Samþykkt: Húsnæðisstefna
HÚSNÆÐISSTEFNA PÍRATA Í REYKJAVÍK
Með tilvísun í:
- Grein §2 í grunnstefnu Pírata um borgararéttindi
og með tilliti til:
Framleiðni á byggingarmarkaði:
Meistararitgerð eftir Ævar Rafn Hafþórsson, maí 2016:
Mat á sviðsmyndum um þróun nýrrar byggðar.
álykta Píratar í Reykjavík að:
Grundvallarmarkmið húsnæðisstefnunnar eru að:
- Allir hafi þak yfir höfuðið.
- Koma jafnvægi á húsnæðismarkaðinn til langs tíma.
- Öll hverfi borgarinnar séu skipulögð þannig að þar geti íbúar lifað, starfað og leikið.
- Auka aðgengi að húsnæði á viðráðanlegu verði.
- Leggja áherslu á félagslega blandaða byggð á öllum uppbyggingarsvæðum og í öllum hverfum borgarinnar.
- Styðja við sjálfbæra þróun og hagkvæma uppbyggingu borgarinnar.
Leiðir að markmiðum:
Stefnt verði að því að lágmark 25% íbúða verði miðaðar við þarfir þeirra sem ekki vilja eða geta lagt mikið fé í eigið húsnæði.
Til þess að mæta uppsafnaðari eftirspurn á húsnæðismarkaði þarf að auka framboð á húsnæði með því að auka framleiðni og stytta byggingartíma. Vinna verður markvisst að jafnvægi á húsnæðismarkaði.
Lögð verði sérstök áhersla á byggingu lítilla íbúða.
Stutt verði við nýja framleiðslutækni í byggingariðnaði, til að mynda fjöldaframleidd einingarhús. Unnið verði með þær lausnir í skipulagsáætlunum borgarinnar.
Gera þarf iðn- og tækninámi hærra undir höfði til að laða að fleira fólk til starfa í þeim greinum.
Ríkari áhersla verði lögð á þéttingu byggðar á áhrifasvæði Borgarlínu heldur en núverandi áætlanir gera ráð fyrir.
Í öllum hverfum borgarinnar verði jafnframt lögð áhersla á þéttingu byggðakjarna og fjölgun íbúða sem haldist í hendur við gönguvænt umhverfi og tengingu við helstu samgönguæðar.
Fjölgað verði félagslegum íbúðum í Reykjavík og unnið í sameiningu að því að öll sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu axli sinn hluta ábyrgðarinnar á því að tryggja framboð á félagslegu húsnæði.
Hækka verði stofnframlag borgarinnar til uppbyggingar almennra íbúða. Tryggja þarf að þeir sem þiggja slík stofnframlög uppfylli ákveðnar kröfur af hálfu borgarinnar í samræmi við stefnumörkun hennar og markmið.
Styrkja þarf stöðu óhagnaðardrifinna leigufélaga og annarra íbúadrifinna húsnæðisúrræða. Einnig að bæta rétt leigjenda.
Skilgreint verði lágmarkshlutfall íbúabyggðar á hverju skipulagssvæði fyrir sig og takmarka möguleika á að breyta íbúðarhúsnæði í atvinnuhúsnæði.
Tryggja þarf að eignarhald á húsnæði safnist ekki á of fáar hendur.
Stuðlað verði að uppbyggingu vistvænnar íbúðabyggðar með áherslu á fjölbreytt framboð á búsetumöguleikum.
Greinargerð:
Í öllum skipulagsáætlunum skal gera ráð fyrir húsnæði sem hentar öllum félagshópum.
Skipulagsmál eru langtímaverkefni og stöðugleiki í hagkerfinu er því mikilvægur. Óstöðugleiki minnkar framleiðni. Fyrirsjáanleiki er því mikilvægur fyrir áætlanagerð og fjárfestingar. Huga þarf að því að endurskoða skipulagslög nr.123/2010 til þess að koma í veg fyrir að hægt sé að sitja á byggingarheimildum óeðlilega lengi án þess að hefja uppbyggingu. Það er meðal annars hægt með því að skilyrða gildistíma byggingaheimilda.
Að lögð verði sérstök áhersla á byggingu lítilla íbúða til að mæta uppsafnaðri þörf og koma til móts við lýðfræðilegar breytingar. Hagkvæmara er fyrir byggingaraðila að byggja stærri íbúðir og þess vegna er uppsöfnuð þörf fyrir minni íbúðir. Það þarf markvisst að bæta og er hægt að gera í skipulagsáætlunum borgarinnar.
Endurskoða þarf núverandi byggingarreglugerð til einföldunar og lækkunar byggingarkostnaðar, í samráði við hagsmunaaðila. Það sé gert til að auka framleiðni byggingariðnaðarins og jafna samkeppnisstöðu stærri og minni aðila.
Taka þarf tillit til umhverfissjónarmiða við skipulag hverfa og byggingu húsa.Sem stendur erum við ekki sjálfbær í fjölgun iðn- og tæknimenntaðs fólks á markaði. Stuðla þarf að aukinni endurnýjun með því að gera þeim greinum hærra undir höfði í menntastofnunum landsins.
Borgarlína er áætlun um bæði almenningssamgöngur og uppbyggingu húsnæðis. Þéttari byggð og aukið aðgengi að almenningssamgöngum stuðlar að félagslegu réttlæti, skilvirkari samgöngum og gefur fleirum raunhæft val á vistvænum ferðamáta. Það er leiðin sem hefur hvað jákvæðust áhrif á samfélag, efnahag og náttúru.
Hafa skal aukið samráð við íbúa við gerð húsnæðisáætlana.
Í dag er eignasafn sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu af félagslegu húsnæði mjög ólíkt. Koma þarf til móts við stöðuna eins og hún er í dag og þar þurfa ríki og sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu að vinna sameiginlega að velferð þeirra sem þurfa á félagslegu húsnæði að halda.
Markmið laga um almennar íbúðir er að bæta húsnæðisöryggi fjölskyldna og einstaklinga sem eru undir tekju- og eignamörkum með því að auka aðgengi að öruggu og viðeigandi leiguhúsnæði. Með því er stuðlað að því að húsnæðiskostnaður sé í samræmi við greiðslugetu leigjenda. Með lögum þessum er ríki (18%) og sveitarfélögum (12%) heimilt að veita stofnframlög til byggingar og kaupa á almennum íbúðum til að stuðla að því að í boði verði leiguíbúðir á viðráðanlegu verði. Leggja þarf því aukna áherslu á samvinnu við verkalýðsfélög og önnur óhagnaðardrifin félög við uppbyggingu slíks húsnæðis. Einnig þarf að huga að aukinni uppbyggingu fyrir námsmenn, ungt fólk, innflytjendur, aldrað fólk, fatlað fólk og sérstaklega þá sem síður eru færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum félagslegra aðstæðna eða fjárhagsvanda.
Mótuð verði skipulagsviðmið fyrir móttakendur stofnframlaga sem stuðla að lífsgæðum íbúa sem þar búa. Lóðum sem er úthlutað samkvæmt lögum um almennar íbúðir skulu ávallt vera staðsettar við góðar almenningssamgöngur. Hverri íbúð fylgi aðgangur í almenningssamgöngur og mögulega deilibíla. Endurskoða þarf lög um almennar íbúðir með það að markmiði að hækka stofnframlögin og til þess þau húsin sem byggð eru undir þeim lögum geti haft verslanir og þjónustu á jarðhæð. Þannig er þjónusta við íbúana eins og best verður á kosið og húsnæði fyrir alla félagshópa getur risið innan áhrifasvæðis Borgarlínu.Í samráði við ríkið skal unnið að lögum og reglusetningu sem bæta rétt leigutaka og stöðu þeirra til að sækja rétt sinn.
Tryggja þarf visst lágmarkshlutfall íbúabyggðar á hverju skipulagssvæði, til að svæði borgarinnar glati ekki aðdráttarafli sínu og þjónustu við íbúa.
Auka þarf framboð húsnæðis og draga úr fákeppni á húsnæðismarkaði. Aukin samkeppni mun stuðla að lægra kaup- og leiguverði.
Skoða þarf möguleika á uppbyggingu vistvænnar íbúðabyggðar á Kjalarnesi þar sem lögð er áhersla á vistrækt, nálægð við dýr og náttúru. Mikilvægt er að auka sjálfbærni hverfisins með auknum íbúafjölda og betri þjónustu. Stefna skal að fjölbreyttara framboði á búsetumöguleikum innan borgarmarkanna.
Tilheyrandi mál: | Húsnæðisstefna |
---|
Útgáfur
# | Staða | Höfundur | Lýsing |
---|---|---|---|
1 | Samþykkt | XandraBriem |