Tillaga: Grunnstefna stjórnsýslu og lýðræðis
Grunnstefna stjórnsýslu og lýðræðis
Með tilliti til:
- Greinar §4 í grunnstefnu Pírata um gagnsæi og ábyrgð
- Greinar §6 í grunnstefnu Pírata um beint lýðræði og sjálfsákvörðunarrétt
- Stefnu Pírata um stjórnsýslu á sveitarstjórnarstigi ( https://x.piratar.is/polity/1/document/75/?v=2 )
- Stöðuskýrslu þjónustu- og kjarnateyma Þjónustu- og rekstrarsviðs Reykjavikurborgar, desember 2006 ( http://reykjavik.is/sites/default/files/ymisskjol/skjolutgefidefni/Tjonustuteymistoduskyrsla_2006.pdf )
álykta Píratar í Reykjavík að:
Borgarstjóri sé fulltrúi almennra borgarbúa inn í borgarstjórn og aðhaldsafl gagnvart henni í þeirra beina umboði. Því sé eðlilegast að hann verði kosinn beinni kosningu af borgarbúum. Borgarstjóri skuli því á næsta kjörtímabili ráðinn til tveggja ára til að byrja með. Á því tímabili skuli leitast við að breyta sveitarstjórnarlögum og skapa lagaramma fyrir kosningar á borgarstjóra og hlutverk hans. Að því loknu skuli fara fram slík kosning.
Stefnt skuli að því að gagnsæi í stjórnsýslunni verði algjört og nái til allra ferla við ákvarðanatökur. Fundargerðir og önnur opinber skjöl verði gerð aðgengileg á netinu. Tryggja beri að upplýsingar um öll útgjöld borgarinnar, dótturfyrirtækja hennar, byggðarsamlaga og ráðstöfun styrkja sem borgin veitir séu gefnar upp. Upplýsingar á rafrænu formi séu settar inn tímanlega og uppfærðar reglulega. Slík upplýsingagjöf lúti þó í öllum tilfellum viðeigandi persónuverndarsjónarmiðum og lögum.
Að skilgreint verði hlutverk ábyrgðarmanns upplýsingagagnsæis hjá Reykjavíkurborg sem ber ábyrgð á því að öll gögn sem vísað er í, t.d. í fundargerðum, séu gerð auðsýnileg og aðgengileg á vef Reykjavíkurborgar við allra fyrsta tækifæri.
Þjónusta við borgarbúa verði einfölduð og gerð sjálfvirk eins og hægt er. Unnið verði þar meðal annars eftir svonefndum Áttavitum að framúrskarandi þjónustu sem voru settir niður á vegum Þjónustu- og rekstrarsviðs Reykjavíkurborgar árið 2006 en aldrei innleiddir á sínum tíma. Á „Mínum síðum“ á vef Reykjavíkurborgar verði boðið í eins miklum mæli og hægt er upp á að senda inn erindi og fylgjast með þeim rafrænt. Þegar íbúi ber fram erindi til stjórnsýslunnar skal taka við því, þar sem hann ber erindið fram, í stað þess að vísa honum annað.
Að „Betri Reykjavík“ verði gerð enn betri með því að auka raunveruleg áhrif borgarbúa á ráðstöfun eigin skattfjár. Sett verði það markmið að borgarbúar fái beina aðkomu að ráðstöfun a.m.k. 1000 mkr. að lágmarki á ári í stað 300 mkr. líkt og nú er boðið upp á. Einnig að Betri Reykjavík, eða sambærilegar lýðræðislausnir sem byggjast á opnum hugbúnaði, verði innbyggð í vef Reykjavíkurborgar með það fyrir augum að auka tillögu- og ákvarðanarétt borgarbúa.
Áhrifamáttur hverfaráða á stjórnsýsluákvarðanir verði verulega aukinn.
Óháð stjórnsýsluúttekt verði gerð á því hvort spilling sé til staðar innan embættismannakerfis Reykjavíkurborgar og bregðast skuli við ef svo reynist vera.
Útgáfur
# | Staða | Höfundur | Lýsing |
---|---|---|---|
1 | Samþykkt | tharfagreinir | |
2 | Tillaga | Kristinelfa |
|