Samþykkt: Aðstoð við jaðarsetta einstaklinga
Stefna vegna jaðarsetningar einstaklinga
Hluti af velferðarstefnu Pírata í Reykjavík
Með tilvísun í:
Grein §2 í grunnstefnu Pírata um borgararéttindi
Grein §4 í grunnstefnu Pírata um gagnsæi og ábyrgð
Grein §5 í grunnstefnu Pírata um upplýsinga- og tjáningarfrelsi
Grein §6 í grunnstefnu Pírata um beint lýðræði og sjálfsákvörðunarrétt
og með tilliti til:
Upplýsingastefnu Reykjavíkurborgar
Þjónustustefnu Reykjavíkurborgar
Laga um félagsþjónustu sveitarfélaga
álykta Píratar í Reykjavík að:
Aðstoð við viðkvæma eða jaðarsetta einstaklinga skuli ávallt ganga út frá valdeflingu og skaðaminnkun. Virkt samráð skuli haft við viðkvæma eða jaðarsetta einstaklinga í stefnumótun og aðstoð er þá varðar.
„Húsnæði fyrst”-verkefnið er nauðsynleg forsenda valdeflingar og aðstoðar við heimilislausa einstaklinga með vímuefnavanda og/eða geðrænar áskoranir.
Koma skuli upp sértæku búsetuúrræði fyrir konur með tvígreindan vanda.
Reykjavíkurborg skuli standa fyrir tryggu neyslurými í samstarfi við heilbrigðisráðuneytið, Lögreglu og Rauða krossinn í Reykjavík. Tryggja beri að lögregla sýni skilning gagnvart þörf á slíku rými.
Efla beri færanlega nálaskiptaþjónustu í Reykjavík og tryggja að öll úrræði sem aðstoða einstaklinga sem nota vímuefni í æð verði með staðbundna nálaskiptaþjónustu.
Félagsþjónustan vinni markvisst gegn félagslegri einangrun jaðarsettra einstaklinga og fordómum í þeirra garð.
Borgin bjóði upp á sérstök úrræði til að aðstoða einstaklinga sem sökum geðrænna eða félagslegra áskorana eiga erfitt með að sækja þau úrræði sem þau eiga rétt á.
Reykjavíkurborg skuli vera leiðandi í að tryggja fólki með skerta starfsgetu hlutastörf við hæfi, bæði hjá borginni og í samstarfi við fyrirtæki, hagsmunasamtök og félagasamtök.
Greinargerð:
Markmið þessarar stefnu er fyrst og fremst valdefling og skaðaminnkun. Píratar telja mikilvægt að notast við þær aðferðir sem sýnt hefur fram á að beri árangur í baráttu við félagsleg vandamál á borð við misnotkun vímuefna, heimilisleysi og jaðarsetningu. Þá er alltaf mikilvægast að finna þá þætti sem viðhalda ástandinu sem fyrir er og ýta fólki frá sjálfshjálp. Veita þarf alla þá aðstoð sem nauðsynleg er til að vinna bug á þessum þáttum.
Nálaskiptiþjónusta og neyslurými eru mikilvæg og bjarga lífum. Þau auka öryggi fólks í vanda og byggja upp traust við þjónustu borgarinnar. Skaðaminnkun snýst um að koma fólki inn úr kuldanum og í skjól þar sem dregið er úr hættunum sem lífsstíll þess felur í sér - en því jafnframt gefinn kostur á að leita sér hjálpar og meðferðar á sínum forsendum.
Þegar fólk er heimilislaust er margsannað að mikilvægasta úrlausnarefnið er að koma því undir þak, enda rekur neyðin fólk annars til örþrifaráða eða til að leita skjóls þar sem ekki er öryggi, gengið er gegn mannhelgi þeirra eða ýtt undir fíkniefnavanda. Þegar fólk er komið í húsaskjól er hægt að vinna áfram með önnur vandamál þess og áskorunarefni.
Þeir einstaklingar sem sökum annarra áskorana, hvort sem þær eru félagslegar eða geðrænar, geta ekki borið sig eftir þeim úrræðum sem komið gætu í veg fyrir heimilisleysi, ættu að fá þá aðstoð sem þarf til að brúa það bil. Það er bæði siðferðislega rétt og kemur einnig í veg fyrir frekari skaða síðar. Allur útlagður kostnaður í forvirk úrræði sem koma í veg fyrir vandann skilar sér margfalt til baka borið saman við kostnaðinn af því að gera ekki neitt fyrr en allt er farið á versta veg. Þannig má líta á skaðaminnkandi úrræði sem forvarnir í víðum skilningi.
Hlutastörf til einstaklinga eftir getu og hæfni þeirra eru þeim mikilvæg, þar sem það er lýðheilsuþáttur að fá að vera hluti og þátttakandi í eigin nærsamfélagi. Langflestir vilja hafa hlutverk og tilgang í sínu samfélagi ef slíkt er í boði.
Tilheyrandi mál: | Aðstoð við jaðarsetta einstaklinga |
---|
Útgáfur
# | Staða | Höfundur | Lýsing |
---|---|---|---|
1 | Samþykkt | epli |