Samþykkt: Dýravelferð
Dýravelferð
Með tilliti til:
Greinar §1 í grunnstefnu Pírata um gagnrýna hugsun og upplýsta stefnu
Greinar §3 í grunnstefnu Pírata um friðhelgi einkalífisins
Greinar §4 í grunnstefnu Pírata um gagnsæi og ábyrgð
og með til hliðsjónar:
Stefnu Reykjavíkurborgar um líffræðilegan fjölbreytileika
Álykta Píratar í Reykjavík að:
Borgin opni dýraathvarf fyrir týnd og villt dýr með sólarhringsvakt.
Hlutverk meindýravarna verði endurskoðað.
a) Veiði á ref verði hætt, með tilliti til gildandi stefnu borgarinnar um líffræðilegan fjölbreytileika.
b) Minnka eigi veiði á mávum og öðrum fuglum sem eru skotnir með tilliti til stefnu um líffræðilegan fjölbreytileika.
c) Ráðist verði í átaksverkefni varðandi kanínur í borginni þar sem íbúar eru hvattir til þess að sleppa ekki kanínum lausum. Ekki verði heimilt að veiða kanínu, heldur verði þær fangaðar og þeim fundið nýtt heimili/griðastaður.
d) Selur verði friðaður. Ekki verði heimilt að veiða sel innan borgarmarkanna. Markvisst skuli unnið að fræðslu og aðgerðum til verndunar á sel í samstarfi við Selastofnun Íslands og Húsadýragarðinn.Stefnt skuli að því að bæta líf og velferð útigangs- og villikatta í Reykjavík í samstarfi við félagasamtök. Búsvæði útigangskatta verði kortlögð og aðbúnaður katta innan borgarmarka bættur og reynt að stemma stigu við fjölgun þeirra með aðferð TNR (trap, neuter. release).
Bæta skuli hundasvæði og hundagerði innan borgarmarkanna.
a) Hundasvæði/gerði þurfi að uppfylla lágmarksstærð og öryggiskröfur. Þeim verði fjölgað og markvisst hugað að viðhaldi.
b) Hundagerði skulu vera vönduð og innihalda leiktæki og aðra afþreyingu.
c) Í skipulagi á hverfum skuli gera ráð fyrir hundasvæðum/gerðum - huga þarf að lýsingu og aðbúnaði fyrir hundaeigendur til að þeir geti gengið vel um svæðið sjálfir.
Greinagerð:
Dýrahjálp eru frjáls félagasamtök sem rekin eru af sjálfboðaliðum og hafa síðustu 10 ár tekið inn á fósturheimili og sinnt týndum og yfirgefnum dýrum, svo og dýrum sem fjarlægð hafa verið af heimilum vegna vanrækslu eða illrar meðferðar. Þau kalla eftir samstarfi við sveitarfélögin og MAST, fjármögnun og betra samtali milli allra aðila vegna skorts á úrræðum og skýrum verkferlum sem miðast að heilsu og velferð dýra. Mikilvægt er að stofna dýraathvarf í samráði við þau samtök sem nú þegar vinna öflugt starf fyrir dýrin en skortir úrræði og fjármagn.
a) Refir hafa verið veiddir í borgarlandinu til að vernda mófugl. Það er tegundahyggja þegar við tökum hagsmuni einnar dýrategundar fram yfir aðra að nauðsynjalausu. Við leggjum til að refir verði friðaðir í borgarlandinu.
b) 5.305 mávar voru drepnir í Reykjavík árið 2017 samkvæmt ársskýrslu Meindýraeyðis. Þetta tengist m.a. ásókn þeirra í lífrænan úrgang sem urðaður er í Álfsnesi en fyrirhugað er að hætta þeirri urðun á næstu árum.
c) Kanínur eru friðaðar en meindýraeyðir fékk undantekningu og drap 70 kanínur í Reykjavík árið 2017.
d) Landsel hefur fækkað gríðarlega á Íslandi síðan talningar hófust fyrst árið 1980 en þá taldist stofninn um 45 þúsund dýr en í dag einungis um 15 þúsund dýr. Við viljum friða sel og að hætt verði að sækja villta seli til að halda í Húsdýragarðinum. Húsdýragarðurinn ætti þess í stað að sinna selum sem bjargað hefur verið við strendur Íslands, bæta aðstæður sela verulega í garðinum - eða að öðrum kosti hætta að halda þá.Með því að samþykkja ketti sem hafa alla sína tíð búið utandyra sem villt dýr er félagasamtökum sem vinna að því að hugsa um kettina, takmarka dreifingu þeirra með mannúðlegum leiðum (T-N-R til dæmis) heimilað að starfa og sleppa villtum dýrum aftur út í náttúruna ef ekki er hægt að venja dýrið við manninn. Villikettir hafa t.a.m. sinnt þessu um árabil og hafa gert samstarfssamning við Hafnafjarðarbæ með góðum árangri. Við viljum að Reykjavíkurborg geri svipaðan samstarfssamning.
Nýlegar tölur sýna að 40% borgarbúa eru gæludýraeigendur og eru hundaeigendur þá í stærsta hlutfalli. Eins og staðan er núna þá eru hundaeigendur í Reykjavík að greiða um 35 milljónir á ári í gjöld til borgarinnar. Því fé er ráðstafað til að halda úti þremur starfsmönnum og til að greiða þriðjung af launum framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, sem er með 27 starfsmenn, og er sú greiðsla því ekki í samræmi við hlutfall hundaeftirlitsins af starfsemi stofnunarinnar. Lausagönguhundum sem tilkynntir eru til hundaeftirlitsins hefur á undanförnum árum fækkað gríðarlega, þó að hundum sé að fjölga. Árið 2010 var hundaeftirlitið að fanga 210 hunda á einu ári, en árið 2016 voru þeir komnir niður í 62. Ástæðan er sú að Hundasamfélagið var stofnað á Facebook og í gegnum þann hóp eru týndu hundarnir að komast aftur til síns heima. 521 týndur hundur hefur verið auglýstur á Hundasamfélaginu það ár og er sá hópur smátt og smátt að taka yfir hlutverk hundaeftirlitsmanna. Hundaeigendur vilja annað hvort fella niður hundagjöldin eða fá einhverja þjónustu fyrir að greiða það á borð við hundagerði og svæði sem eru vel við haldið og skemmtileg fyrir hunda.
Tilheyrandi mál: | Dýravelferð |
---|
Útgáfur
# | Staða | Höfundur | Lýsing |
---|---|---|---|
1 | Samþykkt | XandraBriem |