Félagslegt húsnæði og húsnæðisstuðningur
Málsnúmer: | 14/2018 |
---|---|
Tillaga: | Félagslegt húsnæði og húsnæðisstuðningur |
Höfundur: | epli |
Í málaflokkum: | Velferðar- og forvarnamál |
Upphafstími: | 05/04/2018 15:43:36 |
Atkvæðagreiðsla hefst: | 10/04/2018 15:43:36 (0 minutes) |
Atkvæðagreiðslu lýkur: | 15/04/2018 15:43:36 (0 minutes) |
Atkvæði: | 17 |
Já: | 16 (94,12%) |
Nei: | 1 |
Niðurstaða: | Samþykkt |
Meirihlutaþröskuldur: | 50,00% |
Umræða
Þessu máli lauk fyrir nokkru síðan og er því krafist innskráningar til að sjá umræðu.
Félagslegt húsnæði og húsnæðisstuðningur
Hluti af velferðarstefnu Pírata í Reykjavík
Með tilvísun í:
Grein §2 í grunnstefnu Pírata um borgararéttindi
Grein §4 í grunnstefnu Pírata um gagnsæi og ábyrgð
Grein §5 í grunnstefnu Pírata um upplýsinga- og tjáningarfrelsi
Grein §6 í grunnstefnu Pírata um beint lýðræði og sjálfsákvörðunarrétt
og með tilliti til:
Upplýsingastefnu Reykjavíkurborgar
Þjónustustefnu Reykjavíkurborgar
Laga um félagsþjónustu sveitarfélaga
Ársskýrslu umboðsmanns borgarbúa 2016 - 2017
Álykta Píratar í Reykjavík að:
Húsnæði skuli viðurkenna sem eina af mikilvægustu grunnþörfum fólks.
Við mat á rétti til aðstoðar vegna húsnæðis skuli eingöngu notast við mælanlega kvarða á persónulegum högum fólks.
Til undantekningar megi þó nota mat á öðrum aðstæðum ef tekjur eru yfir viðmiði, þegar tilefni er til. Viðmiðunarreglur um slíkt mat skulu vera opnar og aðgengilegar öllum.
Heimilt verði einnig að nota mat á félagslegum aðstæðum fólks við forgangsröðun á úthlutun á félagslegu húsnæði. Viðmiðunarreglur um slíkt mat skulu vera opnar og aðgengilegar öllum.
Draga skuli úr tekjuskerðingum í húsnæðisstuðningi. Byrjað skuli á að hækka tekjumörk og tekjutengingarkerfið síðan endurskoðað í heild sinni.
Borgin tryggi gott og fjölbreytt framboð af félagslegu húsnæði í öllum hverfum.
Félagsbústöðum ohf. skuli gert að fjölga félagslegu húsnæði og sértækum búsetuúrræðum með öllum mögulegum leiðum til að vinna á biðlistum eftir húsnæði. Borgarstjórn skuli jafnframt styðja við þetta verkefni með öllum mögulegum leiðum.
Reykjavíkurborg tryggi fjölbreytt framboð á húsnæði sem hentar fötluðu fólki í öllum tekjuhópum. Leitast skuli m.a. við að vinna með hagsmunasamtökum fatlaðs fólks að þessu markmiði.
Gert sé ráð fyrir fjölbreyttum búsetuúrræðum í félagslegu húsnæði til dæmis sjálfbærum samfélögum þar sem fólk geti búið saman.
Unnið skal í sameiningu að því að öll sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu axli sinn hluta ábyrgðarinnar á því að tryggja framboð á félagslegu húsnæði.
Réttinda leigjenda sé gætt í hvívetna.
Setja skuli Félagsbústöðum eigendastefnu þar sem kröfur Reykjavíkurborgar gagnvart félaginu eru skýrt tilgreindar.
Leigjendum hjá Félagsbústöðum verði gert auðveldara að flytja sig á milli félagslegs húsnæðis, í samræmi við sínar eigin þarfir og óskir.
Félagsbústaðir skuli ávallt tryggja að aðstæður í húsnæði á þeirra vegum séu fullnægjandi. Ef upp koma ófullnægjandi eða heilsuspillandi aðstæður skuli bætt úr þeim án tafar.
Íbúum í félagslegu húsnæði skuli tryggður réttur til gæludýrahalds, í samræmi við almennar reglur um dýrahald.
Þar sem það á við skyldi bjóða íbúum í félagslegum íbúðum sem hyggjast fara úr félagslega kerfinu möguleika á að kaupa íbúðina sem þau hafa búið í.
Félagsbústaðir beri ábyrgð á leigjendum sínum gagnvart sameign húsanna. Hægt verði að bjóða upp á úrræði, s.s. félagslega heimaþjónustu eða annan stuðning, til að aðstoða leigjendur við að rækja skyldur sínar gagnvart nágrönnum.
Greinargerð:
Í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga segir að „Sveitarstjórnir skulu, eftir því sem kostur er og þörf er á, tryggja framboð af leiguhúsnæði, félagslegu kaupleiguhúsnæði og/eða félagslegum eignaríbúðum handa þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar eða annarra félagslegra aðstæðna.” Einnig segir í lögunum að sveitarfélög skuli veita sérstakan húsnæðisstuðning í samræmi við nánari reglur sem sveitarstjórn setur. Ljóst er að Reykjavíkurborg hefur því ríkum skyldum að gegna þegar kemur að því að tryggja öllum íbúum húsnæði - en hefur jafnframt ákveðið svigrúm til túlkunar á því hversu langt þær skyldur nái. Slíkt er ávallt pólitísk ákvörðun en Píratar í Reykjavík líta á húsnæði sem mikilvæga grunnþörf. Því ætti borgin að gera allt sem hún getur til að tryggja að enginn sé heimilislaus.
Þetta má gera með því að fjölga fjölbreyttum félagslegum húsnæðisúrræðum, notast við skýra hlutlæga mælikvarða þegar mat er lagt á rétt á húsnæðisaðstoð, og draga úr tekjuskerðingum á húsnæðisstuðningi. Jafnframt er mikilvægt að gæta réttinda þeirra sem leigja félagslegt húsnæði í hvívetna, bregðast skjótt við ef heilsuspillandi aðstæður koma upp og auka sveigjanleika gagnvart því hvar fólk býr innan félagslega kerfisins. Eðli málsins samkvæmt fylgir þessum áherslum ákveðinn kostnaður, en þá þarf einfaldlega að leita allra leiða til þess að fjármagna þær og forgangsraða í þágu þeirra.
Þessar áherslur eru meðal annars til komnar út frá athugasemdum umboðsmanns borgarbúa, en í ársskýrslu hans 2016-2017 bendir hann á ákveðin úrbótatækifæri þegar kemur að réttindum leigjenda hjá Félagsbústöðum og þeirra sem bíða eftir að komast í húsnæði hjá borginni.