Samþykkt: Dýravelferðarstefna Pírata í Reykjavík
Dýravelferðarstefna Pírata í Reykjavík
Leiðarljós
-Stöndum vörð um að dýr og dýraeigendur fái áfram sess sem verðmætur hluti af samfélaginu.
-Tryggjum velferð gæludýra, villtra dýra og líffræðilegan fjölbreytileika.
-Einföldum, bætum og aukum skilvirkni þjónustu við dýr og dýraeigendur.
-Eflum starf Dýraþjónustunnar og upplýsingagjöf um þá þjónustu.
-Gerum ráð fyrir aðbúnaði fyrir dýr og dýraeigendur við allt skipulag.
-Gerum breytingar í stjórnsýslunni með velferð dýra og þjónustu við dýr og dýraeigendur í huga.
-Bætum þjónustu við dýr og gæludýraeigendur-
- Þróum áfram Dýraþjónustu Reykjavíkur og upplýsum borgarbúa um tilvist hennar, tilgang og þjónustu.
- Bætum útisvæði og hundagerði innan borgarmarkanna sem uppfylli lágmarksstærð og öryggiskröfur. Fjölgum þeim og hugum markvisst að viðhaldi.
- Hugum að góðum dýrasvæðum við upphaf skipulags í hverfum, ekki alltaf sem eftiráhugsun.
- Við skipulag hverfa skal gera ráð fyrir staðsetningu hundasvæða og hundagerða þar sem er að finna skjól, lýsingu og nægan aðbúnað fyrir hunda og hundaeigendur. Tryggjum að hundagerði séu nægilega stór og þar sé auðgandi umhverfi fyrir hundinn.
- Unnið sé að því að Geirsnef geti áfram virkað sem hundasvæði í gegnum Borgarlínubreytingar ellegar komi annað og jafn gott svæði í staðinn.
- Bjóðum upp á lausagöngusvæði hunda í öllum hverfum. Lögð sé áhersla á fjölgun slíkra svæða í hverfum áður en breytingar verða á Geirsnefi.
- Höfum dýramál í huga varðandi þéttingu byggðar og almenningssamgöngur.
- Þróum áfram Húsdýragarðinn sem dýraathvarf.
- Hvetjum til reglulegra heimsókna gæludýra á hjúkrunarheimili, í þjónustuíbúðir og á umönnunarstaði þar sem það er sannað að það eykur hamingju fólks að umgangast dýr.
- Fræðum einstaklinga sem búa í húsnæði á vegum borgarinnar um réttindi, ábyrgð og tækifæri til gæludýrahalds og gagnsemi þess en í dag er engin takmörkun á gæludýrahaldi í félagslegu húsnæði og þjónustuíbúðum umfram fjöleignarhúsalög.
- Tryggjum að þjónusta þegar dáin gæludýr finnast í borgarlandinu sé góð og nærgætin.
-Aukum samstarf við félagasamtök-
- Styðjum við grasrótarsamtök í dýravelferð.
- Gerum þjónustusamninga við dýraverndarsamtök.
- Styrkjum aðgengi félagasamtaka að geymslum fyrir dýr í þeirra umsjá.
-Stuðlum að úrbótum í stjórnsýslu og utanumhaldi dýraverndar-
- Styrkjum stafræna umbreytingu, tæknivæðingu, nýsköpun og þróun í þjónustu við gæludýraeigendur.
- Tryggjum góðar upplýsingar um þjónustu við dýr og dýraeigendur.
- Styrkjum heimildir og tækifæri Dýraþjónustunnar til að geta tekið á óábyrgum gæludýraeigendum.
- Starfsemi meindýravarna verði endurskoðuð með tilliti til dýravelferðarsjónarmiða.
- Stuðlum að samstarfi sveitarfélaga á milli um dýraþjónustu.
- Styðjum við hlutverk hjálpardýra og vinnum að því að hjálparhundar fái vottun og svipuð réttindi og blindrahundar. Einnig verði gildi annarra hjálpardýra virt í sem flestum aðstæðum innan borgarinnar sem eru í dag ekki tilgreind í lögum og þar með réttindalaus.
- Beitum okkur fyrir því að minnka misræmi í hundasamþykktum milli sveitarfélaga eins og fjölda leyfðra hunda á heimili.
- Nýtum samþykktir sveitarstjórna og greinargerðir í aðalskipulagi til að ná fram markmiðum um dýravernd.
-Tryggjum velferð villtra dýra og stöndum vörð um líffræðilegan fjölbreytileika-
- Bætum líf og velferð útigangs- og villikatta og villikanína í samstarfi við félagasamtök.
- Búsvæði útigangskatta verði kortlögð og aðbúnaður katta innan borgarmarka bættur og reynt að stemma stigu við fjölgun þeirra með aðferð TNR (trap, neuter, release).
- Búsvæði villikanína verði kortlögð og reynt að stemma stigum við fjölgun. Ráðumst í átaksverkefni varðandi kanínur í borginni þar sem íbúar eru hvattir til þess að sleppa ekki kanínum lausum. Ekki verði heimilt að veiða kanínu, heldur verði þær fangaðar og þeim fundið nýtt heimili eða griðastaður.
- Innleiðum gildandi stefnu borgarinnar um líffræðilegan fjölbreytileika með því meðal annars að veiði á ref verði hætt og minnka veiði á mávum og öðrum fuglum.
- Áfram verði unnið að fræðslu og aðgerðum til verndunar á sel, sem búið er að friða innan borgarmarkanna, í samstarfi við Selastofnun Íslands og Húsadýragarðinn.
Við samþykkt þessarar tillögu falla úr gildi eftirfarandi stefnur:
Stefnur frá 2018 sem fjalla um dýravelferðarmál:
Dýravelferð: https://x.piratar.is/polity/102/issue/371/
Dýraþjónusta Reykjavíkur: https://x.piratar.is/polity/102/issue/370/
Tilheyrandi mál: | Dýravelferðarstefna Pírata í Reykjavík |
---|
Útgáfur
# | Staða | Höfundur | Lýsing |
---|---|---|---|
1 | Samþykkt | Gormur | Allar stefnur vegna kosninga 2022: Fundargerð félagsfundar: https://github.com/piratar/Skjalasafn/blob/master/Fundargerdir/Adildarfelog/Piratar%20i%20Reykjavik/FelagsfundurPiR1-4-2022.pdf |