Samþykkt: Lagabreytingatillaga: Ýmsar lagfæringar
1. Grein 2.1. orðist svo:
Félagið er aðildarfélag stjórnmálaflokksins Pírata. Starfssvæði þess er Reykjavík.
2. Grein 2.2. orðist svo:
Félagið setur sér stefnu í opnu ferli og vinnur að framgangi hennar og stefnu Pírata með öllum þeim aðferðum sem því standa til boða. Félagið ber ábyrgð á framboði undir nafnið Pírata til sveitarstjórnarkosninga á starfssvæði sínu. Félagið ber einnig ábyrgð á framboði undir nafni Pírata til Alþingiskosninga í Reykjavíkurkördæmi Suður og Reykjavíkurkjördæmi Norður.
3. Grein 3.2. orðist svo:
Félagi í félaginu er sjálfkrafa aðili að Pírötum.
4. Grein 5.4 orðist svo:
Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:
1. Kosning fundarstjóra og fundarritara
2. Skýrsla stjórnar lögð fram
3. Reikningar lagðir fram til samþykktar
4. Lagabreytingar
5. Kosning stjórnar
6. Kosning varamanna í stjórn
7. Kjörnir tveir skoðunarmenn reikninga
8. Kosning í önnur embætti samkvæmt lögum þessum
9. Önnur mál
5. Grein 6.2. orðist svo:
Lögum félagsins má breyta á aðalfundi með 2/3 atkvæða aðila félagsins sem sitja aðalfund. Tillaga að lagabreytingu á aðalfundi skal eigi afgreidd nema hún sé skýr og lögð fram skriflega.
6. Grein 6.3. orðist svo:
Lögum félagsins má einnig breyta með samþykki 2/3 greiddra atkvæða í rafrænu kosningakerfi Pírata. Sérstök boð skulu send út til félagsmanna um að lagabreytingatillaga sé til kosningar þegar hún hefst.
7 Grein 6.4. orðist svo:
Atkvæðarétt innan rafræns kosningakerfis Pírata hafa þeir félagar í Pírötum í Reykjavík sem jafnframt hafa verið félagar í Pírötum í að minnsta kosti 30 daga samfellt.
8. Grein 6.8 orðist svo:
Þegar mál fer til afgreiðslu í rafrænt kosningakerfi Pírata skal vera settur 5 sólarhringa umræðutími og fer kosning fram um leið og honum lýkur. Kosning skal standa yfir í 5 sólarhringa.
9. Grein 6.9. orðist svo:
Þegar málefni fer í rafrænt kosningakerfi skv. gr. 6.5 má leggja til, með samþykki stjórnar félagsins, flýtimeðferð á atkvæðagreiðslunni en hún stendur þá yfir í sólarhring eftir umræður í sólarhring. Slíka ákvörðun þarf að staðfesta með hefðbundnum rafrænum kosningum sem fara af stað samtímis. Skulu sérstök boð vera send til félagsmanna um að slík tillaga sé til kosningar.
10. Grein 8.3. orðist svo:
Atkvæðagreiðslur um framboðslista skulu fara fram í rafrænu kosningakerfi Pírata sem standa skulu yfir í að minnsta kosti 7 sólarhringa en þó aldrei lengur en 10 sólarhringa. Með atkvæðarétt skal fara eftir grein 6.4 og skal þeim félögum er atkvæðarétt hafa tilkynnt að slík framboðslistakosning sé í gangi. Við framkvæmd kosninganna skal að öðru leyti fara eftir lögum Pírata um framboðslistakosningar.
11. Grein 8.6 orðist svo:
Hafi ekki nógu margir frambjóðendur boðið sig fram á framboðslistann til að fylla þann lágmarksfjölda sem kveðið er á um í landslögum skal samt sem áður halda framboðslistakosninguna. Stjórn félagsins er heimilt að raða í neðstu sæti listans eftir að kosning var haldin, upp að þeim hámarksfjölda sæta sem landslög kveða á um. Notfæri hún sér þá heimild má hún eingöngu raða þeim sem hafa veitt henni skriflegt leyfi til þess ásamt því að uppfylla kjörskilyrði þau sem aðrir frambjóðendur á listann þurftu að uppfylla.
12. Grein 8.8. orðist svo:
Atkvæðagreiðslur samkvæmt þessum kafla skulu ætíð vera leynilegar. Fari kosningar fram á félagsfundi skulu þær vera skriflegar og að öðru leyti fara þær eftir tilhögun félagsfunda samkvæmt lögum þessum. Ákvarðanir samkvæmt þessum kafla má eingöngu taka þegar tilgreint er í fundarboði að tiltekin tillaga liggi fyrir. Þegar niðurstaða félagsfundar liggur fyrir skal tilkynna hana á viðeigandi Píratavettvangi innan tveggja sólarhringa frá því fundi var slitið. Framboðslistakosningar sem félagsfundur ákveður á grundvelli þessa kafla skulu hefjast innan tveggja mánaða frá því að tilkynning barst.
13. Grein 8.11 orðist svo:
Frambjóðandi hefur rétt, allt fram að þeim tíma sem framboðslisti er lagður fram á grundvelli greinar 8.7, til þess að óska eftir að hann sjálfur verði felldur út af listanum eða færður niður í lægra sæti að eigin vali. Stjórn félagsins er rétt og skylt að verða við slíkri ósk og hliðra til öðrum frambjóðendum á lista í samræmi við hana. Ef fleiri en einn frambjóðandi óskar þess að verða færður niður í tiltekið sæti er það á ábyrgð þeirra frambjóðenda og stjórnar að leysa úr því í sameiningu. Stjórn skal þó hafa úrslitavald í þessum efnum.
14. Við bætist grein 9.3., svohljóðandi:
Sé misræmi milli þessara laga og laga Pírata skulu lög Pírata gilda.
Tilheyrandi mál: | Lagabreytingatillaga: Ýmsar lagfæringar |
---|
Útgáfur
# | Staða | Höfundur | Lýsing |
---|---|---|---|
1 | Samþykkt | tharfagreinir |