Samþykkt: Notendamiðað aðalskipulag
Notendamiðað aðalskipulag
Með tilvísun í:
Grein §1 í grunnstefnu Pírata um gagnrýna hugsun og upplýsta stefnu
Grein §4 í grunnstefnu Pírata um gagnsæi og ábyrgð
Grein §5 í grunnstefnu Pírata um upplýsinga og tjáningafrelsi
Grein §6 í grunnstefnu Pírata um beint lýðræði og sjálfsákvörðunarrétt
og með tilliti til:
- Stefnu Pírata um stjórnsýslu á sveitarstjórnarstigi ( https://x.piratar.is/polity/1/document/75/](https://x.piratar.is/polity/1/document/75/) )
álykta Píratar í Reykjavík:
Markmið stefnunnar eru að:
skapa sátt milli íbúa og borgaryfirvalda um aðalskipulag.
setja skýrari kröfur á Reykjavíkurborg um að upplýsa íbúa um forsendur og ferla aðalskipulags
stuðla að samvinnu við íbúa um framfylgd aðalskipulags
leggja aukna áherslu á lýðræði og umhverfismál í aðalskipulagi
Leiðir að markmiðum:
- Endurskoða þarf aðferðafræði gildandi aðalskipulags með það að markmiði að auka lýðræði, þátttöku íbúa og gagnsæi í ákvarðanatöku.
Aðalskipulag skal vera notendamiðað og unnið á forsendum allra þeirra sem það nota.
Ef ráðist verður í heildarendurskoðun aðalskipulags verði auknar áherslur lagðar á sjálfbærni, vistvænar samgöngur og náttúruvernd. Allt skipulag innan borgarmarkanna miði að því að bæta heilsu, t.d. með því að styrkja þætti sem leiða til þess að fólk geti farið erinda sinna gangandi í daglegu lífi.
Skoða möguleika á þróun á formi aðalskipulags í átt að því að það sé unnið á gagnvirku netsvæði í samræmi við upplýsinga- og þjónustustefnu Reykjavíkurborgar.
Ef heildarendurskoðun á aðalskipulagi á sér stað öðlist það ekki formlegt gildi fyrr en það hefur verið samþykkt bæði af kjörnum fulltrúum og af íbúum Reykjavíkur í bindandi íbúakosningu.
Stuðlað verður að því að framfylgd aðalskipulags sé sameiginlegt markmið íbúa og yfirvalda.
Setja skal mælanlega kvarða á eftirfylgni aðalskipulags sem verði aðgengilegir íbúum.
Þróaðir verði rafrænir miðlar og/eða öpp fyrir íbúa sem virkja þá með jákvæðum og skemmtilegum hætti til þátttöku við þróun og framfylgd aðalskipulags.
Greinargerð:
Aðalskipulag Reykjavíkur 2010 - 2030 er lögformlega bundin stefna borgarstjórnar. Það er verkfæri sem stýrir öllum fjárfestingum og allri uppbyggingu innan borgarmarkanna. Þar er skilgreint hvað á að vernda og hvað á að nýta. Einnig er þar fjallað um réttindi og skyldur bæði borgarinnar og íbúa hennar.
Hér vilja Píratar opna ferla og auka aðkomu almennings. Með nútíma upplýsingatækni er lítið mál að efna til rafrænna kosninga. Þannig gæti aðalskipulag einnig verið staðfest af íbúum í bindandi kosningu. Það valdeflir íbúa borgarinnar og gerir skýrari kröfu um upplýsingagjöf og rökstuðning af hálfu hins opinbera. Aðalskipulagið verður þannig stefna okkar allra. Aðalskipulag á að vera sáttmáli milli Reykjavíkurborgar og íbúa hennar um framtíðina.
Endurskoða verður aðferðafræði og form aðalskipulags með það að markmiði að auka almenna notkun þess, skilvirkni og gagnsæi í ákvarðanatöku. Aðalskipulag á að vera notendamiðað, þ.e.a.s. hannað og skipulagt út frá þörfum og sjónarhorni notenda. Þannig verður auðvelt að nálgast allar upplýsingar, skilmála og gögn, hvort sem notuð er tölva, bók eða sími.
Með aðalskipulagi sem íbúar hafa tekið þátt í að móta og samþykkja er skapaður grundvöllur til sameiginlegrar framfylgni íbúa og borgaryfirvalda. Þannig sköpum við skemmtilegri, öflugri og sjálfbærari borg.
Tilheyrandi mál: | Notendamiðað aðalskipulag |
---|
Útgáfur
# | Staða | Höfundur | Lýsing |
---|---|---|---|
1 | Samþykkt | epli |