Samþykkt: Fjárhagsaðstoð Reykjavíkurborgar
Fjárhagsaðstoð Reykjavíkurborgar
Hluti af velferðarstefnu Pírata í Reykjavík
Með tilvísun í:
Grein §2 í grunnstefnu Pírata um borgararéttindi
Grein §4 í grunnstefnu Pírata um gagnsæi og ábyrgð
Grein §5 í grunnstefnu Pírata um upplýsinga- og tjáningarfrelsi
Grein §6 í grunnstefnu Pírata um beint lýðræði og sjálfsákvörðunarrétt
og með tilliti til:
Upplýsingastefnu Reykjavíkurborgar
Þjónustustefnu Reykjavíkurborgar
Laga um félagsþjónustu sveitarfélaga
álykta Píratar í Reykjavík að:
Markmið fjárhagsaðstoðar borgarinnar sé að vera neyðarúrræði til skamms tíma til að aðstoða fólk við að komast úr tímabundnum aðstæðum. Hún skuli vera næg til að mæta grunnþörfum fólks og tryggja mannhelgi.
Reykjavíkurborg skuli við ákvörðun á grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar fylgja leiðbeinandi reglum um fjárhagsaðstoð, þar sem hún miðast við samanlagðar greiðslur örorkulífeyris, tekjutryggingar og heimilisuppbótar eins og þær eru á hverjum tíma. Leitast skuli við að hækka upphæðir fjárhagsaðstoðar til framfærslu, til jöfnunar við atvinnuleysisbætur og greiðslur almannatrygginga.
Það ætti alltaf að vera fyrsti forgangur að styrkja fólk á fjárhagsaðstoð til sjálfshjálpar.
Styðja ætti með öllum ráðum við að þeir sem eiga rétt á því að vera í almannatryggingakerfinu fái þar skjóta úrlausn.
Halda skuli tekjutengingum og skerðingum á fjárhagsaðstoð í lágmarki.
Tengingu við tekjur maka skuli afnema með öllu.
Skerðing vegna annarra tekna skuli vera hlutfallsleg en ekki króna á móti krónu, upp að ákveðnu hámarki.
Búseta með öðrum komi ekki til lækkunar á upphæð fjárhagsaðstoðar.
Ekki skuli skerða upphæð fjárhagsaðstoðar vegna fíknivanda.
Virkniúrræði skulu ekki vera skilyrði fyrir fjárhagsaðstoð. Hvetja og styðja skuli einstaklinga til að nýta sér öll slík úrræði sem eru í boði.
Fjárhagsaðstoð til framfærslu skal ekki vera skilyrði fyrir fjárhagsaðstoð vegna sérstakra aðstæðna. Í stað þess skal meta þörf umsækjanda til slíkrar fjárhagsaðstoðar á grundvelli mælanlegra kvarða á fjárhagslegum aðstæðum.
Afnema skal aldurshámark vegna námsstyrks og draga úr skilyrðum fyrir slíkum styrkjum. Áherslan sé á að draga úr brottfalli og efla menntastig borgarbúa.
Námsstyrkur skal standa þeim til boða sem stunda lánshæft nám á framhaldsskólastigi, svosem iðnnám, en geti ekki fengið námslán hjá Lánasjóði Íslenskra lánsmanna sökum skuldastöðu eða annarra viðlíka vandamála.
Reykjavíkurborg sé opin fyrir því að skoða útfærslur á skilyrðislausri framfærslu í samráði og samstarfi við ríkið.
Greinargerð:
Samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga ber sveitarfélögum að tryggja að íbúar geti séð fyrir sér og sínum. Ein af mikilvægustu leiðunum að þessu markmiði er fjárhagsaðstoð. Upphæðir fjárhagsaðstoðar og þau skilyrði sem fólk þarf að uppfylla til að eiga rétt á henni eru háð pólitískri ákvörðun. Píratar í Reykjavík líta svo á að núverandi grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar sé langt frá þeirri framfærslu sem einstaklingur og fjölskyldur þurfa til að framfleyta sér og lifa mannsæmandi lífi og að úr því þurfi að bæta. Fjárhagsaðstoð á að standa öllum til boða sem öryggisnet, til að hjálpa fólki úr tímabundnum aðstæðum, og henni á að fylgja stuðningur til sjálfshjálpar. Hvatar og stuðningur eru betri leið en leið skerðingar sem ætlað er að þvinga fólk upp úr aðstæðum sínum. Draga þarf úr hvers kyns tekjutengingum á fjárhagsaðstoð. Til lengri tíma getur verið áhugavert fyrir Reykjavíkurborg að færa fjárhagsaðstoð yfir í einhvers konar form af skilyrðislausri framfærslu (borgaralaunum) en slíkt þyrfti að sjálfsögðu að útfæra í samstarfi við ríkið.
Tilheyrandi mál: | Fjárhagsaðstoð Reykjavíkurborgar |
---|
Útgáfur
# | Staða | Höfundur | Lýsing |
---|---|---|---|
1 | Samþykkt | epli |