði. Öllum er frjálst að endurnýta slíkan hugbúnað og taka þátt í að þróa hann. Þannig snýst nýting á slíkum hugbúnaði af hálfu opinberra aðila ekki endilega bara um sparnað heldur einnig að leggja rækt við hugbúnað sem almannagæði sem allir hafa aðgang að. Hið sama er um að segja um annað efni sem gefið er út samkvæmt opnum höfundarleyfum, svo sem menningar- og kennsluefni. Öllum er frjálst að deila því og því er aðgangur að því greiður. Borgin getur stutt við efni af þessu tagi bæði með því að nýta það í sinni starfsemi og með því að styrkja útgáfu þess. Einnig getur borgin verið leiðandi í að efla þekkingu á opnum hugbúnaði.
Betri Reykjavík er núna regnhlífarhugtak yfir alls kyns lýðræðisverkefni borgarinnar og er Hverfið mitt, árlegar hverfakosningar, þekktast af þeim. Þar geta íbúar lagt fram hugmyndir um framkvæmdir í hverfunum og svo kosið um þær og vinna þar með fyrirfram útdeildan pott fjármagns. Þetta þarf að útvíkka þannig að stærri hluta af útgjöldum borgarinnar sé útdeilt með þessum hætti, að fjármagn sé tryggt fyrirfram sem íbúar geta nýtt sér með lýðræðislegum ferlum. Til dæmis þarf að tryggja að upphæð sé lögð til hliðar fyrirfram fyrir algjörlega opnar hugmyndir sem íbúar hafa rétt á að leggja fram og fá afgreiddar innan borgarkerfisins.
Innri endurskoðun Reykjavíkurborgar hefur hafið mat á misferlisáhættu innan borgarkerfisins, sem fyrsta lið í aðgerðum til að draga úr hættunni á misferli og uppgötva það. Mikilvægt er að matið verði klárað og nýtt með markvissum hætti til úrbóta.
Tilheyrandi mál: | Kjarnastefna stjórnsýslu og lýðræðis |
---|
Útgáfur
# | Staða | Höfundur | Lýsing |
---|---|---|---|
1 | Samþykkt | Svafar |