Samþykkt: Samgöngustefna
SAMGÖNGUSTEFNA
Með tilvísun í:
Greinar §1 í grunnstefnu Pírata um gagnsæi og ábyrgð
Greinar §6 í grunnstefnu Pírata um beint lýðræði og sjálfsákvörðunarrétt
og með tilliti til:
Stefnu Pírata um stjórnsýslu á sveitarstjórnarstigi
álykta Píratar í Reykjavík að markmið samgöngustefnunnar séu:
- að skapa sjálfbært samgöngukerfi í samráði við íbúa.
að íbúar í öllum hverfum borgarinnar hafi raunhæft val um vistvæna samgöngumáta.
að lágmarka loft- og hávaðamengun af völdum samgangna.
að hámarka skilvirkni og öryggi samgangna.
Hagkvæmni, öryggi og flæði í samgöngukerfi borgarinnar skuli efla verulega á næstu árum.
Bæta skuli umhverfi og öryggi gangandi vegfarenda. Hönnun og skipulag hafi ávallt gangandi vegfarendur í forgangi;
2.1 í samráði við íbúa skuli opna varanlegar göngugötur í miðbænum.
2.2 Einnig skuli í samráði við íbúa skoða sambærilegar opnanir í öðrum hverfum borgarinnar.
2.3 Hugað skuli að því að breyta húsagötum í vistgötur í hverfum borgarinnar þar sem íbúar og hverfisráð óska eftir því.
2.4 Skoða skuli lækkun umferðarhraða og hraðalækkandi aðgerðir í íbúahverfum í samráði við íbúa og hverfisráð.
Hlutdeild aðstöðu fyrir hjólandi vegfarendur í fjárfestingum og uppbyggingu samgöngukerfisins verði aukin verulega.
3.1 árlegar framkvæmdir fyrir hjólandi vegfarendur verði auknar úr 260 í 800 milljónir.
3.2 skilgreindur verði sérstakur liður í fjárhagsáætlun fyrir endurhönnun borgargatna.
3.3 hugað verði að öryggi hjólandi í þeim íbúa- og vistgötum þar sem ekki verða sérstakir hjólastígar.
3.4 unnið verði með betri hjólastígatengingar við önnur sveitarfélög.
3.5 skoðað verði að leggja hjólahraðbrautir milli hverfiskjarna og/eða nágrannasveitarfélaga.
3.6 sett verði í ferli að finna samstarfsaðila að hjólaleigukerfi sem hægt að er víkka út frá miðbænum í öll hverfi borgarinnar og í samvinnu við Strætó bs.
Efla skuli almenningssamgöngur.
4.1 markvisst verði unnið að uppbyggingu Borgarlínu.
4.2 þjónusta Strætó verði aukin og strætisvagnakerfið tengt við Borgarlínu.
4.3 stefnt verði að því að stytta ferðatíma fólks sem notar strætó.
4.4 hugað verði sérstaklega að tengingu milli skóla og frístunda.
4.5 unnið verði að snjöllum samgöngum og stutt við sjálfkeyrandi umferð. Sú vinna fari alltaf fram á forsendum gangandi vegfarenda og öflugra almenningssamgangna.
Breyta skuli í víðu samráði og samstarfi hlutfalli bílaumferðar í samgöngukerfinu.
5.1 fólki verði gert auðveldara að ganga sinna erinda án þess að reiða sig á bíl
5.2 bæta skuli jafnvægi milli íbúðabyggðar og atvinnusvæða í skipulagi til að draga úr ferðafjölda
5.3 skoðaðir verði möguleikar á að minnka og dreifa umferðarálagi á helsta annatíma
Unnið verði markvisst að því að hvetja fólk til að minnka útblástur gróðurhúsalofttegunda í samgöngum með upplýsingatæknikerfum sem mæla árangur fólks og virkja keppnisskapið.
Með samþykkt Hverfisskipulags fylgi fjárfesting í endurhönnun skilgreindra borgargatna. Þar munu íbúar hverfisins forgangsraða því hvaða gata fer fyrst í framkvæmd.
Unnið skuli að aukinni samræmingu og samvinnu milli þjónustuaðila á sviði samgangna.
8.1 deilihagkerfið og almenningssamgöngur verði þróað saman í samræmi við húsnæðisuppbyggingu
8.2 skapa skuli sameiginlega innviði sem þjónustuaðilar á sviði samgangna geta nýtt sér til að samræma mismunandi ferðamáta
8.3 skoða skuli að ein samræmd leið verði til að borga fyrir samgöngur
Til að tryggja ákvörðunarvald sem næst notendum og samræmda sýn á vegakerfið er réttast að Reykjavíkurborg verði veghaldari á öllum vegum borgarlandsins í þéttbýli. Þessu verkefni fylgi nauðsynlegt fjármagn.
Tryggja skal aðgang reiðhesta og hestafólks að borginni með endurkomu reiðstíga.
Greinagerð:
Götur eru félagslegt almenningsrými sem þarf að endurheimta aftur til íbúa borgarinnar, þar hafa allir jafnan tilverurétt. Þær eru lífæðar samfélagsins og lykillinn að því að ná að bæta lífsgæði okkar allra. Skilvirkasta leiðin til þess að bæta lýðheilsu er að gera öllum kleift að ganga til sinna daglegu athafna. Þess vegna þarf skipulag og samgöngur að haldast í hendur til þess að skapa raunhæfan valmöguleika fyrir borgarbúa á því að nota vistvæna samgöngumáta.
Þar er Borgarlína hryggjarstykkið í framtíðarþróun samgangna og húsnæðisuppbyggingu í borginni. Hún er grundvallarforsenda þess að breyta ferðavenjum og jafna möguleika allra á aðgengi að öruggum, ódýrum og vistvænum samgöngum.
En götur eru ekki bara félagslegt rými sem við nýtum til þess að komast um borgina með ólíkum ferðamátum heldur hafa þær einnig möguleikann á því að verða hluti af grænu neti borgarinnar þar sem tré og gróður fá aukið pláss. Þannig njótum við öll góðs af lifandi grænu almenningsrými sem einkennist af ríkulegum gróðri og fjölbreyttu dýralífi. Beint fyrir utan dyrnar okkar er gatan og ef við þróum hana sem grænt almenningsrými verður það hluti af daglegu lífi okkar allra að dveljast í slíku umhverfi.
Þegar borgir voru að þróast var hesturinn ómissandi hluti af borgarlífinu en eftir að bíllinn kom til sögunnar hafa hestarnir horfið úr borgunum. Við höfum tækifæri til þess að hleypa hestunum aftur inn fyrir borgarmörkin með því að skoða markvisst staðsetningar þar sem íbúum borgarinnar er gefið tækifæri til þess að tengjast hestinum, óháð aldri og fararmáta einstaklinga.
Umferðin þarf að vera bæði skilvirk og örugg. Hún þarf að vera á okkar forsendum og hugsuð í framtíðarlausnum en ekki skammtímareddingum. Hversu hátt hlutfall af umferðinni viljum við að séu bílar? Hversu mikla bílaumferð viljum við hafa í umhverfinu okkar?
Saman getum við sett Reykjavík í alþjóðlega forystu með því að sameina samgöngur og náttúru í vaxandi borg. Með aukinni áherslu á vistvæna og hæga samgöngumáta með deilihagkerfið í forgrunni verður borgin öruggari, mengun minnkar og vistspor okkar sem þjóðar minnkar gríðarlega. Því við viljum vera viss um að við séum að gera nóg til þess að skerða ekki lífsgæði komandi kynslóða.
“Cities have the capability to provide something for everybody. Only because, and only when, they are created by everybody.”
Jane Jacobs
Tilheyrandi mál: | Samgöngustefna |
---|
Útgáfur
# | Staða | Höfundur | Lýsing |
---|---|---|---|
1 | Samþykkt | Svafar |