Samþykkt: Mannréttinda- og velferðarstefna Pírata í Reykjavík
Leiðarljós:
-Virða skal mannréttindi í hvívetna og tryggja að í allri þjónustu sveitafélagsins sé komið fram við fólk af virðingu og vinsemd
-Við eigum öll rétt á sjálfstæðu lífi með reisn óháð fötlun, færni, aldri eða stöðu að öðru leyti
-Stöndum vörð um réttindi fólks af erlendum uppruna
-Velferðarþjónusta sé aðgengileg og veitt á forsendum notenda
-Þjónustuveitendur komi fram við notendur sem fólk en ekki vandamál
-Stoppa skal í kerfisgötin svo fólk falli ekki milli kerfa
-Öllum skal tryggt jafnt aðgengi að samfélaginu með jöfnum tækifærum
-Notumst við hugmyndafræði skaðaminnkunar með fordómaleysi og umburðarlyndi í allri velferðarþjónustu, fræðsla er betri en hræðsla
-Engin skal þurfa að búa við fátækt
-Eflum samstarf sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og annarra aðila í velferðarþjónustu
-Í allri starfsemi skal huga að jafnréttissjónarmiðum í víðum skilningi
-Ofbeldi, einelti og áreitni skal aldrei líðast
-Vinnum gegn fordómum og stuðlum að fjölbreytni innan samfélagsins
Markmið:
- Stöndum vörð um lýðræði og samráð: Ekkert um okkur án okkar -
Notendur fái tækifæri til að móta velferðarþjónustu með notendaprófunum og merkingarbæru samráði á öllum stigum þjónustuhönnunar.
Til að samráð sé raunverulegt þarf það að fara fram nógu snemma í stefnumótun til að hafa áhrif á forsendur og nálgun.
- Notendaráðum starfandi á vegum sveitarfélagsins sé gert hátt undir höfði og markvisst leitað eftir samráði við þau á mismunandi stigum málsmeðferðar.
- Nútímavæðum þjónustu á forsendum notandans frekar en kerfisins, afstofnanavæðum og tryggjum sjálfsákvörðunarrétt -
- Þjónusta skal vera persónumiðuð og sveigjanleg. Hana skal veita af virðingu fyrir aðstæðum þeirra sem nota hana og skulu þau ráða för í vegferð sinni.
- Notandi á ekki að þurfa að vera sérfræðingur í kerfinu.
- Valdeflum og aukum sjálfræði fólks og endurskoðum stuðningskerfin með tilliti til að grípa fólk sem þarf hjálp, meðal annars hvað varðar reglur um tekjutengingar maka sem útiloka of marga í dag frá aðstoð.
- Sköpum kerfi sem efla einstaklinga til sjálfshjálpar og aðstoða við að taka stjórn á eigin lífi.
- Fjölgum NPA samningum í takt við þörf og vinnum að því að ríkið standi við sinn hluta fjármögnunarinnar til lengri tíma.
- Veitum fólki heimili frekar en vistun. Fólk á að ráða yfir sínu heimili og hafa aðgengi að félagslegu rými.
- Verjum sjálfstæða búsetu í einkarými. Það er ekki boðlegt að bjóða fólki upp á tvímenningsherbergi, þjónusta skal miða að þörfum einstaklingsins og pörum skal gefinn kostur á að búa saman.
- Tryggjum samþætta þjónustu milli mismunandi stofnana og kerfa hvort sem þau eru á vegum ríkis, sveitarfélaga eða annarra, svo fólk sé ekki skilið eftir í óvissu.
- Göngum til samninga við ríkið um þjónustu við eldra fólk og tryggt að ekki sé uppi óvissa um fyrirkomulag, fjármögnun, rekstur eða ábyrgð á henni til að tryggja samfellu í þjónustu við eldra fólk.
- Skoðum áhrif þess á gæði þjónustu og kostnað að flytja verkefni heilsugæslu til sveitarfélaga. Tryggjum að tekjustofnar fylgi verkefnum sem flytjist til sveitarfélaga
- Nútímavæðum þjónustu, uppfærum starfsaðferðir og nýtum tæknina þegar hún á við með netöryggi íbúans að leiðarljósi til að auðvelda líf fólks og draga úr sóun og mengun.
- Tryggja verður að aðgengi ólíkra hópa skerðist ekki þegar þjónusta er gerð stafræn. Til dæmis með aðstoð í gegnum síma, netspjall, á þjónustumiðstöð eða með því að fá heimsókn.
- Gerum kerfi sem veita velferðarþjónustu gagnsærri og skiljanlegri og aukum yfirlit yfir þjónustuveitingu. Notendur eigi rétt á ráðgjöf um réttindi sín og þá þjónustu sem er í boði.
- Endurskoðum samninga við innheimtufyrirtæki með það að markmiði að innheimta af einstaklingum sé framkvæmd af nærgætni og mannúð.
- Stuðlum að öflugum forvörnum og skaðaminnkun -
- Stuðlum að forvörnum til að efla lýðheilsu og lífsgæði fólks, vinna gegn jaðarsetningu og einangrun, sporna gegn hrörnun og auka geðheilbrigði og vellíðan.
- Fíkniröskun er heilbrigðis- og félagslegur vandi, ekki glæpsamlegt athæfi.
- Bætum ,,Húsnæði fyrst” úrræðin og tryggjum að sólarhringsþjónusta sé í boði, fjölgum fjölbreyttum búsetuúrræðum í tengslum við hugmyndafræðina.
- Komum upp viðunandi neyðarathvarfi fyrir konur án kröfu um vímuefnaleysi. Tryggjum að neyðarþjónusta sé í boði allan sólarhringinn sem og að konur sem nota vímuefni geti notið góðs af verkefninu ,,Saman gegn ofbeldi”.
- Þróum áfram neyslurými í samstarfi við ríkið og könnum möguleikann á að koma upp varanlegri staðsetningu.
- Það er mikilvægt að allt sem við gerum miðist að því að draga úr skaða, angist og kostnaði, hvort heldur sem er fjárhagslegum eða samfélagslegum.
- Unnið verði að afglæpavæðingu neysluskammta og samþykkt verði „Good Samaritan“ skaðaminnkunarlög sem snúa að því að tryggja að fólk geti kallað til aðstoðar fyrir þau sem lenda í ofskömmtun án þess að eiga á hættu að vera refsað.
- Tryggjum í samstarfi við ríkið að þar sem unnið er með fólki í neyslu séu til reiðu lyf sem gagnist gegn ofskömmtun, svo sem Naloxone. Samhliða sé skyndihjálparþjálfun starfsfólks tryggð sem fái viðeigandi þjálfun vegna notkun lyfanna.
- Boðið sé upp á viðbragðsteymi á stórum hátíðum á vegum sveitarfélaga sem gæti brugðist við í neyðartilvikum til dæmis þar sem fólk lendir í geðrofi eða ofskömmtun.
- Auka skal forvarnir gegn heimilisofbeldi og ofbeldi í nánum samböndum, bæði líkamlegu og andlegu, sem og stuðning við þolendur. Sérstaklega skal huga að auknum stuðningi fyrir þolendur sem eru með erlendan bakgrunn eða eru hinsegin, sem og heimilislausum konum og öðrum konum með fíkniröskun. Einnig þarf að bjóða upp á fræðslu og úrræði fyrir gerendur.
- Tryggjum algilda hönnun og aðgengi allra að þjónustu sveitarfélagsins-
- Samþykkjum og innleiðum aðgengisstefnu.
- Tryggjum að réttindi séu ekki falin á bak við aðgengishindranir og mismuni þannig notendum eftir getu, baklandi, menningarlegum bakgrunni eða tungumálakunnáttu.
- Tökum mið af stöðlum um algilda hönnun og aðgengi í víðum skilningi, sem hentar öllum og útilokar engin, í allri upplýsingagjöf, við mótun þjónustu, við útfærslu húsnæðis og almenningsrýmis. Eflum stjórnsýsluna þegar kemur að þessum verkefnum með aðgengissérfræðingum sem yfirfara áætlanir og veita ráðgjöf um nauðsynlegar úrbætur.
- Ávallt skal litið til þess við hönnun nýbygginga eða endurgerð húsnæðis að búningsklefar, salerni og önnur rými taki mið af algildri hönnun og fjölbreyttum þörfum óháð kynjum, fötlun og færni.
- Viðburðir og útfærsla rýma á vegum sveitarfélaga taki mið af mismunandi aðgengisþörfum hvort sem það er líkamlegt, geðrænt eða skynrænt aðgengi.
- Fjölgum sérfræðingum í hinsegin málefnum sem starfa hjá sveitarfélögum.
- Reykjavíkurborg virði öll fjölskyldumynstur til jafns, óháð kynferði, kynhneigð, kyntjáningu, kynvitund eða annars kyngervis.
- Tryggja skal gott aðgengi að túlkaþjónustu til þess að tryggja að öll sem þurfa geti nýtt þjónustu borgarinnar.
- Innleiðum sjálfvirka textun á fundum sveitastjórna.
- Við fjárhagsáætlanagerð skal gæta sanngirni með tilliti til jafnréttis og fjölbreytileika styrkþega. Útdeilingum styrkja úr styrkjapottum fylgi krafa um framfylgd jafnréttisstefnu.
- Nýtum auðlesið og einfalt mál í texta og tali.
-Tryggjum jafnt aðgengi ólíkra hópa að samfélaginu -
- Innleiðum Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks
- Þrýstum á uppfærslu reglugerða er varða mannvirkjamál í takt við lög um kynrænt sjálfræði.
- Stuðlum að almennri vitundarvakningu um gæði fjölbreytileikasamfélagsins.
- Styðjum við inngildingu (e. inclusion) og jafnt aðgengi fjölbreyttra hópa og menningarheima að samfélaginu og tækifærum.
- Vinna skal gegn margþættri mismunun og styrkja stöðu jaðarhópa, svo sem hinsegin fólks og kvenna af erlendum uppruna og allra þeirra sem eiga undir högg að sækja. Stuðla skal að valdeflingu þeirra með betra aðgengi að upplýsingum um réttindi og úrræði sem eru í boði á viðeigandi tungumáli.
- Aukum sýnileika félagsmiðstöðva og eflum þær sem samfélagshús í hverfum fyrir alla aldurshópa.
- Vinnum gegn fordómum með frekari blöndun mismunandi hópa í starfsemi sveitarfélagsins.
- Nýtum félagsstarf fullorðinna sem vettvang til umfjöllunar um fjölbreytileika og virðingu fyrir mismunandi skoðunum. Tryggjum að félagsstarf á vegum borgarinnar fagni fjölbreytileikanum.
- Endurskoðum félagsstarf fullorðinna byggt á fyrirliggjandi greiningum til að tryggja nægt aðgengi, fjölbreytileika og gæði starfsins.
-Stuðlum að jöfnu aðgengi og jafnrétti í skóla-, frístunda- og tómstundastarfi-
- Íþrótta- og tómstundafélög sem fá styrki frá sveitarfélaginu fylgi virkri jafnréttisstefnu sveitarfélagsins.
- Íþróttahreyfingin skal vera aðgengileg fyrir öll óháð kyni, kynhneigð, uppruna, færni, efnahag eða annarri stöðu.
- Veitum góðar upplýsingar um íþróttir og tómstundir á öðrum tungumálum en íslensku.
- Veitum börnum og ungmennum nægan stuðning til íþrótta- og tómstundaiðkunar óháð færni með þeim hætti sem hentar hverjum einstaklingi.
- Tryggjum að starfsfólk íþrótta- og tómstundafélaga fái virka og endurtekna jafnréttis- og hinseginfræðslu.
- Gerum móðurmálskennslu barna með annað móðurmál en íslensku gjaldfrjálsa.
- Aukum jafnréttis-, hinsegin-, kynja- og kynfræðslu í skólum og tryggjum að öll börn hljóti slíka fræðslu á mismunandi stigum skólakerfisins.
- Eflum Jafnréttisskólann verulega.
- Þrýstum á að háskólanemar í kennslu- og uppeldisfræði og kennarar í símenntun hljóti fullnægjandi fræðslu í kynja-, kyn- hinsegin- og jafnréttismálum.
- Þrýstum á framleiðslu góðra námsgagna fyrir jafnréttis-, hinsegin-, kynja- og kynfræðslu.
- Styrkjum hinsegin félagsmiðstöðina til að efla fræðslu- og félagsstarf í samstarfi við ríkið og í breiðu samstarfi sveitarfélaga.
- Styðjum við að félagsmiðstöðvar verði almennt hinseginvænni.
- Vinna skal gegn ofbeldi, einelti og öllu misrétti í skólaumhverfinu, sérstaklega skal huga að stafrænu ofbeldi og auka fræðslu um það.
-Styrkjum stöðu innflytjenda og fólks af erlendum uppruna, fjölgum tækifærum og stöndum vörð um réttindi þeirra-
- Sýnum frumkvæði í að bjóða innflytjendum og umsækjendum um alþjóðlega vernd upp á mannsæmandi aðstæður og aðbúnað þar sem unnið er gegn félagslegri einangrun.
- Sveitarfélög skulu veita innflytjendum, flóttafólki og umsækjendum um alþjóðlega vernd aðstoð við að þekkja sín réttindi. Neyðarúrræði skulu ávallt vera í boði óháð lögheimili eða stöðu fólks, svo sem skorti á kennitölu. Engin skulu þurfa að sofa á götunni.
- Öll þau sem eiga lögheimili í Reykjavík og hafa náð kosningaaldri ættu að hafa kosningarétt í sveitarstjórnarkosningum óháð uppruna.
- Ávallt skal leitast við að draga úr fordómum gagnvart fólki af erlendum uppruna með viðeigandi fræðslu.
- Styðjum við grasrótarstarfsemi sem ýtir undir samfélagsþátttöku og virkni fólks af erlendum uppruna á öllum aldri.
- Styrkjum tengsl og samvinnu við mismunandi hópa innflytjenda, stuðlum að trausti milli þeirra og þjónustustofnanna. Þróum áfram og eflum starfsemi brúarsmiða og sendiherra mismunandi hópa.
- Helsta forsenda virkrar þátttöku er aðgengi að upplýsingum. Stóreflum viðleitni sveitarfélaga til að koma upplýsingum til innflytjenda í samstarfi við ríkið.
-Styðjum við að sveitarfélög sem vinnustaðir endurspegli fjölbreytileika samfélagsins og séu til fyrirmyndar varðandi jafnrétti á starfsstað og vellíðan og ánægju í starfi-
- Stuðlum að fjölbreytni í mannauð borgarinnar og vinnum gegn óútskýrðum og útskýrðum launamun með því að uppfæra ráðningarferla, hvetja fjölbreytta hópa til þess að sækja um sem og að tryggja góða upplýsingagjöf um réttindi og fjarlægja óþarfar hindranir úr vegi framgöngu í starfi.
- Stuðlum að heilbrigði og vellíðan starfsfólks í hvívetna með metnaðarfullu mannauðsstarfi.
- Reykjavíkurborg sé fyrirmyndar í að bjóða upp á gott starfsumhverfi fyrir fólk með skerta starfsgetu.
- Eflum nám sem styður samfélags- og íslenskufærni innflytjenda. Slíkt nám skal vera aðgengilegt án tillits til efnahagsstöðu.
- Innkaupastefna skal gera kröfu um að verktakar sem samið er við skrifi undir ábyrgð á því að allir starfsmenn þeirra, undirverktaka og starfsmannaleiga fái laun, tryggingar og önnur kjör í samræmi við gildandi lög og kjarasamninga. Þannig má vinna gegn félagslegu undirboði og jaðarsetningu.
- Nám, menntun og reynslu erlendis frá þarf að meta af sanngirni og þrýsta þarf á að ríkið bjóði upp á skilvirkt mat á því.
- Eigum samtal við ríkið um breytingar á lögum sem geri mögulegt að taka á því þegar kjörnir fulltrúar ganga harkalega fram gegn starfsfólki og embættisfólki.
Við samþykkt þessarar tillögu falla úr gildi eftirfarandi stefnur:
Stefnur frá 2018 sem fjalla um mannréttinda- og velferðarmál:
Uppfærð jafnréttisstefna: https://x.piratar.is/polity/102/issue/389/
Málefni innflytjenda: https://x.piratar.is/polity/102/issue/369/
Kjarnastefna velferðar: https://x.piratar.is/polity/102/issue/380/
Fjárhagsaðstoð Reykjavíkur: https://x.piratar.is/polity/102/issue/379/
Félagslegt húsnæði og húsnæðisstuðningur: https://x.piratar.is/polity/102/issue/378/
Málefni aldraðra: https://x.piratar.is/polity/102/issue/381/
Aðstoð við jaðarsetta einstaklinga: https://x.piratar.is/polity/102/issue/377/
Málefni fatlaðs fólks: https://x.piratar.is/polity/102/issue/359/
Tilheyrandi mál: | Mannréttinda- og velferðarstefna Pírata í Reykjavík |
---|
Útgáfur
# | Staða | Höfundur | Lýsing |
---|---|---|---|
1 | Samþykkt | Gormur | Allar stefnur vegna kosninga 2022: Fundargerð félagsfundar: https://github.com/piratar/Skjalasafn/blob/master/Fundargerdir/Adildarfelog/Piratar%20i%20Reykjavik/FelagsfundurPiR1-4-2022.pdf |