Meirihlutasáttmáli SÆVÞ 2014
Málsnúmer: | 10/2014 |
---|---|
Tillaga: | Meirihlutasáttmáli SÆVÞ 2014 |
Höfundur: | tharfagreinir |
Í málaflokkum: | Innra skipulag Pírata í Reykjavík |
Upphafstími: | 11/06/2014 17:12:00 |
Atkvæðagreiðsla hefst: | 11/06/2014 18:12:00 (0 minutes) |
Atkvæðagreiðslu lýkur: | 12/06/2014 18:12:00 (0 minutes) |
Atkvæði: | 24 (1 sitja hjá) |
Já: | 24 (100,00%) |
Nei: | 0 |
Niðurstaða: | Samþykkt |
Meirihlutaþröskuldur: | 50,00% |
Umræða
Þessu máli lauk fyrir nokkru síðan og er því krafist innskráningar til að sjá umræðu.
SAMSTARFSSÁTTMÁLI
Við myndun meirihluta borgarstjórnar Reykjavíkur 2014-2018
Elliðaárdalur 11. júní 2014
INNGANGUR
Við sem myndum meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur komum úr ólíkum áttum en stefnum nú að sama markmiði. Með hreinskilni og heiðarleika að leiðarljósi ætlum við að læra hvert af öðru og mynda heild sem er auðugri en summa okkar samanlögð.
Við viljum leggja okkar af mörkum til að búa til borg í þessum sama anda. Með flóknara og hraðara samfélagi og aukinni fjölmenningu viljum við frekar að huga að því sem sameinar okkur en að ala á sundrungu.
Við viljum friðsælt, réttlátt og frjálslynt samfélag þar sem allir sitja við sama borð og lúta sömu leikreglum. Við styðjum við kvenfrelsi og baráttu ólíkra hópa fyrir jafnri stöðu á þeirra eigin forsendum. Við hlúum að grasrótinni þar sem réttlætið og mannúðin dafna best. Virðing fyrir öllu fólki, komandi kynslóðum og náttúrunni verður sett í öndvegi.
Síðast en ekki síst viljum við að það sé ekki bara okkar vilji sem gildi. Við viljum efla lýðræðið svo að kraftar allra borgarbúa nýtist við stefnumörkun og ákvarðanatöku hins opinbera.
Við hlustum á alls konar raddir og sköpum þeim vettvang. Með opnari stjórnsýslu verður samræðan upplýstari, ákvarðanatakan skilvirkari og sáttin meiri.
STJÓRNKERFI OG LÝÐRÆÐI
Gagnsæi og aukið íbúalýðræði er eitt af meginverkefnum kjörtímabilsins. Markmiðið er að auka traust, bæta upplýsingamiðlun og hvetja til lýðræðislegrar þátttöku. Stjórnkerfis- og lýðræðisráð verði fastanefnd í stjórnkerfi borgarinnar. Ráðið hafi það hlutverk að finna og þróa leiðir til að opna stjórnkerfi og bókhald borgarinnar, bæta skilvirkni og viðmót þjónustunnar og auka þátttöku íbúa í ákvarðanatöku.
Stofnað verði embætti erindreka gagnsæis og samráðs sem vinnur með stjórnkerfis- og lýðræðisráði að verkefnum þess.
Unnar verði tillögur um eflingu nærþjónustu og hlutverk hverfaráða.
Gerð verði úttekt á kostum og göllum Betri Reykjavíkur og Betri hverfa og gerðar tillögur um næstu skref í rafrænu þátttökulýðræði.
Unnin verði samþykkt um verkaskiptingu kjörinna fulltrúa og embættismanna. Hlutverk hvers og eins í þátttökulýðræði verði einnig skilgreint.
Unnin verði samþykkt um framkvæmd íbúakosninga.
Áhersla verði lögð á að nýta opinn og frjálsan hugbúnað, þar sem því verður við komið, á öllum stigum stjórnsýslu og þjónustu.
Á kjörtímabilinu verður meginreglan sú að borgin sér um rekstur leik- og grunnskóla og velferðarþjónustu. Samstarf við grasrótar- og hagsmunasamtök verði skoðað, komi slíkar hugmyndir upp, sem og einkarekstur án arðsemissjónarmiða og aukinnar gjaldtöku.
HÚSNÆÐISMÁL
Borgin beiti sér fyrir því að 2.500 - 3.000 leigu- og búseturéttaríbúðir fari í uppbyggingu í Reykjavík á næstu þremur til fimm árum. Uppbyggingin verði blanda alls konar íbúða; almennra, stúdentaíbúða, íbúða fyrir fjölskyldur og einstaklinga, íbúða fyrir fatlað fólk,
heimilislausa og eldra fólk.
Stefnt verði að því að húsnæðisstuðningur verði einstaklingsbundinn og taki mið af stöðu viðkomandi. Sérstakar húsaleigubætur verði óháðar því hver á eða rekur leiguhúsnæði og þær verði teknar til endurskoðunar samhliða innleiðingu húsnæðisbóta.
Við ætlum að ljúka vinnu við eigendastefnu fyrir Félagsbústaði. Sérstök áætlun verði unnin um fjölgun félagslegra íbúða, hvort sem er með byggingu eða kaupum.
Söfnun, miðlun og birting upplýsinga á sviði húsnæðismála verði bætt.
SKÓLA- OG FRÍSTUNDAMÁL
Við viljum virkja styrkleika allra barna og ungmenna, tryggja að þeim líði vel, kveikja áhuga þeirra og ýta undir sköpun og frumkvæði. Við viljum að börn og ungmenni hafi meiri áhrif á það hvað þau læra og markmið skóla verði að öll börn stundi nám við sitt hæfi, í samræmi við þroska, áhuga og færni.
Við viljum auka sveigjanleika og sjálfstæði kennara og skólastjórnenda til að þróa, bæta og auka fjölbreytni í skóla- og frístundastarfi í borginni, í samráði og samstarfi við foreldra og nemendur. Við viljum vinna með kennurum að því að gera kennarastarfið eftirsóknarverðara, með tilliti til kjara, starfsþróunar og vinnuumhverfis.
Við viljum gera verk-, tækni- og listgreinum jafnhátt undir höfði og bóklegum greinum og leggja áherslu á læsi í víðum skilningi. Við stöndum vörð um sköpun og leik sem kjarna leikskólastarfsins. Við viljum að allur þorri barna geti lesið sér til gagns í grunnskólanum.
Reykjavíkurborg hrindi í framkvæmd áætlun um eflingu móðurmálskennslu barna af erlendum uppruna. Sett verði á fót þróunarverkefni þar sem boðin verði kennsla í algengustu tungumálunum í grunnskólum borgarinnar.
Lögð verði áhersla á jafnan aðgang barna að fjölbreyttu og skapandi frístundastarfi. Mótuð verði stefna um frístundaþjónustu og félagsstarf fyrir alla Reykvíkinga, með sérstaka áherslu á börn og unglinga.
Samfella og samvinna milli skólastiga verði aukin. Áhersla verði lögð á samvinnu sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu í skóla- og frístundamálum. Áætlun verði unnin um að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla og viðræður teknar upp við ríkisstjórn og Alþingi um að ná því markmiði.
BÆTT KJÖR BARNAFJÖLSKYLDNA
Gjaldskrár verði samræmdar og einfaldaðar. Á árinu 2015 verður fjármagn til skóla- og frístundasviðs aukið um 100 mkr. og árið 2016 verða settar 200 mkr. til viðbótar til lækkunar á námsgjöldum í leikskólum. Einnig verði teknir upp systkinaafslættir þvert á skólastig. Þá verði frístundakort hækkað um 5000 kr. á barn, hvort ár. Stefnt verði að því að taka frekari skref til að bæta kjör barnafjölskyldna á síðari hluta kjörtímabilsins. Þær ákvarðanir taki mið af stöðu borgarsjóðs.
UMHVERFIS- OG SKIPULAGSMÁL
Nýtt Aðalskipulag Reykjavíkur verður leiðarljós í skipulags- og umhverfismálum.
Kynning og upplýsingagjöf til íbúa verði bætt í tengslum við skipulagsmál, bæði stór
og smá.
Hverfisskipulag verði unnið í nánu samráði við íbúa viðkomandi hverfa. Markmið skipulagsins verði sjálfbær hverfi með heildstæða þjónustu, græn svæði og fjölbreyttar samgöngur. Við viljum efla hverfisvitund í öllum hverfum.
Við viljum minnka svifryk og mengun af mannavöldum. Unnið verði að eflingu strætó, auknum forgangi almenningssamgangna í umferðinni og áframhaldandi uppbyggingu hjólastíganets í samræmi við hjólreiðaáætlun. Komið verði á fót hjólaleigukerfi í Reykjavík. Við viljum efla BSÍ sem samgöngumiðstöð. Við viljum vinna að bættri umgengni, minnka sóun, þróa græn innkaup og bókhald og auka endurvinnslu.
Menntun til vistvænni samgönguhátta verði aukin.
Við viljum standa vörð um vatn sem auðlind.
Unnin verði viðbragðsáætlun vegna loftslagsbreytinga.
Björgunaráætlun Orkuveitu Reykjavíkur verði fylgt og áhersla lögð á þau brýnu úrlausnarefni sem fyrirtækið stendur frammi fyrir á sviði umhverfismála.
VELFERÐ
Áhersla verði lögð á einstaklingsbundinn stuðning til sjálfshjálpar og virkni. Þeim sem þarfnast fjárhagslegrar aðstoðar verði boðin tækifæri til vinnu, náms, starfsendurhæfingar eða meðferðar. Vinnufærum einstaklingum án atvinnu verði fundin störf í samvinnu við atvinnulífið, eftir því sem kostur er. Sérstök áhersla verði lögð á forvarnir og virkni ungs fólks.
Nauðsynlegt er að auka fé til málaflokks fatlaðs fólks. Það verði m.a. sótt með samningum við ríkið.
Við viljum gera eldra fólki kleift að búa heima með því að efla heimaþjónustu. Við viljum einnig fjölga hjúkrunarrýmum í samstarfi við ríkið.
Við viljum efla stuðning við fjölskyldur barna og ungmenna í vanda og samræma upplýsingar um þau úrræði sem í boði eru.
Styrkja þarf stöðu barnaverndarnefndar og efla barnavernd, m.a. með auknu samstarfi á höfuðborgarsvæðinu.
Öldungaráð verði loksins stofnað.
Áhersla verði lögð á að bæta stöðu utangarðsfólks og fíkla. Skaðaminnkandi úrræði verði efld eða tekin upp þar sem við á.
MANNRÉTTINDAMÁL
Mannréttindastefna Reykjavíkurborgar verði uppfærð og endurskoðuð, þ.m.t. hlutverk mannréttindaskrifstofu og mannréttindaráðs.
Við viljum leggja sérstaka rækt við fjölmenningu og efla fjölmenningarráð.
Reykjavík taki vel á móti nýjum íbúum með því að kynna þeim réttindi og skyldur og þá þjónustu sem er í boði.
Samstarf og samráð við grasrótarsamtök á sviði mannréttindamála verði aukið.
Við viljum að Reykjavíkurborg verði fyrirmyndaratvinnurekandi sem endurspegli fjölbreytni samfélagsins.
Áætlun um að útrýma kynbundnum launamun verði framfylgt.
Áfram verði unnið gegn skaðlegum áhrifum staðalmynda, klámvæðingar og vændis og spornað gegn kynbundnu ofbeldi af öllum toga.
ÍÞRÓTTA- OG TÓMSTUNDAMÁL
Áhersla verði lögð á lýðheilsu og almenningsíþróttir fyrir öll æviskeið og að frístundatilboð séu á viðráðanlegu verði.
Við viljum halda áfram að flétta íþróttir, hreyfingu og tómstundir inn í samfelldan skóladag barna. Sérstök áhersla verði lögð á að kynna þau fjölbreyttu tækifæri sem eru til útivistar og íþróttaiðkunar um alla borg. Eflum jaðaríþróttir og almenna útivist.
Stutt verði við faglegt starf innan íþróttahreyfingarinnar, auk fræðslu um meðferð eineltismála og kynferðislega áreitni.
Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn verði efldur.
Ný sundlaug og íþróttamannvirki verði byggð í Úlfarsárdal og útilaug við Sundhöllina.
ATVINNU- OG FERÐAMÁL
Atvinnustefna borgarinnar er leiðarljós við þróun atvinnusvæða og aðkomu borgarinnar að atvinnumálum.
Reykjavík á að leggja áherslu á gott viðmót og þjónustu gagnvart atvinnulífi og fyrirtækjum.
Við viljum stuðla að uppbyggingu skapandi greina, þekkingargreina og græna hagkerfisins.
Áfram verði áhersla á að efla Reykjavíkurborg sem ferðamannastað allt árið.
Frekari uppbyggingu gistirýma og hótela verði dreift með skynsamlegum hætti um borgina.
MENNINGARMÁL
Ný menningarstefna borgarinnar er leiðarljós í menningarmálum.
Við viljum leggja áherslu á listir fyrir og með börnum.
Byggt verði við Grófarhús og Café Cultura endurreist.
Við viljum auka stuðning við grasrótarstarf í menningarlífinu.
Borgarhátíðirnar verði þróaðar áfram og efldar.
Gert verði ráð fyrir fjölbreyttri list í almenningsrými strax á skipulagsstigi.